Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 379. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 939  —  379. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um bílaleigur, nr. 64/2000, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Sigurberg Björnsson og Jóhann Guðmundsson frá samgönguráðuneyti.
    Nefndinni bárust skriflegar umsagnir um málið frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Umferðarstofu, Vegagerðinni og Bílgreinasambandinu.
    Með frumvarpinu er lagt til að færa málefni bílaleigna og veitingu leyfa til að reka bílaleigur frá samgönguráðuneyti til Vegagerðarinnar. Þannig er gert ráð fyrir að þeir sem vilji reka bílaleigur hafi starfsleyfi frá Vegagerðinni en ekki samgönguráðuneytinu. Það samræmist meginreglum góðrar stjórnsýslu um rétt borgaranna til að skjóta stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds. Auk þess fer Vegagerðin nú þegar með leyfisveitingar í skyldum málaflokkum, svo sem varðandi fólks- og farmflutninga á landi og leigubifreiðar.
    Aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru m.a. að kveðið er á um að bílaleiga skuli rekin á fastri starfsstöð sem opin skal almenningi á tilgreindum tíma. Þá er áréttað að bílaleigu er bannað að leigja út ökutæki sem ekki er sérstaklega skráð hjá Umferðarstofu sem ökutæki sem leigt er í atvinnuskyni án ökumanns.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.
    Jón Bjarnason sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu með fyrirvara.
    Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. mars 2006.



Guðjón Hjörleifsson,


frsm.


Pétur H. Blöndal.


Anna Kristín Gunnarsdóttir.



Ísólfur Gylfi Pálmason.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Guðjón A. Kristjánsson.



Kristinn H. Gunnarsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.