Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 366. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 521  —  366. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um starfsmannaleigur.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Grétar Þorsteinsson og Magnús Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands, Sigurð Bessason frá Eflingu, Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur og Ragnhildi Arnljótsdóttur frá félagsmálaráðuneyti, Atla Gíslason, Kjartan Norðdahl og Örnólf Jónsson frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna, Indriða Þorláksson frá embætti ríkisskattstjóra, Björn Bergsson, Finnbjörn Hermannsson og Þorbjörn Guðmundsson frá Samiðn, Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Vilhjálm Birgisson frá Verkalýðsfélagi Akraness, Elínu Blöndal dósent við Viðskiptaháskólann á Bifröst, Eyjólf Sæmundsson frá Vinnueftirliti ríkisins og Sigurð P. Sigmundsson og Unni Sverrisdóttur frá Vinnumálastofnun. Nefndinni bárust skriflegar umsagnir frá Alhjúkrun, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Félagi íslenskra atvinnuflugmanna, Liðsinni ehf., Oddi Friðrikssyni yfirtrúnaðarmanni við Kárahnjúka, Rafiðnaðarsambandi Íslands, ríkisskattstjóra, Samiðn, Samorku, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Verkalýðsfélagi Akraness og Viðskiptaráði.
    Frumvarpið felur í sér að sett verði í fyrsta sinn heildarlög um starfsemi starfsmannaleigna hér á landi. Félagsmálaráðherra skipaði árið 2004 starfshóp til að skoða stöðu starfsmannaleigna á íslenskum vinnumarkaði, þ.m.t. starfsumhverfi starfsmannaleigna sem hafa staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins en kjósa að veita þjónustu hér á grundvelli 36.–39. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Auk þess var starfshópnum ætlað að kanna nauðsyn þess að sett yrðu sérlög eða lagaákvæði í gildandi lög um starfsemi starfsmannaleigna hér á landi. Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og félagsmálaráðuneyti. Samstaða náðist um að sett yrðu sérlög um starfsmannaleigur og gerðu fulltrúar aðila samkomulag um þau atriði sem fram koma í því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram. Samkomulagið náðist 15. nóvember sl. og var það ein af forsendum þess að ekki kom til uppsagnar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.
    Talsverður órói hefur skapast á íslenskum vinnumarkaði með tilkomu starfsemi erlendra starfsmannaleigna hér á landi. Frumvarpi þessu er ætlað að skýra leikreglur á vinnumarkaði þannig að starfsemi starfsmannaleigna verði mótaður ákveðinn rammi. Frumvarpið á að stuðla að því að ekki komi til félagslegra undirboða á íslenskum vinnumarkaði með þeim hætti að erlendir starfsmenn komi hingað til starfa á lakari kjörum en ákveðin eru samkvæmt kjarasamningum og lögum. Þá er ekki síður lögð áhersla á að takmarka möguleika á óheilbrigðri samkeppni við þann meginþorra fyrirtækja sem fer í öllu að lögum og hefur í sinni þjónustu starfsmenn sem njóta starfskjara samkvæmt lögum og kjarasamningum.
    Taka skal fram að með frumvarpinu er ekki ætlunin að hrófla við þeirri óskráðu meginreglu að starfsmenn séu ráðnir ótímabundið beint til vinnuveitanda. Á Íslandi ríkir ákveðinn sveigjanleiki í ráðningum sem er ætlað að auðvelda fyrirtækjum að bregðast við sveiflum í starfsemi.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um skilgreiningu hugtaksins starfsmannaleiga og í einstaka umsögnum kom fram gagnrýni á það hvernig hugtakið er skilgreint í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Til að taka af öll tvímæli skal tekið fram að það er hvorki ætlun löggjafans að lögin nái til þess þegar um tilfallandi lán á starfsmönnum er að ræða, né heldur verktakasamninga.
    Hvað varðar 9. gr. frumvarpsins sem fjallar um eftirlit, þá kemur fram þar að Vinnumálastofnun skuli, í þeim tilvikum er starfsmannaleiga hefur gerst sek um brot gegn ákvæðum laganna, krefjast þess með „hæfilegum fyrirvara“ að starfsmannaleiga starfi í samræmi við lög, ella verði unnt að krefjast þess að lögregla stöðvi starfsemi tímabundið eða loki starfsemi tímabundið þangað til úrbætur hafa verið gerðar, sbr. 11. gr. Þetta orðalag er ekki óþekkt í íslenskum lögum en nefna má að í 84. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, er sambærilegt orðalag notað. Vinnumálastofnun hefur samkvæmt þessu svigrúm við mat á því hversu langan frest starfsmannaleiga fær til að ráða bót á málum sínum. Eðlilegt þykir að starfsmannaleiga fái hæfilegan frest að teknu tilliti til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar þar sem um afar íþyngjandi aðgerð er að ræða þegar starfsemi er stöðvuð tímabundið eða jafnvel lokað.
