Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 80. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 80  —  80. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á upplýsingalögum, nr. 50/1996, með síðari breytingum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Ögmundur Jónasson, Pétur H. Blöndal,


Gunnar Örlygsson, Jónína Bjartmarz, Ágúst Ólafur Ágústsson.


1. gr.

    Við 2. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: upplýsinga um greiðslur til einstaklinga fyrir setu í nefndum, ráðum og stjórnum.

2. gr.

    Við fyrri málslið 5. gr. laganna bætist: sbr. þó 4. tölul. 2. mgr. 3. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að sú regla 5. gr. upplýsingalaga að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á, taki ekki til þeirra sem tekið hafa sæti í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkis og sveitarfélaga.
    Forsaga málsins er sú að 27. júlí 2004 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp úrskurð í málinu nr. A-183/2004 þar sem staðfest var ákvörðun forsætisráðuneytis að synja kæranda um aðgang að lista yfir greiðslur til þeirra sem sátu í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkisins 2001–2003. Beiðni kæranda kom í framhaldi af fyrirspurn til forsætisráðherra um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkisins (549. mál á 130. löggjafarþingi). Í svari forsætisráðherra var eingöngu tilgreindur fjöldi þeirra einstaklinga sem áttu sæti í fleiri en tíu nefndum, en nöfn þeirra ekki látin uppi.
    Flutningsmenn telja eðlilegt að það höfuðmarkmið upplýsingalaga að sjálfsagt sé að almenningur eigi þess kost að fylgjast með því sem stjórnvöld hafast að og að einstaklingar og lögaðilar eigi lögum samkvæmt rétt til aðgangs að gögnum mála innan stjórnsýslunnar gangi framar hagsmunum einstaklinga af því að fjárhagsmálefni þeirra skuli fara leynt. Þetta á við án þess að viðkomandi þurfi að sýna fram á tengsl við málið eða aðila þess, eða hagsmuni af því að fá eða nota umbeðnar upplýsingar. Flutningsmenn leggja áherslu á að sem flestar athafnir stjórnvalda, sem og kostnaður við þær, eigi að vera almenningi ljósar. Leynd varðandi slík mál er til þess eins fallin að valda grunsemdum og ýta undir tortryggni gagnvart stjórnsýslunni. Með því að stjórnsýslan starfi fyrir eins opnum tjöldum og mögulegt er eru stoðir hennar styrktar, traust byggt upp og tortryggni eytt.
    Réttur almennings til að fá að vita hversu miklu fé er varið til starfa nefnda á vegum hins opinbera gengur að mati flutningsmanna framar hagsmunum þeirra einstaklinga sem sæti eiga í nefndum á vegum opinberra aðila um að fjárhagsmálefni þeirra fari leynt. Greiðslur fyrir nefndastörf eru innt af hendi af almannafé og bæði sanngjarnt og eðlilegt að borgarar í lýðræðisþjóðfélagi geti aflað sér vitneskju um slíkar greiðslur hafi þeir áhuga á að kynna sér þær. Með þessu móti er þeim sem starfa í opinberum nefndum jafnframt veitt ákveðið aðhald við störf sín. Að auki má benda á að greiðslur fyrir nefndastörf eru að jafnaði ekki nema óverulegur hluti tekna viðkomandi einstaklings. Þótt þær séu gerðar almenningi kunnar liggja upplýsingar um heildarlaun viðkomandi ekki fyrir. Í þessu sambandi má vísa til 5. gr. upplýsingalaga, en á grundvelli þeirrar greinar er það undanþegið aðgangi almennings hver heildarlaun hver opinber starfsmaður hefur haft, sbr. greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga (361. mál á 120. löggjafarþingi).
    Mál þetta var flutt á síðasta þingi en náði þá ekki fram að ganga. Umsagnir sem bárust um málið voru jákvæðar. M.a. lýsir Blaðamannafélag Íslands eindregnum stuðningi við málið og telur eðlilegt og sjálfsagt að þær upplýsingar sem frumvarpið tekur til séu aðgengilegar. Stjórn Siðmenntar styður málið og telur að ákvæði frumvarpsins séu til þess fallin að treysta lýðræðislegan rétt almennings til þess að fá upplýsingar um opinberar greiðslur fyrir setu í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkisins.