Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 678. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 994  —  678. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á ýmsum lögum til verndar trúnaðarsambandi fjölmiðla og heimildarmanna þeirra og til verndar starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga vegna upplýsingagjafar í þágu almannaheilla.

Flm.: Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir,


Guðrún Ögmundsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Össur Skarphéðinsson,


Anna Kristín Gunnarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.



I. KAFLI

Breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, með síðari breytingum.

1. gr.

    Í stað 1. mgr. 53. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Starfsmönnum fjölmiðla er ekki skylt að skýra frá því fyrir dómi hver sé heimildarmaður eða höfundur að riti, grein, frásögn, tilkynningu eða öðru efni, hvort sem það hefur birst eða ekki, hafi heimildarmaður eða höfundur óskað nafnleyndar. Þetta á þó ekki við ef vitnisburðar er krafist vegna alvarlegs afbrots sem ætla má að muni varða þyngri refsingu en þriggja ára fangelsi eða vegna brots á þagnarskyldu í opinberu starfi, enda sé vitnisburður um hver sé höfundur eða heimildarmaður nauðsynlegur fyrir rannsókn máls og hagsmunir af því að upplýsa mál vegi ótvírætt þyngra en hagsmunir almennings af því að fá umræddar upplýsingar í hendur.
    Undanþága skv. 1. mgr. gildir einnig um þá sem vegna tengsla við fjölmiðil eða framleiðslu efnis hefur orðið kunnugt um hver heimildarmaður eða höfundur þess er.
    Óheimilt er með sömu takmörkunum og greinir í 1. mgr. að nota sönnunargögn fyrir dómi sem aflað hefur verið á grundvelli X. og XI. kafla laganna og hafa að geyma upplýsingar um höfund eða heimildarmann efnis.

II. KAFLI

Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 53. gr. laganna:
     a.      A-liður 2. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðanna „b- til d-lið 2. mgr.“ í fyrri málslið 3. mgr. kemur: 2. mgr.
     c.      Við bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Starfsmönnum fjölmiðla er ekki skylt að skýra frá því fyrir dómi hver sé heimildarmaður eða höfundur að riti, grein, frásögn, tilkynningu eða öðru efni, hvort sem það hefur birst eða ekki, hafi heimildarmaður eða höfundur óskað nafnleyndar.
                  Undanþága skv. 4. mgr. gildir einnig um þá sem vegna tengsla við fjölmiðil eða framleiðslu efnis hefur orðið kunnugt um hver heimildarmaður eða höfundur þess er.
                  Með sömu takmörkunum og í 4. mgr. er starfsmönnum fjölmiðla heimilt að neita að leggja fram sönnunargögn fyrir dómi sem hafa að geyma upplýsingar um hver er höfundur eða heimildarmaður efnis.

III. KAFLI

Breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996,

með síðari breytingum.

3. gr.

    Við 18. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Starfsmanni er heimilt að víkja frá þagnarskyldu skv. 1. mgr. ef málefni varðar mikilsverða hagsmuni sem telja verður að eigi brýnt erindi til almennings.

IV. KAFLI

Breyting á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum.

4. gr.

    Við 32. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Starfsmanni er heimilt að víkja frá þagnarskyldu skv. 1. mgr. ef málefni varðar mikilsverða hagsmuni sem telja verður að eigi brýnt erindi til almennings.

V. KAFLI

Breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

5. gr.

    Við 136. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hafi upplýsingar skv. 1. og 2. mgr. verið gefnar í þágu almannaheilla og ríkir hagsmunir í húfi skal það refsilaust.

VI. KAFLI

Gildistaka.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 130. löggjafarþingi af Bryndísi Hlöðversdóttur og fleiri þingmönnum Samfylkingarinnar en það er nú lagt fram að nýju nokkuð breytt þar sem tekið hefur verið tillit til umsagna er bárust um málið.
    Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að lögfestar verði strangari reglur til verndar trúnaðarsambandi fjölmiðlamanna og heimildarmanna þeirra. Hins vegar er lagt til í frumvarpinu að opinberum starfsmönnum og sveitarstjórnarmönnum verði heimilað að víkja frá þagnarskyldu þegar málefni varðar mikilsverða almenna hagsmuni sem telja verður að eigi brýnt erindi til almennings.

