Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 307. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 554  —  307. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um grisjun í þjóðskógum.

     1.      Hver er árleg grisjun í þjóðskógum, talin í hekturum?
    Nú eru um 50 hektarar grisjaðir árlega. Grisjun þjóðskóganna er nauðsynleg. Með henni vinnst m.a. þekking á grisjun og meðferð skóga, afurðir grisjunar nýtast til þróunar á úrvinnslu viðar og skógarnir verða opnari og aðgengilegri fólki til útivistar.

     2.      Hver var kostnaður við þessa grisjun 2004 og hverjar voru tekjurnar af sölu afurða sem féllu til við hana?
    Kostnaður við þessa grisjun var 28,8 millj. kr. árið 2004. Er það um það bil helmingur af þeim hluta ríkisframlags Skógræktar ríkisins sem fer til reksturs þjóðskóganna og því ljóst að grisjun er stærsti einstaki verkþáttur í rekstri þeirra.

     3.      Hver er áætluð heildargrisjunarþörf í þjóðskógunum næstu 10 árin, í hekturum?
    Skógrækt ríkisins áætlar að grisja þurfi samtals um 970 hektara í þjóðskógunum næstu 10 árin eða tæplega 100 hektara á ári að jafnaði, sem er um tvöfalt meira á ári en núverandi grisjun. Stafar það einfaldlega af því að skógarnir vaxa og dafna betur en flestir þorðu að vona.

     4.      Hver er áætlaður heildarkostnaður við grisjunina og hvernig verður hún fjármögnuð?
    Grisjun á hektara skógar kostar um 576.000 kr. Heildarkostnaður við grisjun þjóðskóganna er þá um 570 millj. kr. á 10 árum, eða að jafnaði um 57 millj. kr. á ári.
    Að öllu óbreyttu er ljóst að Skógræktin nær ekki að framkvæma nauðsynlega grisjun en hins vegar er nú unnið að því að ná kostnaði niður með ýmsu móti. Má þar nefna að á Hallormsstað hefur grisjun verið boðin út og hefur kostnaður lækkað lítillega við það. Enn sem komið er eru þó fáir verktakar í skógarhöggi á Íslandi og því ekki um mikinn samkeppnismarkað að ræða.
    Grisjun með keðjusögum verður ávallt dýr vegna launakostnaðar. Í nágrannalöndum okkar hefur slík vinna að miklu leyti lagst af, en í staðinn hafa komið grisjunarvélar. Sennilega næst ekki verulegur árangur í að ná niður kostnaði nema með því að kaupa til landsins hentugar grisjunarvélar. Þetta er nauðsynlegt fyrir þjóðskógana nú, en verður enn meira aðkallandi eftir aðeins 5–10 ár þegar grisjunarþörf eykst verulega hjá skógarbændum vegna skóga sem gróðursettir voru eftir 1990.
    Eðlilegt er að verktakar eignist slíkar vélar en að Skógrækt ríkisins og aðrir skógareigendur skapi rekstrarskilyrði með því að kaupa af þeim vinnu.
    Þróun á þessu sviði fer saman við markaðsþróun á afurðum grisjunar. Verið er að skoða ýmsa möguleika til að skapa sölutekjur sem kæmu upp í kostnað við grisjun. Það er þó óraunhæft að ætla að sala afurða skili mikið meiru en því sem nemur framleiðslukostnaði. Það sem fæst upp í grisjunarkostnaðinn sjálfan verður eflaust fremur lítið. Ríkið mun því þurfa að kosta grisjunina að mestu á einn eða annan hátt, gegn þeirri sjálfsögðu kröfu að hagkvæmni verði í hávegum höfð.