Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 613. máls.

Þskj. 898  —  613. mál.



Frumvarp til laga

um fiskrækt.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




I. KAFLI
Markmið og gildissvið.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að fiskrækt í ferskvatni. Við framkvæmd laganna skal þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi ferskvatns og á villtum ferskvatnsfiskstofnum og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu.

2. gr.

Gildissvið.


    Lög þessi taka til allrar fiskræktar, þ.m.t. hafbeitar, sem fram fer í ferskvatni á íslensku forráðasvæði. Við framkvæmd þeirra skal gætt samræmis við framkvæmd laga um lax- og silungsveiði, laga um eldi vatnafiska og laga um varnir gegn fisksjúkdómum.

3. gr.

Skilgreiningar.


    Í lögum þessum, reglugerðum og reglum, settum á grundvelli þeirra, er merking hugtaka sem hér segir:
     1.      Alifiskur: Fiskur sem alinn er eða látinn ganga sjálfala í tjörnum eða ílátum.
     2.      Eldisdýr: Lifandi fiskur, krabbadýr eða lindýr frá eldisstöð, óháð þroskastigi, að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð fyrir eldisstöð.
     3.      Fiskeldi: Geymsla, gæsla og fóðrun vatnafiska og annarra vatnadýra, klak- og seiðaeldi, hvort sem er í söltu eða ósöltu vatni.
     4.      Fiskeldisstöð: Staður þar sem vatn, sjór, land eða mannvirki er nýtt í þágu fiskeldis.
     5.      Fiskrækt: Hvers konar aðgerðir sem ætla má að skapi eða auki fisk í veiðivatni.
     6.      Fiskræktarslepping: Slepping samstofna smáseiða eða gönguseiða í því skyni að auka fiskigengd í veiðivatni.
     7.      Fiskstofn: Hópur fiska sömu tegundar sem hrygnir á tilteknum stað og tíma, en gerir það ekki í neinum mæli með öðrum hópum á öðrum stað eða tíma.
     8.      Fiskur: Fiskur í merkingu laga þessara tekur til allra tegunda lagardýra sem lifa í vatni og sjó, hvort sem er við náttúrulegar aðstæður eða í eldi.
     9.      Geldstofn: Vatnafiskur sem ekki framleiðir frjóar kynfrumur.
     10.      Göngusilungur: Silungur er gengur úr sjó í ósalt vatn, svo sem sjóbirtingur (urriði) og sjóreyður (bleikja).
     11.      Hafbeit: Slepping gönguseiða til sjógöngu og veiði kynþroska fiska til þess að fanga þá til endurveiða eða slátrunar er þeir ganga úr sjó í ferskt vatn.
     12.      Hafbeitarstofn: Hópur vatnafiska sem klakinn hefur verið út undan fiski úr hafbeit.
     13.      Hafbeitarstöð: Staður þar sem vatn, sjór, land eða mannvirki er nýtt í þágu hafbeitar.
     14.      Kynbætur: Markvisst val með tilliti til ákveðinna arfgengra eiginleika. Slíkir eiginleikar geta verið mikill vaxtarhraði eða síðkynþroski. Til undaneldis eru valdir fiskar sem sýna ákjósanlega eiginleika umfram aðra fiska í stofninum. Slíku vali er viðhaldið og það aukið með vali í hverri kynslóð.
     15.      Lagardýr: Öll dýr með kalt blóð sem lifa og geta afkvæmi í sjó eða fersku vatni.
     16.      Laxastofn: Hópur laxa sem hrygnir á tilteknum stað og tíma, en gerir það ekki í neinum mæli með öðrum hópum á öðrum stað eða tíma.
     17.      Netlög: Vatnsbotn 115 metra út frá bakka landareignar að stöðuvatni, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.
     18.      Sjór: Salt vatn utan árósa.
     19.      Straumvatn: Ósalt vatn, á eða ósasvæði sem í er greinilegur straumur, þá er enginn vöxtur er í, og um stórstraumsfjöru.
     20.      Stöðuvatn: Ósalt vatn sem eigi er í greinilegur straumur annar en sá sem stafar af sjávarföllum, vindi eða aðrennsli í leysingum.
     21.      Vatn: Ósalt vatn með föstu legi eða farvegi, straumvatn eða stöðuvatn.
     22.      Vatnadýr. Öll dýr með kalt blóð sem lifa að hluta eða allan sinn lífsferil í fersku vatni.
     23.      Vatnafiskur: Lax (Salmo salar), silungur (urriði (Salmo trutta), bleikja (Salvelinus alpinus) og regnbogasilungur (Oncorhynchus mykiss)), áll (Anguilla anguilla) eða annar vatnafiskur ef ræktaður verður.
     24.      Vatnasilungur: Silungur sem elur allan aldur sinn í ósöltu vatni, svo sem vatnaurriði, vatnableikja (reyður), lækjasilungur og murta.
     25.      Veiðivatn: Á eða stöðuvatn sem veiði er í eða mætti í vera ef fiskur væri ræktaður þar.
     26.      Villtur fiskstofn: Hópur fiska sömu tegundar sem hrygnir á sama stað og sama tíma, en gerir það ekki í neinum mæli með öðrum slíkum hópum.
     27.      Örmerkingar: Merkingar á laxi með málmflísum í trjónuna.

