Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 206. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 255  —  206. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur um hælisleitendur.

     1.      Hversu margir hælisleitendur eru nú hér á landi og hvernig skiptast þeir eftir kyni og aldri?
    Hælisleitendur hér á landi eru nú 26 talsins. Af þeim bíða 15 eftir niðurstöðu Útlendingastofnunar en 9 þeirra hafa fengið úrlausn sinna mála hjá stofnuninni og bíða annaðhvort eftir niðurstöðu ráðuneytisins eða framkvæmdar frávísunar eða brottvísunar lögreglu. Skipting þeirra eftir kyni og aldri er sem hér segir:

Karlar: Fæðingarár Fjöldi
1950–1959 2
1960–1969 3
1970–1979 11
1980–1987 2
Alls 18
Konur: Fæðingarár Fjöldi
1960–1969 1
1970–1979 3
1980–1987 1
Alls 5
Börn: Fæðingarár Fjöldi
1996 1
2001 1
2002 1
Alls 3

     2.      Hversu mörg börn eru meðal hælisleitenda?
    Þrjú börn eru meðal hælisleitenda hérlendis. Ekkert þeirra er án fylgdar foreldris eða forsjáraðila.

     3.      Hvaðan koma þeir, sundurgreint eftir löndum?
    Hælisleitendur koma frá eftirfarandi löndum:

Þjóðerni Fjöldi
Rússland 7
Íran 3
Litháen 2
Armenía/ríkisfangslausir 2
Afganistan 2
Máritanía 1
Eþíópía/Erítrea 1
Erítrea 1
Georgía 1
Líbería 1
Kosovo/Serbía 1
Kína 1
Palestína/Sýrland/ríkisfangslaus 1
Vestur-Sahara 1
Moldóva 1
Samtals 26

     4.      Hversu lengi hafa þeir dvalið hér?
    Það er mjög mismunandi hversu lengi hver hælisleitandi hefur dvalist hérlendis. Í eftirfarandi samantekt er miðað við hversu lengi hver einstaklingur hefur dvalist hélendis á hverju þriggja vikna tímabili eða á hverju þriggja mánaða tímabili:

Dvalartími: Fjöldi
1–3 vikur 5
3–6 vikur 4
6–9 vikur 1
9–12 vikur 2
3–7 mánuðir 7
7–10 mánuðir 2
10–13 mánuðir 3
Meira en 13 mánuðir 2
Samtals 26

     5.      Hvernig er framfærslu þeirra háttað?
    Útlendingastofnun ber ábyrgð á að framfærsla hælisleitenda hérlendis sé tryggð, sbr. fyrirmæli dómsmálaráðuneytis þar um. Útlendingastofnun gerði samning við Reykjanesbæ í byrjun árs 2004 þess efnis að framfærsla og húsnæði hælisleitenda væri í höndum Reykjanesbæjar. Samningurinn var endurnýjaður í mars 2005 og framlengist hann í eitt ár í senn frá því tímamarki, nema honum sé sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara.

     6.      Hvernig er samningi Reykjanesbæjar og félagsmálaráðuneytis um móttöku hælisleitenda háttað og hvaða stuðning veitir Reykjanesbær?
    Eins og áður segir hefur félagsmálaráðuneytið ekkert með framfærslu hælisleitenda að gera. Framfærslan er alfarið á höndum dómsmálaráðuneytisins sem hefur falið Útlendingastofnun það verkefni.
    Í samningi Útlendingastofnunar og Reykjanesbæjar um húsnæði og framfærslu hælisleitenda kemur m.a. eftirfarandi fram:
–    Reykjanesbær tekur að sér að annast um erlenda ríkisborgara/ríkisfangslausa sem leita hælis á Íslandi. Félagsþjónusta Reykjanesbæjar sér um að útvega hælisleitanda gistingu, fæði og almenna aðstoð, svo sem ferðakostnað hælisleitanda innan lands, komugjald til læknis, val á lögmanni o.fl. sem tengist hælisumsókn viðkomandi.
–    Reykjanesbær er með samning við tvö gistiheimili í Reykjanesbæ sem sjá hælisleitanda fyrir fæði og húsnæði. Hælisleitandi fær greidda vasapeninga og miðast greiðsla þeirra við að viðkomandi hafi dvalið hérlendis a.m.k. í fjórar vikur.
–    Umönnun Reykjanesbæjar varir meðan mál hælisleitanda er til afgreiðslu hjá stjórnvöldum nema Útlendingastofnun tilkynni um annað.
–    Útlendingastofnun greiðir Reykjanesbæ árlegt fastagjald fyrir umönnun hælisleitenda og er því ætlað að standa straum af launa- og rekstrarkostnaði starfsmanna Reykjanesbæjar. Útlendingastofnun greiðir daggjald fyrir hvern hælisleitanda.

