Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 609. máls.

Þskj. 893  —  609. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu Norðurlandasamnings um almannaskráningu.

(Lögð fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um almannaskráningu sem gerður var í Stokkhólmi 1. nóvember 2004.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar samnings milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um almannaskráningu sem gerður var í Stokkhólmi 1. nóvember 2004. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.
    Gert er ráð fyrir að hinn nýi Norðurlandasamningur um almannaskráningu öðlist gildi 1. október 2006, enda hafi öll norrænu ríkin staðfest samninginn fyrir 1. júlí 2006. Samningurinn mun leysa af hólmi núgildandi samning sem gerður var 8. maí 1989 og öðlaðist gildi 1. október 1990, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 13/1990.
    Megininntak núgildandi samnings er að flutningur manna milli norrænu ríkjanna verður ekki skráður nema á grundvelli samnorræns flutningsvottorðs. Með nýja samningnum verður samnorræna flutningsvottorðið lagt niður en í stað þess verða við flutninga fólks tekin upp rafræn samskipti og tilkynningar milli höfuðstöðva skráningaryfirvalda í hverju norrænu ríkjanna. Norrænu ríkin munu áfram skiptast á sömu grunnupplýsingum og verið hefur og áfram verður sá skilningur hafður í heiðri að Norðurlöndin séu, hvað almannaskráningu varðar, eitt skráningarsvæði. Þannig verður áfram tryggt að enginn geti átt lögheimili samtímis í tveimur norrænu ríkjanna. Áfram mun hvert ríkjanna um sig taka ákvörðun um skráningu lögheimilis hjá sér á grundvelli eigin löggjafar.
    Meginmarkmið nýja samningsins er að einfalda allt ferli við flutninga fólks milli landanna svo að menn fái fyrr notið réttinda og borið skyldur í nýja búsetulandinu. Eitt helsta vandamálið í almannaskráningu milli landanna hingað til hefur verið seinagangur við útgáfu kennitölu og er nýja samningnum ætlað að bæta þar úr. Við komu til nýs búsetulands, samkvæmt nýja samningnum, mun skráningaryfirvald gera kröfu um framvísun skilríkja er staðreyna hver viðkomandi sé (vegabréf eða annað opinbert skjal) svo að ákvæðum samningsins verði beitt við flutning lögheimilis milli landanna. Norrænu ríkin vinna nú saman að lausn tæknilegra mála svo að rafræn samskipti um almannaskráningu geti hafist milli þeirra við gildistöku samningsins.
    Sú nýbreytni í samningnum að taka við flutninga fólks milli norrænu ríkjanna upp rafrænar flutningstilkynningar í stað samnorræna flutningsvottorða kallar á breytingu á lögum um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73/1952, með síðari breytingum. Kveðið er á um þessa breytingu í 1. gr. frumvarps til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings á þjóðskrá og almannaskráningu frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytisins sem forsætisráðherra leggur fram á yfirstandandi löggjafarþingi.


Fylgiskjal.


Samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs
og Svíþjóðar um almannaskráningu.


    Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar hafa, til þess að auðvelda almannaskráningu í aðildarríkjunum, komið sér saman um eftirfarandi:

1. gr.

    1. Samningur þessi tekur til einstaklinga sem skráðir eru sem búsettir í einu aðildarríki og hafa í hyggju að flytja, eða hafa þegar flutt, til einhvers hinna ríkjanna. Skemmri dvöl en 6 mánaða telst, að öðru jöfnu, ekki jafngilda flutningi.
    2. Samningurinn tekur ekki til flutnings nema brottflutningsríkinu hafi, eigi síðar en þremur mánuðum eftir tilkynntan flutning, borist tilkynning samkvæmt 3. mgr. 2. tl. 2. gr.

2. gr.

    1. Sá sem flytur frá einu aðildarríkjanna til annars skal, fyrir lok þess frests sem gildir um tilkynningu um flutning í það ríki, tilkynna hlutaðeigandi skráningaryfirvöldum um flutninginn. Jafnframt ber viðkomandi einstaklingi að veita þær upplýsingar sem innflutningsríkið fer fram á og framvísa persónuskilríkjum, þar með talið skilríkjum um ríkisfang (vegabréf eða sambærilegt), sem og veita upplýsingar um kennitölu og um heimilisfang og sveitarfélag viðkomandi í brottflutningsríkinu þar til flutningurinn átti sér stað.
    2. Hlutaðeigandi skráningaryfirvöld í innflutningsríkinu ákveða hvort einstaklingur skuli skráður sem búsettur í því ríki.
    Ef hlutaðeigandi skráningaryfirvöld telja að einstaklingur skuli skráður sem búsettur í innflutningsríkinu ber að skrá viðkomandi sem búsettan og úthluta honum kennitölu svo fljótt sem unnt er samkvæmt þeim reglum sem gilda um einstaklinga sem flytjast inn frá ríkjum utan Norðurlandanna.
    Þegar tekin hefur verið ákvörðun um hvort skráning skuli fara fram í innflutningsríkinu ber skráningaryfirvöldum í innflutningsríkinu að tilkynna það viðkomandi einstaklingi sem og þjóðskráryfirvöldum eða hlutaðeigandi skráningaryfirvöldum í brottflutningsríkinu.
    Í tilkynningu til yfirvalda í brottflutningsríkinu skulu koma fram upplýsingar um kennitölu einstaklingsins í brottflutningsríkinu, nafn, fæðingardag, kyn og, ef skráning hefur átt sér stað, skráningardag, kennitölu, sveitarfélag og heimilisfang í innflutningsríkinu. Senda skal samsvarandi tilkynningu ef skráningaryfirvöld í innflutningsríkinu falla síðar frá fyrri ákvörðun um skráningu flutnings.
    Telji hlutaðeigandi skráningaryfirvöld að ástæða sé til að ætla að sá sem tilkynnt hefur um flutning skuli með réttu teljast búsettur í öðru umdæmi innflutningsríkisins skal vísa honum til skráningaryfirvalda þess umdæmis.
    3. Skráningaryfirvöld í brottflutningsríki skulu ekki taka brottfluttan einstakling af skrá fyrr en þeim hefur borist staðfesting á skráningu hans í innflutningsríkinu. Dagsetning brottflutnings skal ráðast af dagsetningu skráningar í innflutningsríkinu.