Markmiðið með aukinni heimildavernd.

    Markmið reglna um heimildavernd, þ.e. reglna sem tryggja nafnleynd höfunda og heimildarmanna fjölmiðlamanna, er að tryggja möguleika fjölmiðla til upplýsinga- og fréttaöflunar um hvert það efni sem varðar hagsmuni almennings. Frjálsir og óháðir fjölmiðlar mynda eina af meginstoðum hvers lýðræðisríkis og reglur um heimildavernd eru eitt veigamesta skilyrðið fyrir fullnægjandi starfrækslu þeirra.
    Samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eiga rétt á að láta í ljós hugsanir sínar. Í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu sem varða brot á tjáningarfrelsi hefur verið staðfest að hlutverk fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi felst ekki eingöngu í því að veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald með gagnrýnni umræðu heldur ekki síður í að tryggja almenningi upplýsingar um hvers konar mál er varða almannahagsmuni.
    Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Goodwins gegn Bretlandi frá 27. mars 1996 kemur fram að sé ekki fyrir hendi vernd heimildarmanna blaðamanna kunni það að aftra heimildarmönnum frá því að aðstoða fjölmiðla við að veita almenningi upplýsingar um málefni sem varða almannahag.
    Páll Þórhallsson lögfræðingur skrifar eftirfarandi í grein í Blaðamanninum, félagstíðindum Blaðamannafélags Íslands, 1. tbl. 2004: „Ríkinu ber skylda til að virða trúnaðarsamband milli blaðamanna og heimildarmanna. Að krefjast þess að trúnaður sé rofinn jafngildir því að eyðileggja þetta trúnaðarsamband.“
    Til þess að fjölmiðlar geti rækt hið mikilvæga hlutverk sitt er nauðsynlegt að tryggja þeim nægilega vernd og starfsfrið til þeir geti stundað frjálsa blaðamennsku og notið trausts almennings. Annars er hætta á að þeir upplýsi einungis um það sem stjórnvöld vilja að þeir upplýsi. Reglur um heimildavernd eru meðal grundvallarskilyrða þess að fjölmiðlar geti lagt sitt af mörkum til lýðræðisþjóðfélags.
    Evrópuráðið hefur sent frá sér tilmæli nr. 7/2000 hvað varðar heimildavernd. Þar kemur m.a. fram á að ekki eigi að skylda blaðamann til að greina frá heimildum sínum nema sýnt hafi verið fram á með óhyggjandi hætti að ekki séu fyrir hendi aðrar leiðir til að ná sama markmiði og að hagsmunir af því að upplýsa um heimildina séu augljóslega ríkari en almannahagsmunirnir af því að trúnaður verði haldinn.
    Í hugtakinu heimildavernd eins og það er notað hér felst jafnframt að óheimilt er að nota sönnunargögn sem hafa að geyma upplýsingar um nafn heimildarmanns eða höfundar og aflað er með leit eða haldlagningu, hvort sem efnið hefur verið birt eða ekki. Á þetta reyndi m.a. í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Roemen og Schmit gegn Lúxemborg frá 25. febrúar 2003.
    Ef fullnægjandi heimildavernd er ekki tryggð getur það orðið til þess að upplýsingar sem erindi eiga til almennings, svo sem um spillingu innan stjórnkerfis, verði ekki látnar í té vegna ótta heimildarmanna um að þeir geti átt yfir höfði sér hefndaraðgerðir atvinnurekenda, stjórnvalda eða annarra sem hagsmuni hafa af því að upplýsingunum sé haldið leyndum. Þá getur heimildarmaðurinn verið öðrum háður á einhvern hátt eða hann vill ekki blanda sér opinberlega í deilur en telur sér engu að síður siðferðilega skylt að koma á framfæri upplýsingum sem varða almannahagsmuni.
    Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Sunday Times frá árinu 1979 var tekið fram að tjáningarfrelsi sé ekki einungis frelsi til að veita upplýsingar sem eru óumdeildar heldur nái það einnig til upplýsinga sem eru móðgandi eða truflandi fyrir ríkisvaldið eða hvaða hluta samfélagsins sem er.