4. gr.

Stjórnsýsla.


    Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum, en framkvæmd stjórnsýslunnar er að öðru leyti í höndum Landbúnaðarstofnunar sem hefur eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt.
    Ráðherra skal í samræmi við fyrirmæli einstakra greina setja nánari ákvæði um framkvæmd þeirra í reglugerð. Við setningu reglugerða skal ávallt leitað faglegrar umsagnar Landbúnaðarstofnunar, Veiðimálastofnunar og fisksjúkdómanefndar sem starfar samkvæmt lögum um varnir gegn fisksjúkdómum.

II. KAFLI

Fiskræktaráætlun.

5. gr.

Fiskræktaráætlun.


    Í hverju veiðivatni, þar sem ætlunin er að stunda fiskrækt með sleppingu seiða, hafbeit til stangveiði eða öðru því er að fiskrækt lýtur, er veiðifélagi eða veiðiréttarhöfum, þar sem ekki er veiðifélag, skylt að gera fiskræktaráætlun er nái til fimm ára í senn. Hlutverk fiskræktaráætlunar er að gera fyrirhugaða fiskrækt markvissa og árangursríka og tryggja eftir föngum að þannig sé að fiskrækt staðið í hvívetna að vistkerfi villtra ferskvatnsfiskstofna stafi ekki hætta af slíkum framkvæmdum.

6. gr.

Samþykkt fiskræktaráætlunar.


    Framkvæmd samkvæmt fiskræktaráætlun er háð því að Landbúnaðarstofnun hafi áður samþykkt áætlunina. Áður en samþykki er veitt skal Landbúnaðarstofnun leita umsagnar Veiðimálastofnunar. Í samþykki skulu koma fram þeir skilmálar sem Landbúnaðarstofnun telur nauðsynlega, m.a. til verndar viðkomandi fiskstofni gegn sjúkdómum og erfðablöndun. Nánar skal kveðið á um samþykkt fiskræktaráætlunar í reglugerð sem ráðherra setur.

III. KAFLI

Almenn ákvæði um fiskrækt.

7. gr.

Hrognataka.


    Veiðifélagi er heimil lax- og silungsveiði til hrognatöku í samræmi við ákvæði II. kafla laga þessara og 26. gr. laga um lax- og silungsveiði. Ef meiri hluti veiðiréttarhafa við veiðivatn, þar sem ekki er veiðifélag, vill láta veiða lax og silung til hrognatöku í því vatni skal afla leyfis Landbúnaðarstofnunar. Leyfi veiðiréttarhafa til hrognatöku skal vera tímabundið og skulu í því felast þau skilyrði sem nauðsynleg eru að mati Landbúnaðarstofnunar til verndar fiskstofnum veiðivatnsins.

8. gr.

Fiskrækt í ám og vötnum.


    Við fiskrækt í ám og vötnum skal einungis nota stofn úr viðkomandi veiðivatni.

9. gr.

Bann við flutningi laxfisks milli veiðivatna.


    Hvers konar flutningur á laxfiskum úr náttúrulegu veiðivatni, hafbeitar- eða eldisstöð í annað náttúrulegt veiðivatn til stangveiði er óheimill.

10. gr.

Undanþága.


    Landbúnaðarstofnun getur veitt undanþágu frá banni skv. 8. og 9. gr. Til þess að fá slíka undanþágu þarf veiðifélag eða veiðiréttarhafar veiðivatns, þar sem ekki er veiðifélag, að sækja um það til Landbúnaðarstofnunar. Undanþágu má að hámarki veita til tveggja ára í senn. Með umsókn um undanþágu skal fylgja greinargerð umsækjanda um fyrirhugaða framkvæmd og umsagnir fisksjúkdómanefndar og Veiðimálastofnunar um hugsanleg áhrif framkvæmdarinnar á lífríkið, þ.m.t. hættu á erfðamengun. Sá er undanþágu beiðist ber kostnað af gerð umsagna.
    Landbúnaðarstofnun getur afgreitt undanþágur frá ákvæðum 8. gr. að fengnum sérfræðilegum umsögnum, en um umsókn um undanþágu frá ákvæðum 9. gr. gilda ákvæði 11. gr.

11. gr.

Málsmeðferð undanþágubeiðni.


    Innan tveggja vikna frá móttöku undanþágubeiðni skv. 10. gr. birtir Landbúnaðarstofnun umsóknina með opinberri auglýsingu og kallar eftir umsögnum veiðifélaga eða veiðiréttarhafa, þar sem ekki eru veiðifélög, um framkvæmdina. Frá og með þeim tíma skal hverjum sem er vera heimill aðgangur hjá Landbúnaðarstofnun að öllum gögnum málsins. Athugasemdum við umsókn skal skilað til Landbúnaðarstofnunar innan fimm vikna frá birtingu auglýsingar.

12. gr.

