Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 420. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 966  —  420. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um launa- og starfskjör skráðra félaga í Kauphöllinni.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða skráð félög í Kauphöllinni og á tilboðsmarkaði hennar hafa farið eftir reglum sem Kauphöllin setti um mitt ár 2003 um launakjör stjórnarmanna og æðstu stjórnenda? Hvaða skráð félög hafa ekki gert slíkt? Óskað er eftir að gerð verði grein fyrir upplýsingum hvers félags um sig um launakjör einstakra stjórnarmanna og æðstu stjórnenda, þ.m.t. kaupréttarsamninga eða sambærilega samninga, ráðningar- eða starfslokasamninga og hlutafjáreign þeirra, sömuleiðis upplýsingum um óvenjuleg viðskipti eða samninga og lífeyrisréttindi umfram það sem venjulegt er.
     2.      Hvaða félög skráð í Kauphöllinni og á tilboðsmarkaði hennar hafa farið að leiðbeinandi reglum um skipan óháðra aðila í stjórnir fyrirtækjanna og skipan starfskjaranefndar og hvaða fyrirtæki hafa ekki gert það?
     3.      Hve oft hefur Kauphöllin gert athugasemdir við að ekki hafi verið farið að leiðbeinandi tilmælum um stjórnarhætti í fyrirtækjum og hver eru þau tilvik?


    Eins og fyrirspurnin ber með sér er ekki óskað eftir upplýsingum sem tiltækar eru í ráðuneytinu heldur upplýsingum sem fyrirspyrjandi telur að Kauphöll Íslands búi yfir. Var Kauphöllinni send fyrirspurnin ásamt ósk um að hún tæki saman svör við því sem spurt er um. Svar ráðherra er því alfarið byggt á svari Kauphallar Íslands.
    Samkvæmt svari Kauphallar Íslands er reglur hennar er varða upplýsingaskyldu skráðra félaga um launakjör stjórnenda og stjórnarhætti félagsins að finna í kafla 2.5 í reglum fyrir útgefendur verðbréfa í Kauphöll Íslands hf. Samkvæmt þeim er gerð krafa um að upplýsingar komi fram í ársreikningi um laun, greiðslur og hlunnindi til æðstu stjórnenda (sbr. gr. 2.5.2 og 2.5.3), samninga um kauprétti (sbr. gr. 2.5.5), óvenjuleg viðskipti (sbr. gr. 2.5.6), aðra óvenjulega samninga (sbr. gr. 2.5.7), hlutafjáreign stjórnenda (sbr. 2.5.8) og yfirlýsingu um stjórnarhætti fyrirtækja – „Fylgið eða skýrið“ (sbr. 2.5.9).
    Samkvæmt upplýsingum úr svari Kauphallarinnar er sá háttur hafður á þegar skráð félög birta ársreikninga sína að starfsmenn Kauphallarinnar fara yfir upplýsingar sem þar koma fram með reglur Kauphallarinnar til hliðsjónar. Séu reglurnar ekki uppfylltar er kallað eftir þeim upplýsingum sem á vantar og þær birtar í fréttakerfi Kauphallarinnar um leið og þær berast. Í svarinu bendir Kauphöllin á að hún beiti útgefendur ekki opinberum viðurlögum nema um alvarleg brot á reglum um upplýsingagjöf sé að ræða en hafi, samkvæmt samningi, rétt til að áminna útgefendur óopinberlega eða opinberlega í fréttakerfi sínu og beita févíti. Kauphöllin sé því bundin trúnaði um einstök eftirlitsmál. Til að auka gagnsæi og upplýsingar á markaði hefur Kauphöllin sl. þrjú ár birt árlega „Yfirlit eftirlitsmála“ og er yfirlitið að finna á heimasíðu Kauphallarinnar. Samkvæmt upplýsingum Kauphallarinnar má á fréttavef hennar nálgast ársreikninga, ársskýrslur og fréttatilkynningar skráðra fyrirtækja. Vefurinn sé mjög aðgengilegur og megi nálgast upplýsingar eftir dagsetningu fréttar eða fréttaflokkum, svo sem eftir einstökum félögum eða eðli tilkynninga.