Ábyrgjast þarf skoðanir fyrir dómum.
    Í 73. gr. stjórnarskrárinnar er enn fremur kveðið á um að menn eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar en verði að ábyrgjast þær fyrir dómi. Þannig er ákveðið samhengi milli ábyrgðarreglu fjölmiðla samkvæmt útvarpslögum og prentlögum og verndar höfundar eða heimildarmanns, en ritstjórar blaða og útvarpsstjórar bera hlutlæga ábyrgð á því efni sem birt er í fjölmiðlum sem þeir fara fyrir. Ábyrgðarreglurnar veita fjölmiðlum og öðrum sem skrifa greinar og efni nauðsynlegt aðhald í umfjöllun um mál.
    Innan fjölmiðlastéttarinnar gilda auk þess ákveðnar siðareglur sem ætlað er að vernda notendur gegn ónákvæmum, hlutdrægum eða ósönnum fréttum, tryggja nafnleynd heimildarmanna hafi trúnaði verið heitið og vernda þann mann eða lögaðila sem rannsókn eða umfjöllun fjölmiðlamanns beinist að hverju sinni, þannig að ekki sé gengið nær persónu hans, æru, einkalífi eða viðskiptavild en góðu hófi gegnir. Þá eiga fjölmiðlar allt undir því að ávinna sér traust almennings og gegna siðareglurnar mikilvægu hlutverki í því.

Trúnaðarsamband fjölmiðla og heimildarmanna fyrir dómstólum.
    Á síðustu árum hafa komið upp mál þar sem reynt hefur á slíkt trúnaðarsamband fjölmiðla og heimildarmanna fyrir dómstólum. Á 120. löggjafarþingi fluttu fimm þingmenn tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á lagaákvæðum um vernd trúnaðarsambands fjölmiðlamanna og heimildarmanna þeirra en tillagan náði ekki fram að ganga.
    Tillagan var lögð fram í kjölfar niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í dómsmáli sem höfðað var gegn Morgunblaðinu vegna greinaskrifa um endalok Sambands íslenskra samvinnufélaga og viðskipti þess við Landsbanka Íslands. Niðurstaða Héraðsdóms var á þann veg að blaðamanni blaðsins var talið skylt að bera vitni í málinu. Í Hæstarétti frá 10. janúar 1996 var blaðamanninum talið óskylt að svara því á hvaða heimildum hann hefði byggt skrif sín eða hverjir heimildarmenn hans hefðu verið.
    En í þessum dómi var niðurstaða Hæstaréttar ekki byggð á skilyrðislausum rétti blaðamannsins til að vernda heimildarmenn sína heldur á mati dómstólsins á þeim hagsmunum sem stefnandi hafði af því að fá umræddar upplýsingar.

Aukin heimildavernd í opinberum málum.
    Með frumvarpi þessu er lögð til lögfesting á strangari reglum um heimildavernd en nú eru í gildi í einkamálum og opinberum málum. Fyrirmyndin að ákvæðunum er að nokkru fengin úr dönsku réttarfarslögunum.
    Samkvæmt gildandi ákvæðum um heimildavernd njóta heimildarmenn nú meiri verndar í einkamálum en í opinberum málum þó að ekki verði séð að hagsmunirnir þar séu minni.
    Samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, nær heimildaverndin einungis til mála þar sem ætla má að refsing fyrir meint afbrot verði fésektir eða minni en eitt ár í fangelsi. En í lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, er heimildaverndin mun víðtækari, samkvæmt þeim er vitni í einkamáli í raun óheimilt án leyfis þess sem á í hlut að svara spurningum um hver sé höfundur eða heimildarmaður rits, greinar, frásagnar eða tilkynningar sem hefur birst án þess að hann sé nafngreindur, ef vitnið ber að lögum ábyrgð á efni prentaðs rits eða öðru efni sem birtist opinberlega eða það hefur öðlast vitneskju um höfund eða heimildarmann í starfi hjá ábyrgðarmanni.
    Í frumvarpinu er því lagt til að sama efnisreglan gildi um opinber mál og einkamál, þó með þeirri undantekningu að víkja megi heimildaverndinni til hliðar í opinberum málum þar sem vitnisburðar er krafist vegna alvarlegs afbrots sem ætla má að varði þyngri refsingu en þriggja ára fangelsi. Mat á slíku verður í höndum dómstóla og er það sambærilegt við dönsk lög.

