Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 734. máls.

Þskj. 1070  —  734. mál.



Frumvarp til laga

um stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Fjármálaráðherra er heimilt að stofna hlutafélag um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er heiti ÁTVR hf.
    ÁTVR hf. yfirtekur allar eignir, réttindi, skuldir, skuldbindingar og rekstur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins samkvæmt því sem nánar greinir í lögum þessum.

2. gr.

    Hlutverk ÁTVR hf. er að annast innkaup og dreifingu á áfengi og tóbaki eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.

3. gr.

    ÁTVR hf. skal gæta þess að jafnræði gildi gagnvart öllum áfengis- og tóbaksbirgjum. Með það að leiðarljósi skal ÁTVR hf. setja sér reglur varðandi innkaup og sölu áfengis og tóbaks.
    Reglurnar skulu annars vegar miða að því að tryggja vöruúrval áfengis og tóbaks með hliðsjón af eftirspurn kaupenda og hins vegar að því að tryggja framleiðendum og birgjum áfengis jafna möguleika á að koma vörum í sölu hjá félaginu.

4. gr.

    ÁTVR hf. hefur einkaleyfi til smásölu áfengis, sbr. 10. gr. áfengislaga, nr. 75/1998. Um endursölu áfengis hjá vínveitingahúsum fer eftir ákvæðum sérlaga.
    ÁTVR hf. skal tryggja að smásala áfengis sé dreifð út um allt land. Smásöluverð á áfengi skal vera hið sama í öllum vínbúðum félagsins, óháð stærð og staðsetningu.

5. gr.

    ÁTVR hf. skal selja tóbak innan lands í heildsölu og hefur einkaleyfi til slíkrar sölu. Um smásölu tóbaks fer eftir ákvæðum 8. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.
    ÁTVR hf. leggur á og innheimtir tóbaksgjald af tóbaksvörum sem hafa verið fluttar hingað til lands eða framleiddar hér á landi, sbr. 9. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki.
    ÁTVR hf. skal tryggja að allt tóbak sem flutt er inn frá útlöndum eða framleitt hér á landi, hvort heldur er unnið eða óunnið, sé merkt. Um merkingar tóbaks fer eftir ákvæðum 6. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.
    ÁTVR hf. er heimilt að framleiða neftóbak.

6. gr.

    Ákvæði 2. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 20. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gildir ekki um lágmarksfjölda hluthafa hjá ÁTVR hf.
    Ákvæði hlutafélagalaga gilda um hið nýja félag að svo miklu leyti sem ekki er á annan veg kveðið í lögum þessum.

7. gr.

    Öll hlutabréf í ÁTVR hf. skulu vera eign ríkissjóðs. Fjármálaráðherra fer með eignarhlut ríkisins í ÁTVR hf.
    Sala ÁTVR hf. eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess eru óheimil.

8. gr.

    Allur kostnaður af stofnun ÁTVR hf. og yfirtöku þess á rekstri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins greiðist af ÁTVR hf.

9. gr.

    Hinn 1. janúar 2007 yfirtekur ÁTVR hf. allar eignir, réttindi, skuldir, skuldbindingar og rekstur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skal lögð niður frá og með þeim degi og fellur þá jafnframt niður umboð stjórnar fyrirtækisins.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Lög nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum, falla úr gildi 1. janúar 2007. Þar sem í öðrum lögum er vísað til Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins er átt við ÁTVR hf.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Á stofnfundi ÁTVR hf., sem haldinn skal fyrir 1. september 2006, skal félaginu kosin stjórn og skal hún starfa þar til ný stjórn hefur verið kosin á fyrsta aðalfundi eftir að félagið hefur tekið til starfa. Hlutverk stjórnar fram að yfirtöku er að undirbúa yfirtöku á rekstri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, en eftir það að stjórna félaginu í samræmi við ákvæði laga.

II.

    Fjármálaráðherra skipar nefnd þriggja óvilhallra manna og skal a.m.k. einn þeirra vera löggiltur endurskoðandi. Hlutverk nefndarinnar er að meta eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og skal nefndin leggja mat á hvert hlutafé ÁTVR hf. skuli vera. Við mat þetta skal nefndin hafa fullan aðgang að öllum gögnum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og skulu stjórnendur og starfsmenn fyrirtækisins veita nefndinni þá aðstoð er hún óskar. Nefndin skal leggja niðurstöður sínar fyrir fjármálaráðherra eigi síðar en tíu dögum fyrir stofnfund.

III.

    Hlutafé félagsins eins og það er ákveðið samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II telst að fullu innborgað með yfirtöku ÁTVR hf. á eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins skv. 1. gr.

IV.

