Búnaðargjald

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 16:33:27 (3096)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Búnaðargjald.

332. mál
[16:33]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það frumvarp til laga sem hér er komið til 2. umr., um breytingu á lögum um búnaðargjald, er eins og hv. formaður landbúnaðarnefndar, Drífa Hjartardóttir, greindi frá að meginhluta til komið vegna sölu á Lánasjóði landbúnaðarins. Hann hefur verið seldur en til þessa hefur ákveðið gjald af landbúnaðarframleiðslu runnið til sjóðsins til að styrkja lánveitingar í landbúnaði.

Ég minni á að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs töldum ekki rétt að selja lánasjóðinn og lögðumst gegn því. Við höfðum aðrar tillögur og bentum t.d. á að Lánasjóður landbúnaðarins og Lífeyrissjóður bænda gætu sameinast og þar yrði ákveðin grunnlánaþjónusta við landbúnaðinn til jafnaðar. Við vitum að eftir sölu lánasjóðsins verður ekki jafn aðgangur að lánsfé eins og var, óháð búsetu eins og sjóðurinn tryggði á sínum tíma. Ég tel að það hafi aukið á misrétti og misvægi lánamöguleika til atvinnurekstrar og uppbyggingar í landbúnaði um allt land að hafa selt Lánasjóð landbúnaðarins.

Ég vil líka gagnrýna sölu lánasjóðsins varðandi það að þegar hann var boðinn til sölu voru sparisjóðirnir útilokaðir frá því að gera tilboð í hann. Þess var krafist að sú lánastofnun sem byði í hann hefði að baki sér alþjóðlegt lánshæfismat. Maður hefði haldið að sparisjóðirnir væru nógu sterkir gagnvart svo litlum sjóði að ekki þyrfti að krefjast þess en með því voru sparisjóðirnir útilokaðir frá kaupum.

Lánasjóðurinn er seldur og þar með er eðlilegt, ég hef fullan skilning á því, að fella niður það gjald sem áður rann af framleiðslunni til sjóðsins. Hins vegar tel ég að með frumvarpinu sé gengið lengra. Það hefði verið eðlilegt að taka einungis ákvörðun um að fella gjaldið niður.

Frumvarpið kom mjög seint inn í nefndina og ekki gafst tóm til að leita eðlilegra skriflegra umsagna um málið þótt þær breytingar sem þar eru gerðar snerti allmarga aðila með skiptingu á búnaðarmálasjóðsgjaldinu. Ég tel að það hefði átt að vinna það mál betur og get ekki stutt málsmeðferðina á þeim forsendum.

Hins vegar tek ég fram að ég styð félagslega uppbyggingu, að við stöndum vörð um félagslegt kerfi bænda og um samstöðu þeirra. Ég vísa á bug orðum, sem ég er alls ekki sammála, hv. þingmanns, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Péturs Blöndals sem taldi að brjóta ætti niður félagskerfi bænda. Ég tel mikilvægt og mun standa með öllum ráðum vörð um félagskerfi bænda, herra forseti.