3. gr.

    Ákvörðun um það hvort einstaklingur skuli samkvæmt þessum samningi talinn búsettur í innflutningsríkinu skal tekin á grundvelli laga þess ríkis um innflutning.
    Fallist hlutaðeigandi skráningaryfirvöld í brottflutningsríkinu ekki á málsatvik sem lögð eru til grundvallar skráningu geta þau tekið málið upp gagnvart hlutaðeigandi skráningaryfirvöldum í innflutningsríkinu. Verði ekki samkomulag milli þeirra geta hin fyrrnefndu skotið málinu til eigin þjóðskráryfirvalda, en þau geta tekið málið upp gagnvart þjóðskráryfirvöldum innflutningsríkisins.
    Innflutningsríki telst það ríki sem viðkomandi einstaklingur hefur tekið sér búsetu í eftir flutning frá öðru ríki. Þetta gildir svo lengi sem ekki verður breyting á raunverulegri búsetu hlutaðeigandi frá því sem var þegar hann flutti.

4. gr.

    Aðildarríkin skuldbinda sig gagnkvæmt, ef farið er fram á það, til að láta í té upplýsingar um þann sem flytur, þ.e. nafn, fæðingardag, kennitölu, fæðingarstað, kyn, heimilisfang, hlutaðeigandi skráningaryfirvöld, ríkisfang, hjúskaparstöðu og dagsetningu ef við á, nafn og fæðingardag maka eða sambýlisaðila, nöfn og fæðingardaga foreldra (barna undir 18 ára aldri), nöfn og fæðingardaga barna (undir 18 ára aldri) og dagsetningu brottflutnings þegar við á, ásamt öðrum þeim upplýsingum sem taldar eru nauðsynlegar til að unnt sé að taka afstöðu til búsetumála, svo og til að tilkynna um þær ákvarðanir sem teknar eru í þeim málum.
    Tilkynning samkvæmt 2. gr. og svör við fyrirspurnum samkvæmt þessari grein geta farið fram með beinum rafrænum samskiptum milli þjóðskráryfirvalda í aðildarríkjunum sem hafa orðið sammála um þetta.

5. gr.

    Þjóðskráryfirvöld í aðildarríkjunum skuldbinda sig til að uppfæra og birta yfirlit yfir hlutaðeigandi skráningaryfirvöld í viðkomandi ríkjum.

6. gr.
    

    Samningurinn öðlast gildi 1. janúar, 1. apríl, 1. júlí eða 1. október næstkomandi, þremur mánuðum eftir þann dag er öll aðildarríkin hafa tilkynnt norska utanríkisráðuneytinu að þau hafi staðfest hann.
    Að því er varðar Færeyjar og Grænland öðlast samningurinn þó fyrst gildi 1. janúar, 1. apríl, 1. júlí eða 1. október næstkomandi, þremur mánuðum eftir að ríkisstjórn Danmerkur hefur tilkynnt norska utanríkisráðuneytinu um að viðeigandi skilyrði hafi verið uppfyllt.
    Norska utanríkisráðuneytið tilkynnir öðrum aðildarríkjum um móttöku framangreindra tilkynninga og hvenær samningurinn öðlast gildi.

7. gr.

    Við gildistöku samnings þessa fellur úr gildi norrænn samningur frá 8. maí 1989 um almannaskráningu.

8. gr.

    Hvert aðildarríki getur gagnvart hverju öðru aðildarríki sagt samningnum upp með sex mánaða fyrirvara þannig að hann falli úr gildi 1. janúar eða 1. júlí. Skal honum sagt upp með skriflegri tilkynningu til viðkomandi ríkis og norska utanríkisráðuneytisins sem tilkynnir öðrum aðildarríkjum um móttöku tilkynningarinnar og um efni hennar.

9. gr.

    Frumrit samnings þessa skal varðveitt í norska utanríkisráðuneytinu sem sendir öðrum aðildarríkjum staðfest afrit af því.
    Þessu til staðfestu hafa neðangreindir fulltrúar, sem til þess höfðu fullt umboð, undirritað samning þennan.

    Gjört í Stokkhólmi hinn 1. nóvember 2004 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku, og skulu allir textar jafngildir.