Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 193. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 741  —  193. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Katrínar Júlíusdóttur um fjárframlög til grunnskólastigsins.

     1.      Hver voru heildarútgjöld sveitarfélaganna til grunnskólastigsins árið 2004? Hver var nemendafjöldi sama ár?
    Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga voru útgjöld sveitarfélaganna til grunnskólastigsins 31.557,2 millj. kr. árið 2004. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru grunnskólabörn 44.511 talsins það ár.

     2.      Hver voru heildarútgjöld ríkisins til grunnskólastigsins á verðlagi ársins 2004 síðasta heila árið áður en sveitarfélögin tóku alfarið við rekstri grunnskólanna? Hver var nemendafjöldi sama ár?
    Síðasta áfanga í færslu grunnskólans til sveitarfélaganna var lokið á haustmánuðum árið 1996 en þá var verkaskipting ríkis og sveitarfélaga þannig að framlög í fjárlögum tóku nánast einungis til launa kennara og reksturs fræðsluskrifstofa. Stofnkostnaður var t.d. færður frá ríki til sveitarfélaga árið 1990. Fjárveitingar ríkisins til grunnskólastigsins í fjárlögum 2006 voru 6.624 millj. kr. auk 260 millj. kr. framlags í fjáraukalögum sama ár, eða samtals 6,9 milljarðar kr. Á verðlagi 2004 voru fyrrgreind framlög ríkisins til grunnskólastigsins 9,1 milljarðar kr. árið 1996. Heildarútgjöld til grunnskólastigsins, að teknu tilliti til framlags sveitarfélaganna, voru mun meiri, 13,7 milljarðar kr. á verðlagi 1996 eða 18,1 milljarðar kr. á verðlagi 2004 (miðað við vísitölu neysluverðs, meðalverðlag ársins), þar af var um helmingur tilgreindur sem framlag ríkisins.
    Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru grunnskólabörn 42.090 talsins árið 1996.
    Gera þarf fyrirvara um samanburð á útgjaldatölum á tímabilinu 1996–2004, þar sem reikningsskilareglur eru ekki sambærilegar allt tímabilið. Ríkið færði bókhald sitt yfir á rekstrargrunn árið 1998 en það var á greiðslugrunni áður. Sveitarfélögin hafa fylgt nýrri reglugerð um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga frá árinu 2002. Þess ber að geta að í tölfræðiupplýsingum frá Samtökum sveitarfélaga sem birtar eru í Árbók sveitarfélaga 2005, eru allar fjárhagsupplýsingar fyrir og eftir nýjar reiknisskilavenjur aðgreindar vegna mikilla breytinga á framsetningu, sjá töfluna hér á eftir.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í ársbyrjun 1997 voru heimildir sveitarfélaga til að leggja á útsvar rýmkaðar og tekjuskattsprósenta ríkisins lækkuð. Heimildir sveitarfélaganna til að leggja á útsvar voru auknar umfram tekjuskattslækkunina þar sem áætlanir gerðu ráð fyrir að kostnaður við rekstur grunnskóla mundi fara vaxandi, m.a. vegna þess að ljúka þurfti einsetningu og fjölga vikulegum kennslustundum í samræmi við ákvæði grunnskólalaga. Auk þess var ákveðið að ríkið og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga veittu næstu ár á eftir stofnkostnaðarframlög til að hraða einsetningunni.
    Samkvæmt upplýsingum í Árbók sveitarfélaga 2005 hafa litlar breytingar orðið á útgjöldum til reksturs grunnskóla, séu þau skoðuð sem hlutfall af skatttekjum sveitarfélaga. Árin 1997–2001 hækkaði hlutfallið á landsvísu lítillega, eða um 1,3%. Eftir að hin nýju reikningsskil voru tekin upp árið 2002 reiknast útgjöld til grunnskóla sem hlutfall af skatttekjum sveitarfélaga um 39,4% árið 2002 en höfðu verið 31,5% árið áður þegar sveitarfélög gerðu upp árið samkvæmt eldri aðferðum. Frá 2002 til 2004 lækkuðu útgjöld til grunnskóla sem hlutfall af skatttekjum í öllum landshlutum, eða um -1,3% á landsvísu.
    Á heildina litið virðast rekstrargjöld til grunnskóla á landsvísu vera svipað hlutfall af heildarskatttekjum sveitarfélaga árið 2004 og þau voru árið 1997 þegar sveitarfélögin höfðu tekið alfarið við rekstri grunnskólanna.
    Ljóst er að kostnaður við rekstur grunnskólanna hefur aukist verulega á undanförnum árum, þó að skatttekjur hafi aukist að sama skapi. Hafa ber í huga að sú þjónusta sem sveitarfélögin hafa valið að bjóða upp á í grunnskólunum er ekki sambærileg þeirri þjónustu sem í boði var árið 1996 en þar hefur, eins og á öðrum skólastigum, orðið mikil þróun. Sérfræðiþjónusta og allur stuðningur við nemendur hefur verið aukinn verulega. Sem dæmi má nefna eftirfarandi atriði sem fram koma í tölfræði um grunnskólann 1997–2004 sem birt er í Árbók sveitarfélaga 2005:
          Fjöldi stöðugilda starfsfólks við kennslu jókst um 27% á landsvísu á árunum 1998– 2004, en nemendum fjölgaði um 5%.
          Stöðugildum starfsfólks á öðrum starfssviðum fjölgaði um 65% á landinu öllu á sama tímabili.
          Stöðugildum skólasálfræðinga/námsráðgjafa og þroskaþjálfa fjölgaði fjórfalt árin 1997– 2004.
          Fjöldi stuðningsfulltrúa hefur aukist um 150% á tímabilinu.
    Samkvæmt grunnskólalögum frá 1995 skulu skóladagar nemenda í grunnskóla eigi vera færri en 170 á skólaári. Sveitarfélögin lengdu hins vegar starfstíma grunnskólans í 180 daga á ári, við gerð kjarasamninga í janúar 2001. Þá er rétt að benda á að launakostnaður hefur aukist mun hraðar en almennt verðlag. Á tímabilinu 1996–2004 hækkaði launavísitala um nær 70% en verðlag hækkaði rétt um 32%. Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum íslenskra sveitarfélaga sem birtar eru í Árbók sveitarfélaga 2005 var útgjaldaaukning mest á hvern nemanda milli áranna 2000 og 2001 og er að sögn samtakanna skýringuna vísast að finna í kjarasamningi LN og KÍ sem tók gildi í janúar 2001.