Breyting á þagnarskyldu opinberra starfsmanna.
    Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, er opinberum starfsmönnum skylt að gæta þagmælsku um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna eða eðli máls og helst þagnarskyldan þó látið sé af starfi.
    Í sveitastjórnarlögum, nr. 45/1998, er sambærilegt ákvæði en þar segir að sveitarstjórnarmenn skuli gæta þagnarskyldu um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Helst þagnarskyldan áfram eftir að sveitarstjórnarmaður lætur af störfum.

Ríkari skyldur opinberra starfsmanna nú.
    Ríkari skyldur eru lagðar á opinbera starfsmenn og sveitarstjórnarmenn samkvæmt lögum en t.d. starfsmenn á hinum almenna markaði sem þó geta verið bundnir þagnarskyldu samkvæmt samningum við launagreiðendur sína. Þegar litið er til þess að opinberir starfsmenn geta búið yfir upplýsingum um spillingu í stjórnkerfinu verður að telja nauðsynlegt að gera þeim kleift samkvæmt lögum að víkja frá hinni lögbundnu þagnarskyldu ef málefni varðar mikilsverða hagsmuni sem telja verður að eigi brýnt erindi til almennings.
    Réttur almennings til upplýsinga, tjáningarfrelsis og gagnrýni á valdhafa, stofnanir og mál sem varða almannahagsmuni er enda mjög ríkur og gegna fjölmiðlar þar lykilhlutverki. Skemmst er að minnast uppljóstrunar um spillingu og misferli hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem leiddi til afsagnar allrar framkvæmdastjórnarinnar.
    Sömuleiðis geta starfsmenn einkafyrirtækja áfram verið samningsbundnir af þagnarskyldu og þar með skapað sér bótaábyrgð vegna brota á henni. Í því sambandi er þó minnt á 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936.

Bótaréttur heimildarmanna.
    Þá er nauðsynlegt að þeim sem aðstoða, t.d. fjölmiðla, við að upplýsa mál sem varða almannahagsmuni og jafnvel spillingu valdhafa verði tryggður bótaréttur verði þeir fyrir tjóni af þeim sökum, svo sem uppsögn eða missi réttinda.
    Samhliða frumvarpi þessu er því lagt fram frumvarp til laga um bótarétt heimildarmanna og gildir þá einu hvort í hlut eiga opinberir starfsmenn, sveitarstjórnarmenn eða starfsmenn félaga eða fyrirtækja.
    Hins vegar er ljóst að heimildarmaður sem rýfur þagnarskyldu tekur með því áhættu þar sem mat hans á gildi upplýsinganna getur verið rangt og hann því refsi- og bótaábyrgur fyrir uppljóstrunina og án bótaréttar vegna uppsagnar, missis réttinda eða annarra aðgerða af hálfu vinnuveitanda.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með ákvæðinu er lagt til að reglur um heimildavernd verði hertar verulega. Í 1. mgr. 53. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, segir að þeim sem ber ábyrgð að lögum á efni prentaðs rits eða öðru efni sem birt er opinberlega sé óskylt að skýra frá því fyrir dómi hver sé höfundur að riti, grein, frásögn eða tilkynningu sem hefur birst án þess að höfundur sé nafngreindur. Þetta á þó ekki við ef vitnisburðar er krafist vegna afbrots sem ætla má að varði þyngri refsingu en fésektum eða fangelsi allt að einu ári, eða brots á þagnarskyldu í opinberu starfi, enda sé vitnisburður nauðsynlegur fyrir rannsókn málsins og ríkir hagsmunir í húfi. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þessu ákvæði.
    Í fyrsta lagi er lagt til að ákvæðið nái til allra starfsmanna fjölmiðla, auk þeirra sem vegna tengsla við fjölmiðla, gerð eða framleiðslu efnis hefur orðið kunnugt um hver heimildarmaður eða höfundur er. Í gildandi lögum er einungis átt við þann sem ber ábyrgð að lögum á efni prentaðs rits eða öðru efni sem birt er opinberlega.
    Almennt er skylt að mæta fyrir dóm þó að gerðar séu nokkrar undanþágur á því varðandi afmarkaðan hóp manna. Ekki er ætlunin að undanþiggja starfsmenn fjölmiðla því að mæta fyrir dóm heldur einungis undanþiggja þá því að skýra frá því hver sé heimildamaður eða höfundur að riti, grein, frásögn, tilkynningu eða öðru efni. Heimildaverndin nær aðeins til hvers konar gagna og mynda sem hægt er að rekja beint til heimildarmanns en ekki til annarra upplýsinga, svo sem um magn fíkniefna í smyglmáli, svo að dæmi sé tekið, eða upplýsinga um hvar eftirlýst persóna dvelst.
    Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að einungis verði heimilt að víkja frá heimildaverndinni ef vitnisburðar er krafist vegna alvarlegs afbrots sem ætla má að muni varða þyngri refsingu en þriggja ára fangelsi, í stað eins árs fangelsis samkvæmt gildandi lögum, eða vegna brots gegn þagnarskyldu í opinberu starfi, enda sé vitnisburður nauðsynlegur fyrir rannsókn málsins og hagsmunirnir af því að upplýsa málið vegi þyngra en hagsmunir almennings af því að fá umræddar upplýsingar í hendur.
    Þá er áskilið hagsmunamat dómstóla á því hvort vegi þyngra, hagsmunir af því að upplýsa einstakt mál fyrir dómstólum annars vegar og hins vegar þeir hagsmunir af trúnaðarsambandi fjölmiðla og heimildarmanna sem leiðir af hagsmunum almennings af því að fá faglega umfjöllun og réttar upplýsingar um mikilvæg fjárhagsleg, viðskiptaleg og stjórnmálaleg málefni sem varða almannahagsmuni.
    Eins og áður sagði er að nánari skilyrðum uppfylltum unnt að víkja heimildaverndinni til hliðar ef ætla má að afbrot varði þyngri refsingu en þriggja ára fangelsi. Sömuleiðis þarf afbrotið að vera alvarlegs eðlis og er það svipað og í dönsku réttarfarslögunum en þar er m.a. sagt að afbrotið þurfi að vera alvarlegs eðlis (af alvorlig karakter) til að hægt sé að aflétta heimildarverndinni. Í þessu felst að ekki er nægilegt að refsiramminn geti rúmað þriggja ára fangelsi heldur þarf brotið sjálft að vera það alvarlegt að líklegt megi telja að þriggja ára fangelsi yrði í reynd dæmt fyrir það. Þannig koma einungis alvarlegustu brot til greina, svo sem manndráp, meiri háttar líkamsmeiðingar, eiturlyfjadreifing í stórum stíl, meiri háttar auðgunarbrot, alvarleg kynferðisafbrot og almannahættubrot.
    Þá er dómara heimilt að víkja heimildaverndinni til hliðar með sömu skilyrðum ef um er að ræða brot gegn þagnarskyldu í opinberu starfi. Sem dæmi má nefna ef viðkomandi heimildarmaður er opinber starfsmaður sem hefur misnotað aðstöðu sína gróflega og veitir upplýsingar um einstaklinga úr opinberum skrám eða upplýsir um mikilvæg rekstrarleyndarmál sem hann hefur haft aðgang að. Skoða verður þessa heimild í samhengi við þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sveitarstjórnarlögum og almennum hegningarlögum.
    Í þriðja lagi verður heimildaverndin ekki bundin við að viðkomandi upplýsingar hafi verið birtar. Trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og höfunda og heimildarmanna er verndað með ákvæðinu þó að efnið hafi ekki verið birt en svo er ekki samkvæmt gildandi lögum. Samkvæmt frumvarpinu þarf heimildarmaður eða höfundur að hafa óskað nafnleyndar.
    Í fjórða lagi er lagt til það nýmæli að heimildaverndin verði látin ná til sönnunargagna sem aflað er með leit og haldlagningu og hafa að geyma upplýsingar um það hver er höfundur efnis eða heimildarmaður. Í þessu felst að óheimilt er með sömu takmörkunum og greinir í 1. mgr. ákvæðisins að nota fyrir dómi sönnunargögn sem aflað hefur verið á grundvelli heimilda í X. og XI. kafla laganna um leit og haldlagningu hjá starfsmönnum fjölmiðla eða öðrum sem vegna tengsla við fjölmiðil eða framleiðslu efnis hafa undir höndum efni sem hefur að geyma upplýsingar um nöfn heimildarmanna eða höfunda hvort sem efnið hefur verið birt eða ekki.

