Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 85. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 85  —  85. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Flm.: Jóhann Ársælsson, Össur Skarphéðinsson, Jón Gunnarsson,


Kristján L. Möller, Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Rannveig Guðmundsdóttir, Mörður Árnason.


1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Við úthlutun veiðiheimilda og stjórn veiða skal á hverjum tíma taka mið af bestu þekkingu sem til er um afrakstursgetu veiðistofna, áhrif veiða á einstökum tegundum á viðkomu annarra tegunda og á vistkerfi hafsins í heild og mismunandi áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsins og viðkomu fiskstofna. Jafnframt skal við úthlutun veiðiheimilda og stjórn veiða taka mið af þjóðhagslegri hagkvæmni af nýtingu einstakra veiðistofna.

2. gr.

    Á eftir 5. mgr. 10. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Ráðherra getur með reglugerð ákveðið í samræmi við markmið laganna skv. 1. gr. að afli sem veiddur er með tilteknum veiðarfærum, úr tilteknum fiskstofnum eða á tilteknum svæðum skuli reiknaður með álagi allt að 10% þegar metið er hversu miklu af aflamarki skips er náð hverju sinni.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 131. löggjafarþingi (þskj. 250 – 239. mál) en varð ekki útrætt. Málið var sent til umsagnar og bárust umsagnir frá sjö aðilum. Frumvarpið er nú flutt að nýju óbreytt. Greinargerðin sem fylgdi málinu á 131. löggjafarþingi var svohljóðandi:
    „Lífríki hafsins og fiskstofnarnir sem þar þrífast eru mesta auðsuppspretta Íslendinga. Nýting þessara auðlinda í sem mestri sátt við lífríkið með mesta þjóðhagslegan ávinning að leiðarljósi ætti að vera hafin yfir deilur í landinu. Er ákvæði 1. gr. laganna sniðið að þessu en þar segir m.a. að markmið laganna sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.
    Íslensk stjórnvöld hafa undanfarin ár rekið þá stefnu að úthluta skuli veiðirétti til útgerða eingöngu á grundvelli aflahlutdeilda. Ekkert tillit er tekið til mismunandi áhrifa veiðiaðferða á viðkomandi nytjastofna og á lífríki hafsins að öðru leyti. Því síður er við úthlutun á veiðirétti tekið mið af þjóðhagslegri hagkvæmni við nýtingu stofna.
    Þessi stefna stjórnvalda stríðir í eðli sínu gegn framangreindu markmiði 1. gr. laganna þar sem kveðið er á um verndun og hagkvæma nýtingu. Öllum ætti að vera ljóst að það er mögulegt að gera betur að þessu leyti. Þrátt fyrir framangreinda galla taldi sjávarútvegsráðherra sérstaka ástæðu til að árétta ríkjandi stefnu stjórnvalda á síðasta aðalfundi Landssambands smábátaeigenda en þar kom fram í máli hans að ekki stæði til að mismuna útgerðaraðilum eftir veiðiaðferðum hér við land. Má ætla að þessi yfirlýsing ráðherra hafi verið sett fram til að sefa ótta áhrifamanna í sjávarútvegi við að þeir gætu misst spón úr aski sínum við slíkar breytingar.
    Með frumvarpi þessu vilja flutningsmenn leita atbeina Alþingis til að beina stjórnvöldum inn á skynsamlegri brautir við úthlutun fiskveiðiheimilda og stjórn veiða. Eðlilegt hlýtur að teljast að þeim sé umbunað sem veiða með vistvænum veiðarfærum, ganga vel um fiskimiðin og hafa minnst óæskileg áhrif á nytjastofnana og vistkerfi hafsins. Til að fylgja slíkri stefnu fram til fulls þurfa að fara fram margvíslegar rannsóknir á áhrifum veiðarfæra og umgengni við lífríki hafsins á nytjastofna sem og þjóðhagsleg áhrif mismunandi nýtingar og veiðiaðferða. Mikið vantar á að slíkar rannsóknir hafi verið gerðar. Fjármunir til rannsókna á áhrifum veiðarfæra og áhrifum mismunandi nýtingar einstakra stofna hafa verið skornir við nögl og möguleikar Hafrannsóknastofnunarinnar til að takast á við verkefni af þessu tagi hafa engan veginn verið nýttir eins og skyldi. Ástæður þessa háskalega sinnuleysis stjórnvalda við að afla slíkra upplýsinga verður að skoða í ljósi þeirrar stefnu sem þau hafa fylgt.
    Þó að mikið vanti á að nægilegar rannsóknir hafi verið gerðar sem nýst gætu til að meta hvernig unnt sé að ná fram bestri nýtingu fiskstofna eru engu að síður til upplýsingar sem unnt er að styðjast við til bráðabirgða þegar áhrif veiðarfæra og mismunandi nýtingaraðferða eru metnar. Má ætla að unnt sé að byggja úthlutun veiðiheimilda og stjórnun veiða á þeim grundvelli að nokkru á meðan frekari rannsóknir eru gerðar. Við slíka ákvarðanatöku verður þó ávallt að leggja áherslu á að nytjastofnarnir og vistkerfi hafsins fái að njóta vafans þar sem slíkur vafi er á annað borð uppi.
    Það er eðli stjórnunaraðferða af því tagi sem hér um ræðir að vera í sífelldri þróun, einkum vegna breytileika í lífkerfinu, þróunar veiðarfæra og breytinga sem orðið geta á hagkvæmni nýtingar einstakra stofna vegna verðþróunar á mörkuðum. Flutningsmenn leggja áherslu á að varlega verði farið við upptöku þessara stjórnunaraðferða þó að markvisst skuli stefnt að eðlilegri mismunun milli veiðarfæra á grundvelli bestu þekkingar á hverjum tíma.“