     Þjónusta Reykjanesbæjar:
    Um þjónustu Reykjanesbæjar má bæta við að á vegum félagsþjónustu Reykjanesbæjar starfar umsjónarmaður hælisleitenda. Helstu hlutverk umsjónarmanns eru að taka á móti hælisleitendum, tryggja þeim gistingu og fæði og aðstoða hælisleitendur við alla aðra þjónustu sem þeir kunna að þurfa, svo sem læknis- og sérfræðiaðstoð. Hælisleitendur hafa óheftan aðgang að umsjónarmanninum og jafnframt aðgang að öðru starfsfólki félagsþjónustunnar eftir þörfum. Umsjónarmaður tryggir börnum hælisleitenda aðgang að leik- og grunnskólum í þeim tilvikum þegar viðkomandi hafa dvalið í landinu lengur en þrjá mánuði. Umsjónarmaður er tengiliður hælisleitenda gagnvart Útlendingastofnun varðandi vinnslu og meðferð umsókna þeirra um hæli, viðtöl eða birtingu úrskurða og í tilvikum þar sem hælisleitandi fær dvalarleyfi til bráðabirgða. Jafnframt er umsjónarmaður tengiliður við Útlendingastofnun ef óvænt tilvik verða vegna umönnunarþáttarins og þörf er á afskiptum stofnunarinnar. Þar fyrir utan er umsjónarmaður tengiliður við lögreglu og Rauða kross Íslands.

     Stuðningur Reykjanesbæjar:
–    Reykjanesbær sér hælisleitendum fyrir læknisaðstoð, lyfja- og sérfræðiþjónustu, hvort sem er í Reykjanesbæ eða á höfuðborgarsvæðinu.
–    Hælisleitendur hafa aðgang að bókasafni þar sem þeir komast á internetið, geta fengið bækur og notið þeirrar þjónustu sem þar er í boði.
–    Hælisleitendur fá ókeypis sundkort og frían aðgang að strætisvagnaþjónustu innan Reykjanesbæjar.
–    Allur ferðakostnaður sem til fellur vegna umsóknar hælisleitandans um hæli, til og frá höfuðborgarsvæðinu, og vegna sjálfboðastarfa í fataflokkun Rauða kross Íslands er greiddur af Reykjanesbæ.
–    Hælisleitendur fá símkort og annað tilfallandi sem upp kann að koma hverju sinni.

     7.      Fá hælisleitendur lögfræðiaðstoð?
    Hælisleitendur eiga rétt á lögfræðiaðstoð á öllum stigum máls síns hjá íslenskum stjórnvöldum. Hælisleitanda er tryggð ókeypis lögfræðiaðstoð í eftirfarandi tilvikum (34. gr. útlendingalaga, nr. 96/2002):

        Þegar kærð er ákvörðun í máli vegna umsóknar um hæli. Þetta gildir þó ekki í málum þegar kærð er synjun á meðferð umsóknar um hæli sem byggð er á d- og e-lið 1. mgr. 46. gr. útlendingalaga (mál sem eiga undir reglur norræna vegabréfaeftirlitssamningsins eða Dyflinnarreglugerðar ESB nr. 343/2003) eða þegar útlendingur sem sótt hefur um hæli kærir að hann hafi einungis fengið dvalarleyfi skv. 2. mgr. 11. gr. útlendingalaga.

    Fulltrúar Rauða kross Íslands hafa ávallt aðgang að hælisleitendum vegna málsvarahlutverks þeirra í málefnum flóttamanna og hælisleitenda.