Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 412. máls.
Þskj. 589  —  412. mál.




Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um rannsókn sjóslysa,
nr. 68/2000, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Samgönguráðherra skipar nefndinni forstöðumann til fimm ára í senn. Forstöðumaður ber ábyrgð á og stjórnar daglegum rekstri nefndarinnar og gætir þess að hann sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir á hverjum tíma. Samgönguráðherra skal, að fengnum tillögum forstöðumanns, ráða til nefndarinnar aðstoðarforstöðumann. Allur kostnaður við starfsemi nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

2. gr.

    Á eftir 3. gr. laganna kemur ný grein, 3. gr. a, svohljóðandi:
    Forstöðumaður rannsóknarnefndar sjóslysa er jafnframt rannsóknarstjóri hennar og stýrir rannsóknarverkefnum á vegum nefndarinnar. Aðstoðarforstöðumaður skal vera staðgengill forstöðumanns.
    Forstöðumaður og aðstoðarforstöðumaður skulu hafa sérmenntun eða starfsreynslu á þeim sviðum sem sérstaklega nýtist við sjóslysarannsóknir.
    Um sérstakt hæfi þeirra fer eftir II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

3. gr.

    1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Rannsóknarnefnd sjóslysa og starfsmönnum hennar er heimilt að krefjast framlagningar allra skjala er varða skip, svo sem leiðar-, dag- og véladagbókar, eftirlitsbókar, allra vottorða sem skylt er að hafa um borð í skipi, skráa yfir skipverja, útskrifta úr tölvum er varða siglingu og vélbúnað skips, upptakna, svo og annarra gagna er ástæða þykir til, t.d. um fjarskipti og gögn sem varða rekstur og siglingu skipsins. Þeim er einnig heimilt að taka skýrslur af eiganda, notanda eða umráðanda skips, áhöfn þess og hverjum öðrum sem ætla má að kunni að geta veitt vitneskju er stuðli að því að leiða í ljós orsök slyssins.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu. Markmið frumvarpsins er að breyta stöðu framkvæmdastjóra rannsóknarnefndar sjóslysa til samræmis við stöðu forstöðumanns rannsóknarnefndar flugslysa og forstöðumanns rannsóknarnefndar umferðarslysa, sbr. 4. gr. laga nr. 35/2004, um rannsókn flugslysa, og 4. gr. laga nr. 24/2005, um rannsóknarnefnd umferðarslysa.
    Einnig er það markmið frumvarpsins að breyta ákvæði um aðgang rannsóknarnefndar sjóslysa að ýmsum gögnum þannig að skýrt sé kveðið á um heimild rannsóknarnefndarinnar til aðgangs að upptökum sem til eru um borð í skipum í samræmi við sams konar ákvæði í lögum um rannsóknarnefnd flugslysa er varða loftför, sbr. 14. gr. laga nr. 35/2004, til þess að auðvelda megi rannsókn sjóslysa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt þessu ákvæði er gert ráð fyrir að samgönguráðherra skipi nefndinni sérstakan forstöðumann til fimm ára í senn. Gert er ráð fyrir að forstöðumaður hafi með höndum daglegan rekstur hennar og beri ábyrgð á honum. Talið er rétt að skipa nefndinni forstöðumann sem annast daglegan rekstur hennar til samræmis við aðrar sambærilegar rannsóknarnefndir, sbr. lög um rannsókn flugslysa, nr. 35/2004, og lög um rannsóknarnefnd umferðarslysa, nr. 24/2005. Með því að skipa nefndinni forstöðumann er gert ráð fyrir að störf hennar verði markvissari og með því verði stuðlað enn frekar að því að tilgangi laganna verði náð, að koma í veg fyrir slys um borð í skipum, og að öryggi til sjós aukist. Þá stuðlar það einnig að sjálfstæði nefndarinnar.
    Svo sem vikið verður að í athugasemdum við 2. gr. er ætlunin að forstöðumaður verði jafnframt rannsóknarstjóri nefndarinnar og hafi með höndum vettvangsstjórn. Gert er ráð fyrir að samgönguráðherra skuli, að fengnum tillögum forstöðumanns, ráða til nefndarinnar aðstoðarforstöðumann.

Um 2. gr.


    Í greininni er kveðið á um að forstöðumaður nefndarinnar sé jafnframt rannsóknarstjóri hennar og stýri rannsóknarverkefnum á vegum nefndarinnar. Gert er ráð fyrir að forstöðumaður hafi sérþekkingu eða starfsreynslu á sviðum sem sérstaklega nýtist við rannsókn sjóslysa. Jafnframt er gert ráð fyrir að aðstoðarforstöðumaður skuli vera staðgengill forstöðumanns, svo sem vegna forfalla, leyfa eða sambærilegra atvika.

Um 3. gr.


    Ákvæðið er nær óbreytt frá gildandi lögum en það veitir rannsóknarnefnd sjóslysa heimild til þess að krefjast ýmissa gagna eða upplýsinga sem nauðsynlegar þykja við rannsókn einstakra mála. Í gildandi lögum er þó ekki kveðið sérstaklega á um heimild nefndarinnar til þess að fá í sínar vörslur upptökur sem kunna að vera um borð í skipi og geta auðveldað rannsókn slyss. Hins vegar er kveðið á um heimild nefndarinnar til þess að krefjast annarra gagna, er ástæða þykir til, sem ekki eru talin upp í gildandi lögum og mundu upptökur falla þar undir. Rétt þykir þó að tiltaka sérstaklega að nefndinni sé heimilt að krefjast upptakna sem kunna að vera í skipi svo að það sé alveg skýrt. Þá verður nefndinni áfram heimilt að krefjast annarra gagna en þeirra sem talin eru upp í ákvæðinu sem kunna að hjálpa til við rannsókn slyss.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um breytingu á lögum um rannsókn sjóslysa, nr. 68/2000,
með síðari breytingum.

    Markmið frumvarpsins er breyta stöðu framkvæmdastjóra sjóslysa til samræmis við stöðu forstöðumanns rannsóknarnefndar flugslysa og forstöðumanns rannsóknarnefndar umferðarslysa. Einnig er það markmið frumvarpsins að breyta ákvæði um aðgang rannsóknarnefndar sjóslysa ýmsum gögnum til þess að auðvelda megi rannsókn sjóslysa.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að útgjöld vegna breytingar á stöðu framkvæmdarstjóra nefndar um rannsókn sjóslysa hækki samtals um 0,5 til 1 m.kr. Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn rúmist innan ramma samgönguráðuneytis og hafi því ekki áhrif á fjárveitingar í heild.