Starfsmannaleigur

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 15:17:53 (3064)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:17]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég fór í andsvör við hv. þm. Siv Friðleifsdóttur vegna þess að ræða hennar var í raun eitt stórt táknrænt andsvar við ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Þá þótti mér kominn tími til að stjórnarandstöðuþingmaður vekti athygli á því að hann héldi með öðrum helmingi stjórnarliðsins gegn hinum helmingnum í málinu. En nú virðist það hafa verið einn stór misskilningur.

Við skulum taka vendilega niður hvað við erum öll sammála um, ég, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og Siv Friðleifsdóttir. Hvað er það? Þau samtök sem hér um ræðir, stjórn Alþýðusambands Íslands og samtök atvinnurekenda, sendu fulltrúa sína á fund félagsmálanefndar. Þeir sögðu að þeir bæðu í sjálfu sér ekki um neinar breytingar á frumvarpinu en virtu rétt Alþingis til að breyta því. Þetta er fínt. Þá er það komið. Við höfum þar með fullan rétt til, og höfðum hann reyndar fyrir, en það er mótmælalaust af hálfu þessara samtaka, að breyta frumvarpinu.

Þá kemur að máli númer tvö. Eigum við að breyta frumvarpinu? Það er allt annað mál. Hv. þingmenn Einar Oddur Kristjánsson og Siv Friðleifsdóttir hafa lengi velt því fyrir sér en hafa þó ekki komist að kjarna málsins: Eigum við að breyta frumvarpinu? Ég tel heppilegt að breyta frumvarpinu í þeim atriðum sem hér hafa verið tiltekin. Ég lít ekki svo á að það muni rifta þeim samningum sem samtök atvinnurekenda hafa gert við Alþýðusamband Íslands.

Eða er svo, forseti? Er hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson með boð um það? Hv. þingmaður tengist mjög öðrum þessara samtaka enda var hann formaður þeirra á sínum tíma þótt þau hétu þá öðru nafni. Er hann með boð um að samningunum verði rift ef Alþingi Íslendinga samþykki aukinn rétt verkamanna og verkalýðsfélaga í þeim tveimur atriðum sem við höfum lagt fram? Ég spyr, hann svarar.