Ákvörðun Landbúnaðarstofnunar


    Innan átta vikna frá því að Landbúnaðarstofnun birtir umsókn um undanþágu, sbr. ákvæði 10. og 11. gr., skal hún taka rökstudda ákvörðun um það hvort fallist sé á umsókn eða henni hafnað. Landbúnaðarstofnun er heimilt að binda undanþágu nauðsynlegum skilyrðum til að tryggja að markmið laganna náist. Þegar ákvörðun Landbúnaðarstofnunar liggur fyrir skal hún kynnt umsækjanda og þeim sem athugasemdir hafa gert. Jafnframt skal birta hana opinberlega. Ákvörðun Landbúnaðarstofnunar samkvæmt grein þessari er endanleg á stjórnsýslustigi.

13. gr.

Setning reglugerðar.


    Landbúnaðarráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um málsmeðferð samkvæmt kafla þessum. Reglugerð skal m.a. hafa að geyma ákvæði um form undanþágubeiðni, málsmeðferð fyrir Landbúnaðarstofnun og form ákvörðunar. Einnig er ráðherra heimilt að ákveða með reglugerð að innheimt skuli gjald af þeim er undanþágu óskar vegna kostnaðar stjórnvalda af málsmeðferð. Einnig getur ráðherra í reglugerð sett nánari fyrirmæli um hvernig að hrognatöku skv. 7. gr. skuli staðið.

IV. KAFLI

Hafbeit.

14. gr.

Um hafbeit.


    Um hafbeit gilda ákvæði laga þessara og 1. gr., 5.–12. gr., 14.–17. gr. og 19.–22. gr. laga um eldi vatnafiska eftir því sem við getur átt.

V. KAFLI

Gildistökuákvæði o.fl.

15. gr.

Gildistaka o.fl.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2006. Um leið fellur úr gildi 23. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði.

16. gr.

Nafnbreyting.