    Nefndin telur rétt að taka fram að þessu frumvarpi er ekki ætlað að breyta meginreglum sem gilda í samskiptum vinnuveitenda og launafólks og ber vinnuveitendum að virða gildandi kjarasamninga og önnur lög sem gilda á vinnumarkaði. Það á einnig við um starfsmannaleigur, bæði íslenskar og erlendar, sem veita tímabundna þjónustu hér á landi, sbr. t.d. lög nr. 54/2001, um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja. Þá er frumvarpi þessu ekki ætlað að breyta hlutverki aðila vinnumarkaðarins við að halda uppi skipulagi á íslenskum vinnumarkaði, þar á meðal að gæta þess að gerðir kjarasamningar séu haldnir.
    Ákvæði 9. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, heldur vitanlega gildi sínu en ákvæðið fjallar um störf trúnaðarmanna stéttarfélaga. Sama gildir um ákvæði kjarasamninga sem fjalla nánar um efnið. Skal trúnaðarmaður meðal annars gæta þess að gerðir vinnusamningar séu haldnir af atvinnurekanda og fulltrúum hans. Þá er í gildi samkomulag Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði en þar er kveðið nánar á um rétt trúnaðarmanna til að yfirfara gögn um laun og önnur starfskjör þeirra erlendu starfsmanna sem kjarasamningur tekur til. Jafnframt var sett á fót sérstök samráðsnefnd sem getur krafist nauðsynlegra gagna frá vinnuveitanda um laun eða önnur starfskjör þeirra erlendu starfsmanna sem mál varðar. Samkomulagi þessu var veitt almennt gildi með 2. gr. laga. nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. lög nr. 145/2004. Fram kom hjá fulltrúum ASÍ og SA í nefndinni að samkvæmt því gætu trúnaðarmenn eða fulltrúi viðkomandi stéttarfélags ef trúnaðarmaður er ekki fyrir hendi krafið starfsmannaleigur um að fá að yfirfara gögn til að sannreyna að kaup og kjör starfsfólks starfsmannaleigna væru í samræmi við kjarasamninga. Takist trúnaðarmönnum ekki að leysa þann ágreining sem kann að rísa um kjör einstakra starfsmanna er unnt að vísa málinu til umræddrar nefndar.
    Samkvæmt 10. gr. frumvarpsins skal starfsmannaleiga veita Vinnumálastofnun þær upplýsingar sem stofnunin telur nauðsynlegar til að fylgjast með framkvæmd laganna. Vinnumálastofnun skal afla þeirra upplýsinga sem eru nauðsynlegar eða kunna að vera nauðsynlegar til að fylgjast með því að farið sé að lögum. Í frumvarpinu er því kveðið á um að ákveðnar frumupplýsingar skuli ávallt skila sér, sbr. 2. gr. frumvarpsins um skráningu og 4. gr. um tilkynningarskyldu. Í 10. gr. er ákvæði sem verður virkt ef rökstuddur grunur vaknar um að brot gegn réttindum launafólks eigi sér stað innan starfsemi starfsmannaleigna. Nefndin lítur ekki svo á að þessu kerfi sé ætlað að hafa áhrif á þær heimildir sem verkalýðshreyfingin hefur nú þegar til að fylgjast með að kjarasamningum sé fylgt eftir. Telur nefndin mikilvægt að Vinnumálastofnun sé áfram í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins en helstu samtök þeirra eiga fulltrúa í stjórn stofnunarinnar. Nefndin leggur þannig áherslu á að því vinnumarkaðskerfi sem hefur verið í þróun á síðustu áratugum verði viðhaldið og lítur nefndin svo á að frumvarp þetta feli í sér ákveðið frávik frá þeim meginreglum sem gilda. Frumvarpið breytir ekki eftirlitshlutverki aðila vinnumarkaðarins en kemur því til stuðnings, m.a. ef vinnuveitendur sinna ekki upplýsingagjöf gagnvart þeim. Frumvarpinu er þannig ætlað að vera til stuðnings gildandi kerfi að því er starfsmannaleigur varðar. Jafnframt er því ætlað að tryggja að íslensk stjórnvöld standi við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Til umræðu kom í nefndinni hvort frumvarpið standist ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Var í þessu sambandi rætt um hvort 3. gr., þess efnis að starfsmannaleiga skuli hafa fulltrúa hér á landi, sé of íþyngjandi og standist ekki ákvæði samningsins. Meginreglan samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er að engin höft megi leggja á veitingu þjónustu yfir landamæri innan EES og að fyrirtæki og einstaklingar geti stundað starfsemi tímabundið í öðru ríki með sömu skilyrðum og gilda um ríkisborgara hins ríkisins. Skv. 33. gr. samningsins, sbr. 39. gr., er þó heimilt í vissum tilfellum sem upp eru talin í ákvæðinu að leggja höft á veitingu þjónustu sem kunna að fela í sér mismunun gagnvart þjónustuveitendum frá öðrum EES-ríkjum. Þrátt fyrir meginregluna um að engin höft megi leggja á þjónustuviðskipti hefur dómstóll EB með fordæmum sínum mótað reglur um að ákveðin höft á þjónustuviðskipti geti í öðrum tilfellum verið réttlætanleg.
