Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 144. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 439  —  144. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2005.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.
    Meiri hluti fjárlaganefndar gerir breytingartillögur við sundurliðun 2 sem samtals nema 1.765,9 m.kr. til hækkunar.
    Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


02 Menntamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild menntamálaráðuneytis verði aukin um 4 m.kr.
988     Æskulýðsmál.
        1.90
Æskulýðsmál. Gerð er tillaga um 4 m.kr. framlag til Snorraverkefnisins, samskiptaverkefnis við Vestur-Íslendinga.

03 Utanríkisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild utanríkisráðuneytis verði aukin um 11,9 m.kr.
391     Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi.
        1.30
Mannúðarmál og neyðaraðstoð. Lagt er til að framlög til neyðaraðstoðar í kjölfar jarðskjálftanna í Pakistan hækki um 11,9 m.kr., úr 18,1 m.kr. í 30 m.kr., vegna þróunar mála á jarðskjálftasvæðunum og ákalls hjálparstofnana um aukin framlög opinberra aðila og einstaklinga til hjálparstarfsins.

04 Landbúnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild landbúnaðarráðuneytis verði aukin um 430 m.kr.
891     Sérstakar greiðslur í landbúnaði.
        1.95
Lífeyrissjóður bænda. Lagt er til að framlag ríkissjóðs í Lífeyrissjóð bænda af söluandvirði Lánasjóðs landbúnaðarins hækki úr 2.200 m.kr. í 2.630 m.kr., eða um 430 m.kr. Um er að ræða 2.653 m.kr. söluandvirði sjóðsins að frádegnum 11 m.kr. áætluðum biðlaunakostnaði og 12 m.kr. sölukostnaði í samræmi við 1. gr. laga nr. 68/2005, um breytingu á lögum um Lánasjóð landbúnaðarins, með síðari breytingum.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild dóms- og kirkjumálaráðuneytis verði aukin um 40 m.kr.
395     Landhelgisgæsla Íslands.
        5.41
Viðhald skipa og flugfarkosta. Gerð er tillaga um 40 m.kr. framlag vegna ófyrirséðra viðgerða á þyrluspöðum og viðgerða á spili um borð í Ægi.

07 Félagsmálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild félagsmálaráðuneytis verði aukin um 60 m.kr.
984     Atvinnuleysistryggingasjóður.
        1.11
Atvinnuleysisbætur. Lagt er til að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs verði aukin um 60 m.kr. vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að þeir sem eru á atvinnuleysisbótum njóti sambærilegra eingreiðslna í desember og samkomulag varð um í forsendunefnd aðila vinnumarkaðarins.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin um 720 m.kr.
204     Lífeyristryggingar.
        1.21
Tekjutrygging ellilífeyrisþega og 1.25 Tekjutrygging örorkulífeyrisþega. Lagt er til að tekjutrygging ellilífeyrisþega hækki um 456 m.kr. og að tekjutrygging örorkulífeyrisþega hækki um 264 m.kr. vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að lífeyrisþegar njóti sambærilegra eingreiðslna og samkomulag varð um í forsendunefnd aðila vinnumarkaðarins. Við ákvörðun um framhald kjarasamninga fjallaði forsendunefndin um hvort verðlagsþróun hefði verið í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands og um þróun kostnaðar vegna annarra kjarasamninga á vinnumarkaði. Samkomulag varð í forsendunefndinni um að í desember 2005 yrði greidd sérstök eingreiðsla og er lagt til að hún verði útfærð sem álag á tekjutryggingu með sama hætti og gert hefur verið við sambærilegar eingreiðslur í almannatryggingum. Samtals er áætlað að þessar eingreiðslur almannatrygginga til elli- og örorkulífeyrisþega nemi 720 m.kr. í desember.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 500 m.kr.
989     Launa- og verðlagsmál.
        1.90
Launa- og verðlagsmál. Lagt er til að launa- og verðlagsliður fjárlaga hækki um 500 m.kr. Í kjarasamningum ríkisstarfsmanna er kveðið á um að komi til þess að nefnd sú sem fjallar um forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði nái samkomulagi um breytingu á samningum skuli sambærileg breyting gilda um samninga ríkisstarfsmanna. Nefnd aðila á vinnumarkaði hefur komist að samkomulagi sem felur m.a. í sér að greidd verði 26 þús. kr. eingreiðsla í desember á þessu ári til starfsmanna í fullu starfi. Lögð er til fjárheimild á þessum lið til að standa undir kostnaði við sams konar eingreiðslu og samkomulag varð um í forsendunefnd aðila vinnumarkaðarins til starfsmanna sem eru á launum hjá ríkinu og vegna verkefna og rekstraraðila sem hafa sambærilegar launaforsendur fyrir sínum framlögum og ríkisstofnanir. Gert er ráð fyrir að fjárheimildin verði millifærð af liðnum til viðkomandi stofnana innan ársins.

10 Samgönguráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild samgönguráðuneytis verði óbreytt.
211     Rekstur Vegagerðarinnar.
        1.07
Þjónusta. Gerð er tillaga um leiðréttingu á fjármögnun 100 m.kr. útgjaldaaukningar vegna vetrarþjónustu sem samþykkt var við 2. umræðu. Gert var ráð fyrir viðskiptahreyfingu en hér er lögð til hækkun greiðslu úr ríkissjóði.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið hér að framan og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 25. nóv. 2005.



Magnús Stefánsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Bjarni Benediktsson.


Birkir J. Jónsson.


Drífa Hjartardóttir.



Guðmundur Hallvarðsson.