    Við gildistöku laga þessara breytist heiti laga nr. 76/1970 og verður: Eldri lög um lax- og silungsveiði.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Frá gildistöku laga þessara og til loka ársins 2010 skal starfa samráðsnefnd um framkvæmd þeirra, laga um lax- og silungsveiði, laga um Veiðimálastofnun, laga um eldi vatnafiska og laga um varnir gegn fisksjúkdómum. Hlutverk samráðsnefndar er að fylgjast með og stuðla að greiðri framkvæmd og virkum skoðanaskiptum þeirra er lögin varða helst. Nefndin skal skipuð af landbúnaðarráðherra og í henni sitja tíu fulltrúar tilnefndir af eftirtöldum aðilum: Landssambandi veiðifélaga, Landssambandi stangveiðifélaga, Landssambandi fiskeldisstöðva, fisksjúkdómanefnd, Veiðimálastofnun, Landbúnaðarstofnun, Fiskistofu, umhverfisráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti. Þá skipar landbúnaðarráðherra einn nefndarmann án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á árinu 2001 ákvað landbúnaðarráðherra að endurskoða skyldi ákvæði gildandi lax- og silungsveiðilaga í því skyni að færa ákvæði þeirra til nútímahorfs að efni og formi. Unnið hefur verið jafnt og þétt að verkinu frá áramótum 2004/05 með það að markmiði að unnt yrði að leggja fram frumvarp til nýrra lax- og silungsveiðilaga og annarra tengdra laga við upphaf haustþings 2005. Nefnd sú sem vann að endurskoðun löggjafarinnar var skipuð þeim Þorgeiri Örlygssyni, dómara við EFTA-dómstólinn í Lúxemborg, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Ingimari Jóhannssyni, skrifstofustjóra í landbúnaðarráðuneytinu, Karli Axelssyni, hæstaréttarlögmanni og lektor við lagadeild Háskóla Íslands, og dr. Páli Hreinssyni, prófessor við sömu deild. Með nefndinni störfuðu Arnar Þór Stefánsson, héraðsdómslögmaður á Lex-Nestor lögmannsstofu, og Atli Már Ingólfsson, lögfræðingur og deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu. Dr. Sigurður Guðjónsson, forstöðumaður Veiðimálastofnunar, var faglegur ráðgjafi nefndarinnar í stöfum hennar. Í september 2005 var afrakstur af vinnu nefndarinnar kynntur á vef landbúnaðarráðuneytisins og almenningi og hagsmunaaðilum gefinn kostur á því að gera athugasemdir við drög að frumvörpunum. Bárust nefndinni athugasemdir frá 34 aðilum og samtökum. Fór nefndin yfir þær athugasemdir og tók tillit til þeirra eftir því sem efni stóðu til.
    Endurskoðun löggjafar á þessu sviði er afar umfangsmikið verkefni þar sem gæta þarf fjölþættra hagsmuna og lagaskila. Stofn gildandi löggjafar er að hluta til frá árinu 1932, þótt ný lög hafi verið sett 1941, 1957 og 1970. Með einstökum lögum hafa síðan verið gerðar fjölmargar breytingar á gildandi stofnlögum á hverjum tíma. Tilraunir til heildarendurskoðunar laganna á síðustu áratugum hafa hins vegar ekki borið árangur.
    Við þá lagaendurskoðun sem nú hefur farið fram hefur sú leið verið farin að einfalda löggjöfina og gera framsetninguna markvissari. Er að því stefnt með þrennum hætti. Í fyrsta lagi hafa verið samin frumvörp um fjóra þætti eða málaflokka sem nú eru hluti af lögum um lax- og silungsveiði og þannig gert ráð fyrir að sérlög gildi á þeim sviðum. Þetta eru ákvæði um Veiðimálastofnun, ákvæði um fiskeldi, ákvæði um varnir gegn fisksjúkdómum og síðast en ekki síst ákvæði um fiskrækt sem frumvarp þetta hefur að geyma. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að nánari útfærsla einstakra atriða verði í reglugerðum settum af landbúnaðarráðherra og reglum settum af Landbúnaðarstofnun. Í þriðja lagi hefur uppbyggingu laganna verið breytt, bæði í því skyni að einfalda og skýra, sem og að samræma fyrirkomulag og uppbyggingu laganna viðteknum viðhorfum við lagasmíð í upphafi 21. aldar.
    Til þess að benda sem skýrast á nauðsynlegt samhengi umræddrar löggjafar eru frumvörp sem lúta að þessum fjórum málaflokkum lögð fram samhliða frumvarpi til lax- og silungsveiðilaga og ráðgert að þau öll og málaflokkurinn í heild fái þannig samræmda þinglega meðferð og afgreiðslu. Í því samhengi er rétt að benda á að lög um lax- og silungsveiði verða eins konar þungamiðja þessarar lagasetningar, en hin frumvörpin fjögur koma þar til fyllingar og stuðnings, þótt þau samkvæmt efni sínu séu sjálfstæð. Er því ástæða til þess að vísa til fyllingar athugasemdum þessum til ítarlegra almennra athugasemda með nýju frumvarpi til lax- og silungsveiðilaga sem að breyttu breytanda þykja jafnframt taka til þess sviðs sem frumvarp þetta fjallar um.
    Ákvæði um fiskrækt eru nú að meginstefnu til á tveimur stöðum í gildandi lögum. Í fyrsta lagi eru ítarleg ákvæði um fiskræktaráætlun í 23. gr. lax- og silungsveiðilaga og í öðru lagi eru ákvæði um Fiskræktarsjóð í XIV. kafla laganna. Fyrrnefndu reglunum er komið fyrir í II. og III. kafla frumvarpsins, en ákvæði um Fiskræktarsjóð verða um sinn látin standa óbreytt í núgildandi lögum um lax- og silungsveiði en þau lög fá heitið „eldri lög um lax- og silungsveiði“, verði frumvarp þetta að lögum, sbr. 16. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði, sem ætlað hefur verið að stuðla að fiskrækt, eiga sér langa sögu í íslenskri löggjöf. Árið 1929 voru sett sérstök lög um fiskiræktarfélög, nr. 6 frá því ári, en segja má að fiskiræktarfélögin hafi verið eiginlegur forveri veiðifélaganna. Í 2. mgr. 1. gr. laganna var fiskirækt skilgreind með svofelldum hætti:
    „Fiskirækt er hverskonar aðgerðir, sem ætla má að skapi eða auki fiskimagn vatna, svo sem klak, innflutningur fiskiseiða, friðun á fiski, eyðing sels og annars veiðivargs.“
    Í fyrstu heildstæðu lax- og silungsveiðilögin, nr. 61/1932, voru auk ákvæðanna um fiskræktarfélög tekin upp sérstök ákvæði um styrkveitingar til fiskræktar. Sambærileg ákvæði voru í lax- og silungsveiðilögum, nr. 112/1941, sem og lögum nr. 53/1957. Í síðarnefndu lögunum var hins vegar tekinn upp sérstakur kafli um klak- og eldisstöðvar ríkisins og fiskeldi sem að nokkru tóku til viðfangsefnisins. Í lögunum frá 1970 voru sérstök ákvæði um fiskræktarfélög felld brott, en á hinn bóginn var Fiskræktarsjóður stofnaður, sbr. nánar hér síðar. Með lögum nr. 63/1994 um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði var síðan í fyrsta skipti mælt fyrir um skyldu til gerðar fiskræktaráætlunar í hverju því veiðivatni þar sem ætlunin væri að stunda fiskrækt.
    Með vísan til framangreindrar skilgreiningar í lögunum frá 1929 má segja að í tímans rás hafi engin grundvallarbreyting orðið á þeim tilgangi sem að er stefnt með fiskrækt. Menn eru þó miklum mun meðvitaðri um að fiskrækt má aldrei snúast upp í andhverfu sína, sbr. það grundvallarmarkmið að við fiskrækt skuli ávallt gætt að því að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra ferskvatnsfiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu.
    Að ósk stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva voru ákvæði um hafbeit tekin út úr frumvarpi til laga um eldi vatnafiska og er reglum um hafbeit nú skipað í frumvarp þetta. Þess skal getið að nánast engar hafbeitarstöðvar eru nú starfandi og ekki fyrirsjáanlegt að til starfrækslu fleiri stöðva verði stofnað á komandi árum. Allt að einu verða í lögum að vera ákvæði um slíka starfsemi og þykir best fara á því að þeim sé skipað í lög um fiskrækt.
    Hér fara á eftir athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins. Er hér um hefðbundna efnisskipan að ræða. Í mörgum atriðum er ekki um að ræða neinar verulegar efnisbreytingar frá reglum 23. gr. gildandi laga. Einstakar athugasemdir eru þó að sínu leyti nokkuð ítarlegar, enda óhjákvæmilegt að rekja þar uppruna einstakra greina og samsvörun þeirra í gildandi lögum.

Athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Í I. kafla eru ákvæði um markmið og gildissvið laganna, sbr. 1. og 2. gr. Þá eru í 3. gr. ítarlegar orðskýringar, en í 4. gr. er mælt fyrir um fyrirkomulag stjórnsýslu samkvæmt lögunum.

Um 1. gr.


    Markmiðsyfirlýsing 1. gr. endurspeglar þau áform að stuðla að fiskrækt, þó án þess að hún spilli villtum ferskvatnsfiskstofnum. Fiskrækt er í samræmi við skilgreiningu þá sem fram kemur í 3. gr. hver sú aðgerð sem eykur fiskmagn eða veiði og arð af henni. Í fiskrækt getur m.a. falist friðun fisks, umbætur á lífsskilyrðum hans, flutningur fisks í veiðivatn, slepping seiða, umbætur á gönguleiðum fisks til þess að gera þær greiðari, eftirlit með veiði og hvaðeina annað er lýtur að aukningu fiskstofns eða viðhaldi hans. Markmið laganna er að fiskrækt spilli ekki lífríki vatna né villtum fiskstofnum eða sjálfbærri nýtingu þeirra. Er það í samræmi við markmið frumvarps til laga um lax- og silungsveiði þar sem tryggja á sjálfbæra nýtingu og líffræðilegan fjölbreytileika.

Um 2. gr.


    Í 2. gr. er kveðið á um að lögin taki til allrar fiskræktar sem fram fer í ferskvatni á íslensku forráðasvæði og þarfnast það ekki frekari skýringa. Þá er jafnframt kveðið á um það í 2. gr. að við framkvæmd laga um fiskrækt skuli gætt samræmis við framkvæmd laga um lax- og silungsveiði, laga um varnir gegn fisksjúkdómum og laga um eldi vatnafiska. Er með þessu lögð áhersla á það sérstaka samhengi og samræmi sem vera þarf við beitingu þeirrar löggjafar sem ætlað er að leysa gildandi lög um lax- og silungsveiði af hólmi. Sambærileg ákvæði eiga að vera í öðrum þeim lögum sem tilgreind eru í frumvarpsgreininni. Í þessu felst árétting þess að þrátt fyrir þá uppskiptingu núgildandi lax- og silungsveiðilöggjafar í fleiri lagabálka, sem birtist í frumvarpi þessu og fylgifrumvörpum þess, er þeim öllum saman ætlað að mynda heildarumgjörð um málaflokkinn, svo sem gildandi lög hafa gert.

Um 3. gr.


    Í greininni hafa verið teknar saman skilgreiningar allra helstu hugtaka sem fyrir koma og hugtaka sem lýsa ýmsum þeim afbrigðum sem fyrir koma við fiskrækt. Hefur sú leið verið valin að skýra fremur fleiri en færri hugtök og styðst sú aðferð við þau rök að þótt tiltekin hugtök komi ekki fyrir í lögunum sjálfum þá kunna þau að verða notuð í reglugerðum og reglum settum á grundvelli laganna. Vakin er athygli á því að hugtakið fiskur hefur víðtækari merkingu í frumvarpi þessu en frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði. Þá er bent á að hugtakið hafbeit er samkvæmt greininni tvíþættrar merkingar. Í fyrsta lagi er um að ræða föngun fisks á sleppistað (hafbeitarstöð) til slátrunar og í öðru lagi föngun fisks til flutnings og endurveiða í öðrum vötnum. Í þessu samhengi er vert að geta þess að slepping gönguseiða í veiðivötn telst ekki til hafbeitar, heldur fiskræktar. Greinin skýrir sig að öðru leyti sjálf.

Um 4. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. fer landbúnaðarráðherra með yfirstjórn þeirra mála er varða fiskrækt. Að öðru leyti er framkvæmd stjórnsýslunnar í höndum Landbúnaðarstofnunar sem hefur eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt.
    Um reglugerðarheimild 2. mgr. er það að segja að eitt helsta markmiðið með heildarendurskoðun löggjafar um lax- og silungsveiði og skyld málefni er að einfalda lögin og gera þau aðgengilegri en áður, svo sem nánar er um fjallað í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði. Liður í þeirri viðleitni er að flytja úr lögum ýmsar reglur tæknilegs eðlis sem betur fer á að séu í reglugerð. Til þess að tryggja að við setningu reglugerðar samkvæmt lögum þessum sé ætíð byggt á vísindalegum forsendum og gögnum er tekið fram í 2. mgr. að ávallt skuli leita umsagnar Veiðimálastofnunar og fisksjúkdómanefndar áður en slíkar reglugerðir eru settar. Í þessu felst þó ekki að ráðherra eða önnur stjórnvöld samkvæmt lögum þessum séu bundin af umsögn umsagnaraðila nema það sé sérstaklega tekið fram.