    Samkvæmt frumvarpinu hafa þjónustuveitendur á Evrópska efnahagssvæðinu jafnan markaðsaðgang og innlend fyrirtæki, sömu kröfur eru gerðar til þeirra um skráningu og þau eiga jafna möguleika í samkeppni á markaðnum um veitingu starfsmannaleiguþjónustu.
    Í 3. gr. frumvarpsins eru gerðar kröfur um að fyrirtæki sem ekki hafi staðfestu á Íslandi skuli tilnefna fulltrúa sem hafi dvalarstað á Íslandi meðan þjónustan er veitt ef þjónustan varir lengur en 10 virka daga. Hlutverk fulltrúans er fyrst og fremst að veita upplýsingar sem lögskylt er að veita og vera jafnframt til þess bær að taka löglega við stjórnvaldsákvörðunum eða eftir atvikum birtingu stefnu sem til fyrirtækisins er beint.
    Starfsemi starfsmannaleigna varðar verulega persónulega, félagslega og fjárhagslega hagsmuni starfsfólks á vinnumarkaði óháð þjóðerni þess, jafnvægi á vinnumarkaði og samkeppnishæfi fyrirtækja á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Tilgangur ákvæðisins er að auðvelda yfirvöldum að fylgjast með að framfylgt sé lágmarksreglum vinnumarkaðarins og að unnt sé að koma tilkynningum til starfsmannaleigu ef á þarf að halda. Ákvæði um að allar starfsmannaleigur skuli hafa fulltrúa staðsettan hér á landi telur nefndin samræmast EES- samningnum enda sé það gert í þágu almannaheilla og þjóni þannig lögmætu markmiði. Þá varðar reglan öll fyrirtæki óháð staðfestu, verður að teljast hófleg miðað við tilefnið og hindrar ekki aðgang að markaðnum.
    Fram kom í nefndinni að eðlilegt væri að taka til skoðunar vinnuverndarmál og skattamál er lúta að starfsmönnum starfsmannaleigna og beinir nefndin því til viðkomandi ráðherra. Í því sambandi þyrfti að skoða þau mál með heildstæðum hætti í þeim lögum sem um þessa málaflokka fjalla.
    Nefndin fékk þær upplýsingar frá fulltrúum Vinnumálastofnunar að verði frumvarpið að lögum aukist árlegur kostnaður stofnunarinnar um 12–15 millj. kr., auk stofnkostnaðar vegna búnaðar sem fellur á stofnunina. Fulltrúi félagsmálaráðuneytis kom því á framfæri að ráðuneytið hefði nýlega farið yfir kostnaðaráhrif með Vinnumálastofnun og teldi vera svigrúm til að mæta aukakostnaði innan núverandi fjárheimilda stofnunarinnar þar sem atvinnuleysi hefur minnkað umtalsvert að undanförnu og þar með umsvif Vinnumálastofnunar. Ráðuneytið teldi því ekki þörf á viðbótarfjármagni að svo stöddu. Nefndin telur að Vinnumálastofnun muni gegna mikilvægu hlutverki verði frumvarpið að lögum og telur því mikilvægt að ef í ljós kemur að kostnaðaráhrif vegna nýrra laga um starfsmannaleigur rúmast ekki innan fjárhagsramma stofnunarinnar verði það mál skoðað sérstaklega.
    Nefndin flytur breytingartillögu við frumvarpið, þess efnis að sett verði inn ákvæði til bráðabirgða þess efnis að lögin skuli endurskoða innan tveggja ára. Telur nefndin eðlilegt að lögfesta slíkt ákvæði þar sem um ný heildarlög er að ræða sem fjalla um reglur á vinnumarkaði gagnvart starfsmannaleigum. Eðlilegt er að skýrt sé kveðið á um endurskoðun laganna strax og nokkur reynsla er komin af þeim, þ.e. innan tveggja ára.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindri breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson og Valdimar L. Friðriksson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að gera breytingartillögur.
    Magnús Þór Hafsteinsson og Pétur H. Blöndal standa ekki að áliti þessu.


Alþingi, 6. des. 2005.



Siv Friðleifsdóttir,


form., frsm.


Birgir Ármannsson.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.



Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.


Birkir J. Jónsson.


Valdimar L. Friðriksson,


með fyrirvara.





Fylgiskjal.


Samkomulag Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins
um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.