Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 66. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 66  —  66. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samkeppnisstöðu fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Ásta Möller, Gunnar Örlygsson.


    Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að gera athugun á því hvort og á hvaða sviðum fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga eru í samkeppni gagnvart einkaaðilum, einnig að kanna hvort þessi fyrirtæki hafi eflt samkeppnisstöðu sína gagnvart einkafyrirtækjum á undanförnum árum.
    Ráðherra skili Alþingi skýrslu um málið fyrir 1. apríl 2006.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á 131. löggjafarþingi (þskj. 717, 465. mál). Þá fylgdi henni svohljóðandi greinargerð:
    „Stofnunum ríkisins hefur fjölgað og rekstur þeirra orðið æ umfangsmeiri á undanförnum árum. Sökum umfangs síns hefur rekstur ríkisins mikil áhrif á starfsumhverfi og starfsmöguleika fyrirtækja í landinu. Ýmsar vísbendingar hafa komið fram um það á síðustu missirum að ríkisstofnanir séu að teygja anga sína inn á fleiri svið sem einkafyrirtæki hafa eða geta alfarið sinnt. Stundum má rekja verkefni þessara stofnana til aukinna skyldna sem á þau eru lagðar samkvæmt lögum. Dæmi eru þó um að aukin verkefni ríkisstofnana stafi af rúmri túlkun á þeim lögum sem þær starfa eftir. Í sumum tilvikum hafa ríkisstofnanir þannig farið í beina samkeppni við einkaaðila um verkefni. Þá hefur þess gætt að ríkisstofnanir hafi í auknum mæli tekið yfir eða falið annarri ríkisstofnun verkefni sem þær hafa áður falið einkaaðilum. Ríkisstofnanir virðast jafnframt bjóða minna út en áður.
    Með þessari útvíkkun á starfsemi opinberra fyrirtækja standa stjórnvöld beint eða óbeint að því að þrengja að starfsemi einkafyrirtækja í landinu í stað þess að hlúa að þeim og skapa þeim eðlilegt svigrúm til að vaxa og dafna í heilbrigðu samkeppnisumhverfi. Það gætu þau m.a. gert með því að leitast við að skipta við einkafyrirtæki sé þess nokkur kostur og efla þannig atvinnulíf á Íslandi.
    Skoða þarf hvort lögbundnar skyldur stofnana kalli á sífellt meira umfang þeirra og hvort lagabreytinga sé þörf. Jafnframt þarf að skoða hvað af lögbundnum verkefnum ríkisstofnana er hægt að fela einkaaðilum. Það væri í samræmi við innkaupastefnu ríkisins. Í formála að riti fjármálaráðuneytisins Innkaupastefna ríkisins – Hagkvæmni, samkeppni, ábyrgð og gagnsæi, frá nóvember 2002, segir fjármálaráðherra eftirfarandi:
    „Ríkisstjórnin leggur áherslu á framkvæmd innkaupa, þannig að tryggt verði að öll opinber innkaup verði hagkvæm, opin, ábyrg og sanngjörn. Tilhögun innkaupanna miði að því að efla samkeppni á markaði ... Með því að fela einkaaðilum tiltekin verkefni er hægt að ná fram markmiðum um hagræðingu og aukna samkeppnishæfni og auka fjölbreytni þjónustunnar sem byggir upp þekkingu í þjóðfélaginu og nýtist öðrum aðilum á markaði. Innkaupastefnan nær því einnig til þess að bjóða út verkefni eða rekstrarþætti sem nú eru hluti af ríkisrekstri.“
    Hægt er að nefna mörg dæmi þar sem opinber fyrirtæki eru í beinni samkeppni við einkafyrirtæki.
    Landmælingar Íslands eiga að sinna ákveðinni grunnvinnu eins og viðhaldi og upplýsingagjöf. Stofnunin hefur þó aukið umsvif sín m.a. í framleiðslu gagna í samkeppni við einkafyrirtæki. Verði framhald á aukinni starfsemi Landmælinga munu þau einkafyrirtæki sem hafa sérhæft sig á þessu sviði hugsanlega leggja upp laupana og fjölbreytt þekking einkaaðila hverfa.
    Á vegum ríkisins eru starfandi ýmsar rannsóknastofur í samkeppni við einkaaðila. Þannig eru rannsóknastofur Landspítala – háskólasjúkrahúss í beinni samkeppni við einkareknar rannsóknastofur lækna um verkefni. Vorið 2004 lagði Heilsugæslan í Reykjavík niður rannsóknastarfsemi sína en samdi, án undangengins útboðs, við aðra ríkisstofnun, Landspítala – háskólasjúkrahús, um framkvæmd rannsókna á hennar vegum. Heilsugæslan hafði um langt árabil keypt hluta af rannsóknastarfsemi sinni frá einkaaðila, sem missti því stóran hluta af viðskiptum sínum við þennan gjörning. Þessi samningur hefur verið kærður til Samkeppnisstofnunar. Að sama skapi eru ríkisreknar rannsóknastofur á sviði örveru- og efnagreiningar í þjónustu við matvæla- og fóðuriðnað í beinni samkeppni við sambærilegar einkareknar rannsóknastofur, t.d. Rannsóknarþjónustuna Sýni ehf. Það fyrirtæki hefur opinberlega gert athugasemdir við skerta samkeppnisstöðu sína gagnvart opinberum rannsóknastofum.