Um II. kafla.


    Reglur II. kafla eru í meginatriðum samhljóða reglum gildandi laga. Fjallar kaflinn um fiskræktaráætlun sem öllum þeim sem ætla sér að stunda fiskrækt er skylt að gera.

Um 5. gr.


    Í 5. gr. kemur fram að í hverju veiðivatni, þar sem ætlunin er að stunda fiskrækt með sleppingu seiða, hafbeit til stangveiði eða öðru því er að fiskrækt lýtur, sé veiðifélagi eða veiðiréttarhöfum, þar sem ekki er veiðifélag, skylt að gera fiskræktaráætlun er nái til fimm ára í senn. Ætlunin er sú að skylda til gerðar fiskræktaráætlunar nái fyrst og fremst til fiskræktar í þrengri skilningi, þ.e. þeirra tilvika sem nefnd eru í lagagreininni, mannvirkjagerðar og inngrips í lífríki vatnsins. Á hinn bóginn þarf ekki að gera sérstaka fiskræktaráætlun ef aðgerðir lúta að viðhaldi vega, bættum aðbúnaði fyrir veiðimenn og skyldum atriðum. Er þetta óbreytt regla 1. mgr. 23. gr. gildandi laga um lax- og silungsveiðar. Það nýmæli er hins vegar að finna í frumvarpsgreininni að tilgangurinn með gerð fiskræktaráætlunar er skýrður, en hann er samkvæmt greininni sá að gera fiskrækt markvissa og árangursríka og tryggja eftir föngum að þannig sé að fiskrækt staðið í hvívetna að vistkerfi villtra ferskvatnsfiskstofna stafi ekki hætta af framkvæmdum eins og þar um ræðir. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki frekari skýringa.
    

Um 6. gr.


    Í 6. gr. kemur fram að framkvæmd samkvæmt fiskræktaráætlun sé háð því að Landbúnaðarstofnun hafi áður samþykkt áætlunina. Áður en samþykki er veitt skal Landbúnaðarstofnun afla umsagnar Veiðimálastofnunar. Í samþykki Landbúnaðarstofnunar skulu samkvæmt frumvarpsgreininni koma fram þeir skilmálar sem stofnunin telur nauðsynlega, m.a. til verndar viðkomandi fiskstofni gegn sjúkdómum og erfðablöndun. Nánar skal kveðið á um samþykkt fiskræktaráætlunar í reglugerð sem ráðherra setur. Er þetta að mestu óbreytt regla 2. mgr. 23. gr. gildandi laga um lax- og silungsveiðar.

Um III. kafla.


    Í kaflanum eru ýmsar almennar reglur er lúta að fiskrækt. Í 7. gr. er mælt fyrir um skilyrði hrognatöku, í 8. og 9. gr. eru meginreglur um bann við því að notaðir séu framandi stofnar til fiskræktar í veiðivötnum og að laxfiskur sé fluttur í veiðivatn til endurveiða. Í 10. gr. er síðan að finna undanþágu frá framangreindum meginreglum. Í 11. gr. er fjallað um málsmeðferð undanþágubeiðni, í 12. gr. um ákvörðun Landbúnaðarstofnunar um undanþágubeiðni og í 13. gr. er fjallað um setningu reglugerðar til fyllingar ákvæðum kaflans. Rétt er að vekja á því athygli að ekki er tekin upp í frumvarpið undanþáguheimild sú sem nú er í 4. mgr. 23. gr. gildandi laga, enda er fullnægjandi undanþáguheimild í 10. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.


    Í 7. gr. kemur fram regla sama efnis og regla 26. gr. frumvarps til laga um lax- og silungsveiði. Er nú gert ráð fyrir að veiðifélög geti staðið að veiðum lax og silungs til hrognatöku, enda sé slíkt í samræmi við fiskræktaráætlun skv. II. kafla frumvarpsins. Vilji meiri hluti veiðiréttarhafa við veiðivatn, þar sem ekki er starfandi veiðifélag, láta veiða lax og silung til hrognatöku í því vatni skal hins vegar afla leyfis Landbúnaðarstofnunar. Skal slíkt leyfi vera tímabundið og fela í sér skilyrði sem nauðsynleg eru að mati Landbúnaðarstofnunar til verndar fiskstofnum veiðivatnsins. Slíkar veiðar þurfa með sama hætti og gildir um veiðifélög að vera í samræmi við fyrirmæli og markmið II. kafla frumvarpsins um fiskræktaráætlun. Hér er um nokkuð breyttar reglur að ræða miðað við gildandi fyrirkomulag, sbr. 3. mgr. 23. gr. gildandi laga, sbr. einnig breytta tilhögun í 1. mgr. 26. gr. frumvarps til laga um lax- og silungsveiði. Er hér bæði tekið tillit til breyttrar stjórnsýslu á sviði landbúnaðarmála og jafnframt gert ráð fyrir aukinni aðkomu og ábyrgð veiðifélaga í þessu sambandi.