Um 2. gr.


    Í a-lið 2. mgr. 53. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, segir að vitni sé óheimilt án leyfis þess sem á í hlut að svara spurningum um hver sé höfundur eða heimildarmaður að riti, grein, frásögn eða tilkynningu sem hefur birst án þess að hann væri nafngreindur, ef vitnið ber ábyrgð að lögum á efni prentaðs rits eða öðru efni sem birtist opinberlega eða það hefur öðlast vitneskju um höfund eða heimildarmann í starfi hjá ábyrgðarmanni.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að þrjár nýjar málsgreinar komi í staðinn fyrir þennan lið en þær eru efnislega samhljóða þeim sem koma fram 1. gr. frumvarpsins og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 3.–5. gr.


    Í 3. og 4. gr. er lagt til að lögfest verði heimild til handa starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga til að víkja frá þagnarskyldu þegar veigamiklir almannahagsmunir eru í húfi.
    5. gr. á að tryggja að ef opinberir starfsmenn sem bundnir eru þagnarskyldu víkja frá henni af framangreindum ástæðum skuli það vera refsilaust.
    Ljóst er að starfsmenn þurfa að fara mjög varlega þegar þeir meta hvort þær aðstæður séu uppi að réttlætanlegt sé að víkja frá þagnarskyldu, enda meta dómstólar það eftir á hvort mat þeirra hafi verið rétt og því refsilaust. Ætla má að dómstólar geri miklar kröfur í því efni.
    Áskilnaður er gerður um að veigamiklir almannahagsmunir séu í húfi og er það dómstóla að meta hvort svo hafi verið. Sem dæmi um málefni sem eiga erindi til almennings eða varða ríka hagsmuni má nefna spillingu valdhafa, misbeitingu valds og hvers konar misnotkun á almannafé eða misbrest á því að staðinn sé vörður um almannahagsmuni.
    Hins vegar er ljóst að heimildarmaður sem rýfur þagnarskyldu tekur með því áhættu þar sem mat hans á gildi upplýsinganna getur verið rangt og hann því refsiábyrgur.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Siðareglur Blaðamannafélags Íslands.
(www.press.is/sidareglur.pdf.)


1. grein

    Blaðamaður leitast við að gera ekkert það, sem til vanvirðu má telja fyrir stétt sína eða stéttarfélag, blað eða fréttastofu. Honum ber að forðast hvaðeina sem rýrt gæti álit almennings á starfi blaðamanns eða skert hagsmuni stéttarinnar. Blaðamaður skal jafnan sýna drengskap í skiptum sínum við starfsfélaga.

2. grein

    Blaðamanni er ljós persónuleg ábyrgð á öllu sem hann skrifar. Hann hefur í huga að almennt er litið á hann sem blaðamann þó að hann komi fram utan síns eiginlega starfssviðs, í riti eða ræðu. Blaðamaður virðir nauðsynlegan trúnað við heimildarmenn sína.

