Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 364. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 529  — 364. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum.


Frá félagsmálanefnd.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hauk Ingibergsson og Margréti Hauksdóttur frá Fasteignamati ríkisins, Guðjón Bragason og Lárus Bollason frá félagsmálaráðuneyti og Guðna Geir Einarsson deildarsérfræðing frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Nefndinni hefur auk þess borist umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Efni frumvarpsins er þríþætt. Í fyrsta lagi að undanþágum frá greiðslu fasteignaskatts verði fækkað. Verði frumvarpið að lögum mun breytingin skila sér í 600 millj. kr. aukningu á tekjum frá ríki til sveitarfélaga þar sem þær undanþágur sem í gildi eru nú varða helst fasteignir í eigu ríkissjóðs. Lagt er til að beinar styrkveitingar verði meginreglan framvegis. Slíkar ívilnanir verða heimilar ef um er að ræða starfsemi sem ekki er rekin í ágóðaskyni. Sú leið er talin gera sveitarfélögum kleift að leiða fram í bókhaldi raunverulegar tekjur af fasteignaskatti og kostnað sem hlýst af niðurfellingu og afslætti. Ívilnanir gagnvart gjaldendum verða jafnframt sýnilegri með þessum hætti og betur tryggt að jafnræðis verði gætt við álagningu og innheimtu skattsins. Í öðru lagi er lagt til að fasteignaskattur verði lagður á í Landskrá fasteigna sem hefur m.a. í för með sér að breytingar sem verða á fasteignamati hafa áhrif á skattstofn. Til dæmis má nefna þau tilvik er nýjar fasteignir eru skráðar í Landskrá fasteigna. Samkvæmt núgildandi lögum er mælt fyrir um að taka skuli mannvirki í fasteignamat við fokheldi þeirra. Hefur þetta fyrirkomulag leitt til þess að eigendur nýrra fasteigna sem metnar eru í upphafi árs geta komist hjá greiðslu fasteignaskatts í tæpt ár og skapar það ójafnræði í skattgreiðslum miðað við aðra fasteignaeigendur sem fá fasteignir sínar metnar undir lok árs. Í 3. gr. frumvarpsins er því lagt til að fasteignaskattur leggist á nýjar lóðir og mannvirki í hlutfalli við ársálagningu frá næstu mánaðamótum eftir að þau eru skráð og metin í Landskrá fasteigna til samræmis við upplýsingar sem Fasteignamat ríkisins lætur sveitarstjórnum í té. Í þriðja lagi er í frumvarpinu gerð tillaga um að sveitarfélög leggi fasteignaskatt á í Landskrá fasteigna frá 1. janúar 2007 og að álagning fari þannig fram í einu heildstæðu skráarumhverfi. Ástæða þessa er einkum sú að auka hagkvæmni og öryggi.
    Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að fasteignaskattur sé annar mikilvægasti tekjustofn sveitarfélaganna og að af hálfu sambandsins hafi verið lögð áhersla á að ákvörðunarvald um álagningarhlutfall, gjalddaga og innheimta skattsins sé hjá sveitarfélögunum. Á því verða ekki breytingar. Þá segir í áliti sambandsins: ,,Kerfi til álagningar fasteignaskatts í Landskrá fasteigna er enn ekki tilbúið en verður það fyrir árslok 2006. Sambandið telur að forsenda þess að unnt sé að leggja fasteignaskattinn á í Landskrá fasteigna sé að nauðsynlegar lagfæringar og kerfisbreytingar á landskránni verði unnar í samráði við sveitarfélögin. Nýtt álagningarkerfi verður að leiða til aukinnar skilvirkni og tryggja að fullu forræði sveitarfélaganna á áreiðanlegri álagningu og innheimtu þessa mikilvæga tekjustofns sveitarfélaganna. Sambandið treystir því, sem fram hefur komið í viðræðum við forstjóra Fasteignamats ríkisins, að greiðslur sveitarfélaganna til þess hækki ekki vegna þessarar breytingar og að það muni standa straum af öllum stofn- og þróunarkostnaði sem henni fylgir.“
    Hvað varðar þá tillögu sem hér er gerð um fækkun undanþágna kom til umræðu í nefndinni hvort undanþága elli- og örorkulífeyrisþega skv. 4. mgr. 5. gr. laganna muni falla niður verði frumvarpið að lögum. Sú er ekki raunin, sbr. 4. efnismgr. 4. gr. frumvarpsins. Í skýrslu nefndar um undanþágur frá fasteignaskatti, sem skipuð var af félagsmálaráðherra í janúar 2001, kemur fram að óhjákvæmilegt þyki þegar um þennan hóp ræðir að leyfa undanþágur frá beinum styrkveitingum sem verða annars meginreglan framvegis.
    Í umsögn fjármálaráðuneytis virðist gert ráð fyrir því að fasteignaskattur verði lagður á mánaðarlega. Samkvæmt frumvarpinu er hins vegar lagt til að sveitarstjórn ákveði fjölda gjalddaga fasteignaskatts fyrir upphaf árs, en sveitarstjórn er jafnframt heimilt að ákveða að skatturinn greiðist allur á einum gjalddaga ef álagning er undir tiltekinni fjárhæð.
    Lúðvík Bergvinsson og Magnús Þór Hafsteinsson skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Í fyrsta lagi er lagt til að tekið sé fram að álagning sé árleg og að stofn til álagningar séu allar fasteignir í fasteignamati 31. desember næstliðins árs. Þá er gerð tillaga um breytt orðalag í tilvísun í lög um heilbrigðisþjónustu. Í þriðja lagi er er lagt til að orðin mannvirki og lóðir séu notuð í stað orðsins fasteign. Í fjórða lagi er lagt til að tekið sé fram í 2. efnismgr. 4. gr. að ákvæðið nái einnig til íþróttamannvirkja. Að lokum er lagt til að 2. mgr. 20. gr. laganna verði breytt til samræmis við lög um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 90/2003.

Alþingi, 6. des. 2005.



Siv Friðleifsdóttir,


form., frsm.


Birgir Ármannsson.


Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.



Pétur H. Blöndal.


Magnús Þór Hafsteinsson,


með fyrirvara.


Valdimar L. Friðriksson.