Um 8. gr.


    Samkvæmt 8. gr. er við fiskrækt í ám og vötnum einungis heimilt að nota stofn úr viðkomandi veiðivatni. Er þetta óbreytt regla 5. mgr. 23. gr. gildandi laga og styðst við þau rök að viðhalda beri náttúrulegum fiskstofnum í hverju veiðivatni, enda getur kyn- og erfðablöndun ólíkra stofna leitt til ófyrirsjáanlegra afleiðinga fyrir lífríki vatns.

Um 9. gr.


    Í 9. gr. kemur fram að hvers konar flutningur á laxfiskum úr náttúrulegu veiðivatni, hafbeitar- eða eldisstöð í annað náttúrulegt veiðivatn til stangveiði sé óheimill. Er þetta sama regla og nú kemur fram í 6. mgr. 23. gr. gildandi laga. Styðst regla frumvarpsins við sambærileg rök og regla 8. gr. og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 10. gr.


    Samkvæmt greininni getur Landbúnaðarstofnun veitt undanþágu frá banni skv. 8. og 9. gr. Til þess að fá slíka undanþágu þarf veiðifélag eða veiðiréttarhafar veiðivatns, sé veiðifélag ekki til, að sækja um það til Landbúnaðarstofnunar, og má undanþágu að hámarki veita til tveggja ára í senn. Með umsókn um undanþágu skal fylgja greinargerð umsækjanda um fyrirhugaða framkvæmd og umsagnir fisksjúkdómanefndar og Veiðimálastofnunar um hugsanleg áhrif framkvæmdarinnar á lífríkið, þ.m.t. hættu á erfðamengun. Sá er undanþágu beiðist ber kostnað af gerð umsagna. Eru þetta að mestu óbreyttar reglur 6.–8. mgr. 23. gr. gildandi laga um lax- og silungsveiði, að teknu tilliti til breyttrar stjórnsýslu á sviði landbúnaðarmála.

Um 11. gr.


    Í 11. gr. eru reglur er varða málsmeðferð undanþágubeiðni, en sambærileg ákvæði eru í 1.–3. málsl. 9. mgr. 23. gr. gildandi laga um lax- og silungsveiði. Í 11. gr. kemur fram að innan tveggja vikna frá móttöku undanþágubeiðni skv. 10. gr. skuli Landbúnaðarstofnun birta umsóknina með opinberri auglýsingu og kalla eftir umsögnum veiðifélaga eða veiðiréttarhafa um framkvæmdina, hafi veiðifélag ekki verið stofnað á viðkomandi vatnasviði. Frá og með þeim tíma skal hverjum sem er vera heimill aðgangur hjá Landbúnaðarstofnun að öllum gögnum málsins. Athugasemdum við umsókn skal skilað til Landbúnaðarstofnunar innan fimm vikna frá birtingu auglýsingar. Hefur frumvarpsgreinin þann tilgang að skapa réttaröryggi með því að tryggja samræmda og faglega meðferð undanþágubeiðna og tryggja jafnframt öllum hagsmunaaðilum rétt til að koma að athugasemdum og andmælum.

Um 12. gr.


    Í 12. gr. er ákvæði um hvernig Landbúnaðarstofnun skal standa að ákvarðanatöku um undanþágubeiðni. Regla sama efnis er nú í 4.–5. málsl. 9. mgr. 23. gr. og í 10. mgr. 23. gr. gildandi lax- og silungsveiðilaga. Í frumvarpsgreininni kemur fram að innan átta vikna frá því að Landbúnaðarstofnun birti umsókn um undanþágu, sbr. ákvæði 10. og 11. gr., skuli hún taka rökstudda ákvörðun um það hvort fallist sé á umsókn eða henni hafnað. Landbúnaðarstofnun er samkvæmt frumvarpsgreininni heimilt að binda undanþágu nauðsynlegum skilyrðum til að tryggja að markmið laganna náist. Þegar ákvörðun Landbúnaðarstofnunar liggur fyrir skal hún kynnt umsækjanda og þeim sem athugasemdir hafa gert. Jafnframt skal birta hana opinberlega. Vakin er athygli á þeirri breytingu að nú er ekki lengur gert ráð fyrir málskotsrétti til landbúnaðarráðherra, sbr. 12. mgr. 23. gr. gildandi laga. Í þessu felst að ákvörðun Landbúnaðarstofnunar er endanleg á stjórnsýslustigi, en verður að sjálfsögðu borin undir úrskurð dómstóla samkvæmt almennum reglum þar að lútandi.

Um 13. gr.


    Í greininni er fjallað um setningu reglugerða til fyllingar ákvæðum II. kafla. Grein þessi á sér að hluta til stoð í 11. mgr. 23. gr. gildandi laga, en tekur þó til fleiri atriða en þar eru tilgreind. Frumvarpsgreinin sjálf er ítarleg og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um IV. kafla, 14. gr.