3. grein

    Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.

4. grein

    Það telst mjög alvarlegt brot þiggi blaðamaður mútur eða hafi í hótunum vegna birtingar efnis. Blaðamenn skulu hafa ríkt í huga hvenær almennt öryggi borgaranna, sérstakir hagsmunir almennings eða almannaheill krefst nafnbirtingar. Í frásögnum af dóms- og refsimálum skulu blaðamenn virða þá meginreglu laga að hver maður er talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

5. grein

    Blaðamaður varast að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir eða frásagnir af fyrirtækjum eða hagsmunasamtökum þar sem hann á sjálfur aðild. Hann skal fyrst og síðast gæta hagsmuna lesenda og sóma blaðamannastéttarinnar í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur í nafni starfs síns. Blaðamaður hefur í skrifum sínum sannfæringu sína að leiðarljósi. Hann gætir þess að rugla ekki saman ritstjórnarlegu efni, sem hefur augljóst upplýsinga- og fræðslugildi, og auglýsingum í myndum og/eða máli. Siðareglur þessar setja ekki hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna sem skrifa undir fullu nafni afmarkaða þætti í fjölmiðlum, til dæmis gagnrýni, þar sem persónulegar skoðanir höfundar eru í fyrirrúmi.

6. grein

    Hver sá sem telur að blaðamaður hafi brotið framangreindar reglur og á hagsmuna að gæta, getur kært ætlað brot til Siðanefndar BÍ innan 2ja mánaða frá birtingu enda sé mál vegna birtingarinnar ekki rekið fyrir almennum dómstólum á sama tíma. Áður skal hann þó leita leiðréttingar mála sinna hjá viðkomandi fjölmiðli. Þó getur Siðanefnd úrskurðað um undanþágur frá leiðréttingarkröfum vegna annarra aðstæðna.
    Siðanefndin tekur kæruna fyrir á fundi innan viku og kveður upp rökstuddan úrskurð svo fljótt sem kostur er.
    Taki Siðanefnd kærumál til efnislegrar athugunar skal hún kanna heildarumfjöllun um málið í hinum kærða fjölmiðli. Kærða skal gefinn kostur á að gera grein fyrir sjónarmiði sínu.
    Siðanefnd greinir brot í flokka eftir eðli þeirra:
     a)      ámælisvert,
     b)      alvarlegt,
     c)      mjög alvarlegt.
    Úrskurði Siðanefndar verður ekki áfrýjað. Úrskurð Siðanefndar ásamt rökstuðningi skal birta í heild í Félagstíðindum BÍ svo fljótt sem verða má. Úrskurð Siðanefndar skal senda viðkomandi fjölmiðli við fyrsta hentugleika og með ósk um birtingu ef um brot samkvæmt skilgreiningu b) og c) er að ræða. Þremur dögum seinna skal senda úrskurðinn öðrum fjölmiðlum.
    Meginniðurstaða nefndarinnar skal birt orðrétt. Við framsetningu frétta af úrskurðum Siðanefndar sýna blaðamenn alla þá aðgát sem reglur þessar ætlast til, sbr. 1. og 2. grein að framan.
    Nú telur stjórn BÍ að gengnum úrskurði Siðanefndar að brot sé svo alvarlegt að frekari ráðstafana sé þörf og getur hún þá borið undir félagsfund tillögu um vítur á viðkomandi blaðamann enda sé þeirrar ætlunar getið í fundarboði.
    Nú bera ummæli ekki með sér hver sé höfundur þeirra eða viðkomandi blaðamaður er utan BÍ og gengur þá úrskurður svo sem ritstjóri og/eða ábyrgðarmaður eigi beina aðild að. Þótt enginn þessara aðila sé í BÍ getur Siðanefnd allt að einu lagt fram rökstutt álit um kæruefni.

    Samþykkt með síðustu breytingum á aðalfundi BÍ 1991.