Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 351. máls.

Þskj. 385  —  351. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 88/2003,
um Ábyrgðasjóð launa.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    16. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Kæruheimild.


    Heimilt er að kæra ákvarðanir Ábyrgðasjóðs launa sem teknar eru á grundvelli laga þessara til félagsmálaráðuneytisins.
    Kæra skal berast ráðuneytinu skriflega innan tveggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Kæra telst nægilega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist ráðuneytinu eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn.
    Félagsmálaráðuneytið skal leitast við að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því að ráðuneytinu berst mál til úrskurðar.
    Að öðru leyti fer um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
    Ákvæði þetta skerðir ekki rétt aðila til að höfða mál fyrir dómstólum.

2. gr.

    Í stað „0,04%“ í 2. mgr. 23. gr. laganna kemur: 0,1%.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram í tengslum við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2006. Ábyrgðasjóður launa hefur ekki staðið undir skuldbindingum sínum samkvæmt lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, enda hefur útstreymið úr honum verið nokkuð meira en áætlað var við setningu laganna árið 2003. Hefur sjóðurinn af þessum ástæðum myndað skuld við ríkissjóð sem í árslok 2004 var 536 millj. kr. Enda þótt teikn séu á lofti um að hámarki hafi verið náð í útgjöldum sjóðsins þykir ljóst að hækka verði gjaldið vegna þessarar stöðu sjóðsins. Verði gjaldinu haldið óbreyttu eru horfur á að halli sjóðsins haldi áfram að aukast þrátt fyrir að dregið hafi úr útgjöldum hans það sem af er árinu 2005. Þegar miðað er við að árleg útgjöld sjóðsins nemi um 500 millj. kr. má ætla að halli hans verði um 1,1 milljarður kr. í árslok 2006 og tæpir 2,2 milljarðar kr. í árslok 2011 að óbreyttu gjaldi. Er því lagt til að gjaldið verði 0,1% af gjaldstofni en er þá miðað við að ná niður halla sjóðsins á sex árum jafnframt því að sjóðurinn standi undir útgjöldum sínum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Skipulag íslenskrar stjórnsýslu gerir almennt ráð fyrir tveimur stigum þar sem fyrir hendi eru lægra sett stjórnvöld sem oftast eru stofnanir sem fara með framkvæmd tiltekinna málefna í umboði ráðherra og er þá litið á ráðherra sem æðra stjórnvald á því sviði. Í því skyni að auka réttaröryggi almennings er gert ráð fyrir að heimilt sé að kæra ákvarðanir lægra setts stjórnvalds til æðra stjórnvalds sem er þá skylt að taka ákvörðunina til endurskoðunar.
    Í 16. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa virðist sem miðað sé við þrjú stjórnsýslustig því gert er ráð fyrir málskoti til stjórnar sjóðsins áður en heimilt er að kæra ákvörðun til félagsmálaráðuneytisins. Hins vegar þykir það samræmast betur skipulagi íslenskrar stjórnsýslu að ákvarðanir sem teknar eru skv. 14. gr. laganna séu teknar í umboði stjórnar Ábyrgðasjóðs launa sem síðan eru kæranlegar beint til félagsmálaráðuneytisins. Varsla Ábyrgðasjóðs launa er á ábyrgð stjórnar sjóðsins en stjórnin hefur gert þjónustusamning við Vinnumálastofnun um daglega umsýslu fyrir sjóðinn. Annast því starfsfólk stofnunarinnar að jafnaði afgreiðslu umsókna í umboði stjórnar Ábyrgðasjóðs launa. Þegar upp koma mál sem talin eru þarfnast nánari skoðunar er gert ráð fyrir að starfsmennirnir leggi þau mál fyrir stjórn sjóðsins sem tekur þá ákvörðun um hvernig málið skuli afgreitt. Þrátt fyrir að einstakar umsóknir hljóti þannig umfjöllun stjórnar sjóðsins verða öll mál afgreidd á sama stjórnsýslustigi. Því er litið svo á að ákvörðun hafi verið tekin af stjórnvaldinu Ábyrgðasjóði launa hvort sem málið hefur hlotið umfjöllun stjórnar eða eingöngu starfsmanna. Í reynd hefur framkvæmd laganna verið með þessum hætti og er breytingartillaga þessi gerð í því skyni að treysta og skýra framkvæmdina og tryggja réttaröryggi þeirra sem leita þurfa til Ábyrgðasjóðsins.
    Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn Ábyrgðasjóðs launa og eru því ákvarðanir sem teknar eru í umboði sjóðsins kæranlegar til félagsmálaráðuneytisins. Lagt er til að kveðið verði skýrar á um þá kæruheimild í lögunum sjálfum. Gert er ráð fyrir tveggja mánaða kærufresti frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina.
    Í 3. mgr. er tilgreindur viðmiðunartími afgreiðslu mála hjá félagsmálaráðuneytinu sem verður að teljast eðlilegur málshraði þegar litið er til þess að veita skal aðilum kost á tjá sig um málið áður en það er tekið til úrskurðar. Séu mál sérstaklega umfangsmikil og tímafrekt reynist að undirbúa þau og rannsaka með viðunandi hætti er hugsanlegt að afgreiðslutíminn lengist að sama skapi. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að ákvæði stjórnsýslulaga gildi um málsmeðferð ráðuneytisins.

Um 2. gr.


    Lagt er til að ábyrgðargjaldið sem ætlað er til að fjármagna Ábyrgðasjóð launa skv. 23. gr. laganna verði hækkað úr 0,04% í 0,1% frá og með 1. janúar 2006. Eigið fé sjóðsins var uppurið í lok árs 2003 og hefur halli á rekstri sjóðsins verið nokkur undanfarin ár. Þykir því óhjákvæmilegt að hækka gjaldið og hefur náðst samkomulag um að hækka það í 0,1% af gjaldstofni.
    Að óbreyttu ábyrgðargjaldi og miðað við 500 millj. kr. árleg útgjöld gera áætlanir ráð fyrir að eigið fé Ábyrgðasjóðsins verði neikvætt sem nemur um 2,2 milljörðum kr. í árslok 2011. Verði ábyrgðargjaldið hækkað í 0,1% eins og frumvarpið gerir ráð fyrir og árleg útgjöld Ábyrgðasjóðsins verði um 500 millj. kr. er gert ráð fyrir að jafnvægi verði náð í rekstri sjóðsins árið 2011.
    Að öðru leyti er vísað til almennra athugasemda.

Um 3. gr.


    Ákvæði þetta þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/2003,
um Ábyrgðasjóð launa.

    Í frumvarpinu er lagt til að ábyrgðargjald af greiddum vinnulaunum sem ætlað er til að fjármagna Ábyrgðasjóð launa verði hækkað úr 0,04% í 0,1% frá og með 1. janúar 2006. Greiðslur úr sjóðnum hafa verið meiri en áætlað var við setningu laga um Ábyrgðasjóð launa frá árinu 2003 og hefur sjóðurinn af þessum ástæðum myndað skuld við ríkissjóð sem var 536 m.kr. í árslok 2004. Með hækkun gjaldsins er gert ráð fyrir að ná megi niður halla sjóðsins á sex árum. Á meðan sjóðurinn getur ekki staðið við skuldbindingar sínar leggur ríkissjóður Ábyrgðasjóði til fjármuni sem til þarf og skoðast það sem lántaka.
    Ábyrgðargjald er 242 m.kr. í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2006 en verður 606 m.kr. við samþykkt frumvarpsins en gjaldið greiðist af launagreiðendum.