    Eins og áður segir voru ákvæði um hafbeit tekin út úr frumvarpi til laga um eldi vatnafiska að ósk stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva og er þeim nú skipað í IV. kafla frumvarps þessa.

Um V. kafla.


    Í V. kafla eru ákvæði um gildistöku og nafnbreytingu eldri lax- og silungsveiðilaga.

Um 15. gr.


    Í frumvarpsgreininni er mælt fyrir um gildistöku laganna, verði frumvarpið samþykkt, þann 1. júní 2006, sem og brottfall ákvæðis 23. gr. í gildandi lax- og silungsveiðilögum sem fjallar um fiskrækt.

Um 16. gr.


    Í frumvarpsgreininni er kveðið á um nafnbreytingu á núgildandi lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, og munu þau fá heitið „eldri lög um lax- og silungsveiði“, verði frumvarp þetta að lögum. Ástæða þessa fyrirkomulags er sú að ekki hefur náðst samstaða um að breyta ákvæðum eldri lax- og silungsveiðilaga um Fiskræktarsjóð og því var ákveðið að hafa ákvæðin óbreytt í eldri lögum enn um sinn. Að sama skapi mun óbreytt standa í eldri lögum ákvæði 94. gr. laganna sem fjallar um veiðimálanefnd, enda fer sú nefnd með stjórn Fiskræktarsjóðs. Verður það eina verkefni nefndarinnar nái frumvarp þetta fram að ganga. Verði samþykkt öll þau fimm frumvörp sem lögð eru nú fyrir Alþingi, og varða lax- og silungsveiði og tengd atriði, verða ákvæði um Fiskræktarsjóð og veiðimálanefnd einu ákvæðin sem eftir standa í eldri lögum.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Svo sem víða hefur verið vikið að í athugasemdum með frumvarpi þessu hefur sú leið verið farin við endurskoðun gildandi lax- og silungsveiðilaga að kljúfa efni þeirra upp og greina í fimm lagabálka. Liggur því til grundvallar það sjónarmið að skipa saman í lagabálka þeim atriðum sem efnislega samstöðu eiga, en skilja að öðru leyti á milli. Birtist þetta í því að samhliða frumvarpi þessu eru lögð fram fjögur önnur frumvörp, þ.e. frumvarp til laga um lax- og silungsveiði, frumvarp til laga um varnir gegn fisksjúkdómum, frumvarp til laga um eldi vatnafiska og frumvarp til laga um Veiðimálastofnun, og munu þau öll, ef að lögum verða, mynda þá lagaumgjörð sem nú er að finna í lax- og silungsveiðilögunum einum. Til viðbótar þessum frumvörpum munu nýsamþykkt lög um Landbúnaðarstofnun víða koma við sögu við framkvæmd lax- og silungsveiðilöggjafar. Þá er og rétt að hafa í huga að samhliða þessari fyrirkomulagsbreytingu er öll stjórnsýsla við lagaframkvæmdina einfölduð í frumvörpunum og munu færri aðilar koma þar að málum en nú er.
    Þegar svo miklar breytingar eru gerðar á lagaumhverfinu er nauðsynlegt að tryggja að lagaframkvæmdin geti gengið sem best fyrir sig, agnúar verði sniðnir af og samþætting tryggð. Því er í bráðabirgðaákvæði með frumvarpinu gert ráð fyrir því að á næstu fimm árum frá gildistöku laganna starfi samráðsnefnd um framkvæmd þeirra og annarra þeirra laga er mynda þá lagaumgjörð sem hér er lögð til. Er nefndinni ætlað að vera samstarfs- og samráðsvettvangur þeirra aðila sem lagaframkvæmdin varðar helst. Hún á að fylgjast með og stuðla að greiðri lagaframkvæmd og virkum skoðanaskiptum þeirra sem lögin varða helst.
    Í bráðabirgðaákvæðinu er gert ráð fyrir því að nefndin verði skipuð til fimm ára, enda ætti þá að vera komin góð reynsla á lagaframkvæmdina. Ef reynslan af starfi nefndarinnar er jákvæð er með lagabreytingu unnt að festa hana varanlega í sessi.



Fylgiskjal I.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um fiskrækt.


    Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvarpi til laga um Veiðimálastofnun, frumvarpi til laga um varnir gegn fisksjúkdómum, frumvarpi til laga um eldi vatnafiska og frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði, en lagafrumvörpum þessum er ætlað að leysa af hólmi gildandi lög um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum. Þessu tiltekna frumvarpi er ætlað að leysa af hólmi XIV. kafla laganna auk 23. og 94. gr.
    Meginbreytingar frumvarpsins frá þeim ákvæðum gildandi laga, sem ráð er fyrir gert að falli brott við lögfestingu þess, felast í því að stjórn Fiskræktarsjóðs verður falin þriggja manna stjórn í stað veiðimálanefndar áður og skattstjórum verður falið að leggja gjald á fyrirtæki sem stunda raforkuvinnslu með vatnsorku í stað veiðimálanefndar áður.
    Ekki verður séð að frumvarp þetta, verði það óbreytt að lögum, hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.