Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 715. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1051  —  715. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla.

Flm.: Einar Már Sigurðarson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Katrín Júlíusdóttir,


Mörður Árnason, Össur Skarphéðinsson.


1. gr.

    Við 39. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Menntamálaráðherra er heimilt að gera samning við sveitarfélag eða sveitarfélög um að þau annist rekstur framhaldsskóla.


2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2006.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er ætlunin að gera sveitarfélögum sem þess óska kleift að annast rekstur framhaldsskóla. Þannig geta sveitarfélög aflað dýrmætrar reynslu hvað varðar rekstur framhaldsskóla. Þá reynslu má síðan nota við undirbúning færslu á rekstri framhaldsskóla frá ríkisvaldinu til sveitarfélaga. Margir telja að slíkt verkefni eigi fremur heima hjá sveitarfélögum en hjá ríkisvaldinu. Rökin eru einkum þau að um er að ræða nærþjónustu sem þarf að taka mið af umhverfi sínu.
    Það verður að telja mikilvægt að sami aðili fari með rekstur og beri ábyrgð á rekstri skólastiganna, frá leikskóla að lokum framhaldsskóla. Þörf er á meiri samfellu og sveigjanleika milli grunn- og framhaldsskólastigsins, til dæmis í ljósi þess að stór hluti þeirra sem stunda nám við framhaldsskóla er undir lögaldri. Þá hefur farið vaxandi að nemendur í grunnskólum hefji framhaldsskólanám áður en grunnskólanámi lýkur.
    Þar sem sveitarfélögin eru stærsti rekstraraðili skóla í landinu þurfa þau að búa yfir mikilli sérþekkingu á því sviði. Tilfærsla sú sem hér er gerð tillaga um ætti að auka bolmagn þeirra til að byggja upp slíka sérþekkingu. Mikilvægt er að öflugt þróunarstarf eigi sér stað, ekki síst á framhaldsskólastigi, þar sem líta ber á skólann sem alhliða þjónustumiðstöð í samfélaginu. Þar sem aðstæður eru mismunandi milli einstakra landsvæða og þarfir ólíkar að ýmsu leyti er nauðsynlegt að skólar nái að þróast í takt við þarfir samfélagsins. Skólar sem starfa í nánum tengslum við atvinnulífið á viðkomandi svæði treysta undirstöður atvinnulífsins og auka möguleika á uppbyggingu nýrra tækifæra.
    Flutningur á rekstri grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga má teljast vel heppnaður verkefnaflutningur, a.m.k. frá sjónarhóli þeirra sem njóta þeirrar þjónustu. Grunnskólinn hefur tekið stakkaskiptum eftir að sveitarfélögin tóku yfir rekstur hans. Fátt sýnir betur hvað grunnþjónustan á miklu betur heima hjá sveitarstjórnum heldur en hinu fjarlæga ríkisvaldi og mun slíkt hið sama gerast við flutning framhaldsskólans. Sveitarfélögin hafa gegnt mikilvægu hlutverki við uppbyggingu framhaldsskóla því þegar framhaldsskólum fjölgaði hvað mest voru sveitarfélögin frumkvæðisaðilar í þeirri uppbyggingu. Svipað virðist upp á teningnum nú þegar litið er til uppbyggingar framhaldsskóla á Snæfellsnesi og þess undirbúnings sem hafinn er í Borgarbyggð.

Reynslusveitarfélög.
    Vert er að minnast á verkefni um reynslusveitarfélög sem komið var á laggirnar með lögum um reynslusveitarfélög, nr. 82/1994. Markmið verkefnisins var að gera sveitarfélögum kleift að framkvæma tilraunir í þeim tilgangi að undirbúa breytingar á löggjöf um stjórnsýslu sveitarfélaga, framkvæmd verkefna, tekjustofna og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þá var að því stefnt að auka sjálfsstjórn sveitarfélaga, laga stjórnsýslu þeirra betur að staðbundnum aðstæðum, bæta þjónustu við íbúa og nýta betur fjármagn hins opinbera. Verkefnisstjórn reynslusveitarfélaga lagði fram skýrslu á Alþingi á 128. löggjafarþingi og eru eftirfarandi upplýsingar sóttar í þá skýrslu. Sveitarfélög gátu sótt um að taka að sér ákveðin verkefni. Sveitarfélögin sóttu um að taka við verkefnum á sviði félagslegra húsnæðismála, atvinnumála, öldrunarmála, málefna fatlaðra og heilsugæslu. Einnig sóttust sveitarfélögin eftir að gera tilraunir með verkefni og verkaskiptingu byggingarnefnda og -fulltrúa. Þá var áhugi á því að ráðast í stjórnsýslutilraunir.
    Verkefnastjórn gerir grein fyrir árangri af yfirfærslu sveitarfélaga í þremur liðum. Varðandi fyrsta liðinn, faglegan árangur, er talið að viðkomandi sveitarfélög hafi öðlast mikilvæga reynslu, einkum varðandi aðstæður skjólstæðinga og samþættingu heildarþjónustu. Þá má nefna fjárhagslegan árangur, en óljóst þótti hvort hann hefði náðst. Hins vegar benda vísbendingar í þá átt að þjónustustig, bæði við fatlaða, sjúklinga og aldraða, hafi hækkað. Að lokum má nefna stjórnsýslulegan árangur en verkefnastjórnin telur mikilvægan árangur í því fólginn að fara yfir stjórnsýslulegt skipulag sveitarfélags. Þá er tekið fram að auðveldara sé að hafa yfirsýn yfir verkefnið þegar svipuð velferðarþjónusta er á einni hendi.
    Með þeirri lagabreytingu sem hér er lögð til gefst ráðherra menntamála og þeim sveitarfélögum sem áhuga hafa tækifæri til að gera tilraun með rekstur framhaldsskóla. Með þessu móti safna þessir aðilar reynslu og leggja mikilvægan grunn að flutningi á rekstri framhaldsskóla frá ríki til sveitarfélaga.
    Samningar um rekstur, sem kunna að vera gerðir milli ráðherra og sveitarfélaga, verða að vera skýrir og lengd samningstíma og endurskoðunarákvæði skulu vera ljós. Þetta er tekið fram hér þar sem í framangreindri skýrslu verkefnisstjórnar kemur fram að Ríkisendurskoðun hafi gert stjórnsýsluendurskoðun á samningum ríkisins við reynslusveitarfélög. Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu að samningar þeir sem gerðir voru hafi um margt verið ónákvæmir og að betur hefði þurft að vanda til efnis samninganna til að unnt væri að afla upplýsinga um árangur af þeim á aðgengilegan hátt og leggja þannig mat á það hvort um æskilegt fyrirkomulag væri að ræða.
    Það er þó til bóta að nú hefur verið sett reglugerð um undirbúning, gerð og eftirlit með samningum sem ráðuneyti og ríkisstofnanir gera til lengri tíma en eins árs, reglugerð nr. 262/1999, en hún var ekki í gildi er samningar voru gerðir við reynslusveitarfélög.