Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 312. máls.

Þskj. 339  —  312. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um dýravernd, nr. 15/1994.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Við 1. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er að nota lifandi dýr við prófun á snyrtivörum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins 2003/15/EB um breytingu á tilskipun 76/768/ EBE um samræmingu ákvæða í lögum aðildarríkja varðandi snyrtivörur skulu aðildarríkin banna markaðssetningu á fullunnum snyrtivörum þar sem tilraunir á dýrum hafa verið hluti þróunarferilsins. Aðildarríkin skulu banna prófun fullunninna snyrtivara á dýrum á sínu yfirráðasvæði. Heimilt er þó í ákveðinn tíma að prófa einstök innihaldsefni og blöndur af innihaldsefnum. Skv. 16. gr. laga um dýravernd, nr. 15/1994, er óheimilt að nota lifandi dýr við kennslu, tilraunir, rannsóknir, framleiðslu eða prófun efna eða lyfja og við sjúkdómsgreiningu nema með sérstöku leyfi tilraunadýranefndar ef slíkri notkun fylgir álag eða þjáning fyrir dýrið. Við prófun á snyrtivörum er hins vegar unnt að nota aðrar aðferðir en prófun á dýrum en svo háttar oft ekki til með prófun á öðrum efnum og lyfjum. Auk þess á að vera unnt að tryggja öryggi snyrtivara á grundvelli upplýsinga um öryggi innihaldsefna þeirra. Er því lagt til að bann verði lagt við prófun snyrtivara á lifandi dýrum.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýravernd,
nr. 15/1994, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að óheimilt verði að nota lifandi dýr við prófun á snyrtivörum.
    Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.