    Siglingastofnun Íslands heyrir undir samgönguráðuneyti, sbr. lög nr. 6/1996. Stofnuninni er skipt upp í sex svið og eru starfsmenn hennar um 70. Skipurit stofnunarinnar er tiltölulega skýrt og ætti ekki að vera vandkvæðum bundið að koma verkefnum hennar á annarra hendur. Verkefni stofnunarinnar eru þau helst að annast framkvæmd ýmissa laga er lúta að höfnum og sæfarendum og að hafa umsjón með ríkisstyrktum sjóvarna- og hafnarframkvæmdum. Ýmsar verklegar framkvæmdir, auk þróunarvinnu, eru því á ábyrgð stofnunarinnar að ótöldum ýmsum áætlunum um öryggismál. Rekstur hennar kostar tæpar 770 millj. kr. á ári. Mörg einkafyrirtæki geta sinnt ýmsum verkefnum Siglingastofnunar. Þannig hefur einkafyrirtæki lýst yfir áhuga á að taka að sér starfsemi hafnasviðs stofnunarinnar en sviðinu er ætlað að hafa umsjón með hafnarframkvæmdum og vinna að uppbyggingu sjóvarna og hafna.
    Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga um Siglingastofnun er stofnuninni heimilt, með samþykki samgönguráðherra, að fela öðrum að annast tiltekin verkefni sín. Sú heimild hefur ekki verið nýtt til þessa nema að afar takmörkuðu leyti. Ávinningur slíkrar einkavæðingar væri einkum sá að minnka kostnað af þessum verkefnum því gera má ráð fyrir að samlegðaráhrif í einkarekstri yrðu einhver. Ekki síður mikilvægt markmið er þó það að með því að fela einkaaðilum svo tæknileg verkefni sem Siglingastofnun hefur með höndum er hin fjölbreytta þekking sem til er á einkamarkaði nýtt til hins ýtrasta og um leið væri það einkaaðilum hvatning til frekari þróunar á viðkomandi sviði. Ávinningur þjóðfélagsins af því er ótvíræður.
    Vinnueftirliti ríkisins er með lögum gert að fylgjast með aðbúnaði á vinnustöðum og til að geta rækt þá skyldu sína er m.a. könnun á afstöðu starfsmanna til vinnustaðarins nauðsynlegur hluti rannsókna Vinnueftirlitsins. Slíkar kannanir væri hæglega hægt að fela einkaaðilum.
    Skilgreina þarf hlutverk Landspítala – háskólasjúkrahúss í þá veru að sjúkrahúsið sjái fyrst og fremst um sérhæfða sjúkrahússþjónustu. Bjóða þarf út rekstur sem flestra þjónustuþátta sem falla utan kjarnastarfsemi Landspítalans. Sem dæmi má nefna rekstur þvottahúss, saumastofu, eldhúss, mötuneytis, apóteks, röntgen- og rannsóknaþjónustu, framleiðslu sjúkrafæðis, ræstingu, sótthreinsun og umsjón fasteignar. Góð reynsla, bæði fagleg og fjárhagsleg, er af einkarekstri í starfsemi sem áður var eingöngu veitt á vegum heilbrigðisstofnana ríkisins. Má þar meðal annars nefna Læknisfræðilega myndgreiningu og Orkuhúsið. Frá því að starfsemi hjá Læknisfræðilegri myndgreiningu hófst árið 1993 hafa sparast rúmlega 580 millj. kr., auk þess sem þjónusta við sjúklinga hefur aukist til mikilla muna.
    Í nýlegu útboði Sorpu bs. vegna gámaþjónustu á þremur endurvinnslustöðvum voru meðal þátttakenda í útboðinu einkafyrirtæki með mikla og langa reynslu á viðkomandi sviði sem hafa jafnvel sérhæft sig í umræddri þjónustu. Vélamiðstöðin ehf., sem aldrei hefur stundað slíkan rekstur, tók jafnframt þátt í útboðinu. Fyrirtækið er í eigu borgarinnar og Orkuveitunnar og er stjórn fyrirtækisins skipuð m.a. borgarverkfræðingi Reykjavíkur og forstjóra Orkuveitunnar. Vélamiðstöðin hefur notið góðs af þeirri eignaraðild með margvíslegum hætti, einkum við uppbyggingu þess með hundruð milljóna króna í heimanmund. Fyrirtækið leigir Reykjavíkurborg, Orkuveitunni og ýmsum borgarfyrirtækjum út bifreiðar og tæki og vinnur verk fyrir hundruð milljóna króna á ári án nokkurra útboða.
    Fjöldi dæma um samkeppni fyrirtækja ríkis og sveitarfélaga og ríkisstofnana við rekstur einkaaðila gefur vísbendingu um að til markvissra aðgerða verði að grípa til að tryggja að stefna ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu og aukið samstarf ríkis og einkaaðila um framkvæmd verkefna á vegum ríkisins nái raunverulega fram að ganga á öllum sviðum. Nauðsynlegt er því að umfang rekstrar ríkis og sveitarfélaga í samkeppni liggi fyrir.“