    Þegar starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins verður lögð niður, sbr. 9. gr., fer um réttindi og skyldur starfsmanna eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á. Félagið skal bjóða störf öllum starfsmönnum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.
    Um biðlaunarétt, sem kann að hafa fylgt störfum hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, gilda ákvæði laga nr. 70/1996.
    Starfsmaður Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sem hefur áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna skv. 24. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og ræðst til starfa hjá hlutafélaginu með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti í hálft starf eða meira getur ekki hafið töku lífeyris fyrr en hann lætur af því starfi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins verði gerð að hlutafélagi í eigu ríkisins. Í frumvarpinu eru ekki lagðar til neinar grundvallarbreytingar á starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins samhliða hlutafélagavæðingu fyrirtækisins. Í því skyni eru helstu ákvæði laga nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum, sem lagt er til að verði felld brott, tekin efnislega upp í frumvarpi þessu. Áfram er því gert ráð fyrir að ÁTVR hf. hafi með höndum einkaleyfi á smásölu áfengis og heildsöludreifingu tóbaks. Enn fremur er áfram gert ráð fyrir að ÁTVR hf. tryggi merkingar tóbaks og álagningu tóbaksgjalds. ÁTVR hf. skal starfa innan þess ramma sem lagður er í lögum um áfengismál.
    Um hlutverk og skyldur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins er aðallega fjallað í lögum nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum. Auk þess er vikið að starfsemi fyrirtækisins í lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum, áfengislögum, nr. 75/1998, með síðari breytingum, og lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, með síðari breytingum.
     Ljóst er að starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins er verulega frábrugðin starfsemi annarra ríkisstofnana. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er fyrirtæki sem er hvort tveggja í senn innheimtuaðili skatta fyrir ríkissjóð og þjónustufyrirtæki sem selur áfengi í smásölu og dreifir tóbaki í heildsölu. Á undanförnum árum hefur umfang starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins verið að aukast, jafnframt því að afkoma fyrirtækisins hefur batnað. Á vegum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins voru á árinu 2005 starfræktar 46 vínbúðir á landinu, þar af 12 á höfuðborgarsvæðinu, og ársverk fyrirtækisins voru 283. Af þessu má sjá að starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins er verulega umfangsmikil.
    Starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á sér langa sögu. Upphaf hennar má rekja til ársins 1921 þegar Áfengisverslun ríkisins var stofnuð, sbr. lög nr. 62/1921. Aðflutningsbann á áfengi hafði þá verið frá 1. janúar 1912 og sölubann frá 1. janúar 1915. Tóbakseinkasala ríkisins tók til starfa árið 1932. Fyrirtækin voru sameinuð þann 1. júní árið 1961 undir nafni Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Samhliða verslun með áfengi rak Áfengisverslun ríkisins lyfjadeild, en árið 1986 var rekstur hennar aðskilinn frá rekstri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og hún gerð að sjálfstæðri stofnun sem fékk heitið Lyfjaverslun ríkisins. Áfengisverslun ríkisins hóf framleiðslu á áfengum drykkjum árið 1935, en hætti framleiðslu þeirra árið 1992 og voru þá framleiðslutækin seld. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hóf framleiðslu neftóbaks á stríðsárunum og gerir það enn. Samkvæmt þessu er ljóst að mikið vatn hefur runnið til sjávar í starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og kalla þessir breyttu tímar á nýtt rekstrarfyrirkomulag fyrirtækisins.
    Veigamikil rök eru fyrir því að færa rekstrarform Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins yfir í hlutafélagsformið. Það rekstrarform er mun hentugra fyrir rekstur fyrirtækisins, jafnvel þó að gert sé ráð fyrir að ríkissjóður verði eini eigandi hlutafélagsins. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að hlutafélagsformið byggist á traustum lagalegum grunni, sbr. lög nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum. Í þeim lögum eru m.a. fastmótaðar reglur um hluthafafundi, félagsstjórn og framkvæmdastjóra. Enn fremur eru skýrar reglur um endurskoðun og ársreikningsgerð hlutafélaga. Þá verður allur rekstur fyrirtækisins sveigjanlegri og gagnsæi rekstrarins eykst. Ætla má að rekstrarvitund stjórnenda aukist. Auk þess skiptir afar miklu fyrir fyrirtæki eins og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sem er í örum vexti að starfsskipulag þess sé auðskilið og sveigjanlegt. Loks leiðir þessi breyting til þess að fyrirtækið verður tekjuskattsskylt í samræmi við lög nr. 90/2003, en hingað til hefur fyrirtækið verið undanþegið tekjuskatti. Er hér um eðlilega breytingu að ræða enda engin rök sem mæla með því að fyrirtæki eins og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sé undanþegið tekjuskatti, eða öðrum sköttum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að fjármálaráðherra skuli heimilt að stofna hlutafélag um rekstur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sem heiti ÁTVR hf. Gert er ráð fyrir því að allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins verði lagðar til ÁTVR hf.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að hlutverk ÁTVR hf. verði skilgreint með skýrum hætti. Eins og fram kemur í ákvæðinu verður hlutverk ÁTVR hf. að annast innkaup og dreifingu á áfengi og tóbaki eins og nánar er vikið að í frumvarpi þessu.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um að ÁTVR hf. skuli gæta þess að jafnræði gildi gagnvart öllum áfengis- og tóbaksbirgjum og að félagið setji sér reglur varðandi innkaup og sölu áfengis og tóbaks með það að leiðarljósi. Ekki er um að ræða neina breytingu frá gildandi framkvæmd hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Í núgildandi lögum og reglugerð um starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins kemur fram að fyrirtækið skuli tryggja að jafnræði ríki milli áfengis- og tóbaksbirgja og setja sér reglur varðandi innkaup og sölu áfengis og tóbaks.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að ÁTVR hf. hafi einkaleyfi til smásölu áfengis, sbr. 10. gr. áfengislaga og að um endursölu áfengis hjá vínveitingahúsum fari eftir ákvæðum sérlaga. Áfram er því gert ráð fyrir því ÁTVR hf. hafi einkaleyfi til smásölu áfengis.
    Í 2. mgr. segir að ÁTVR hf. skuli tryggja að smásala áfengis sé dreifð út um allt land. Þá skal smásöluverð á áfengi vera hið sama í öllum vínbúðum félagsins, óháð stærð og staðsetningu þeirra. Ekki er um að ræða neina efnislega breytingu frá gildandi reglum um starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins þar sem sama krafa er gerð. Afar mikilvægt er að fyrirtæki sem hefur einkaleyfi á smásölu áfengis tryggi að verðlagning áfengis sé sú sama í vínbúðum félagsins um allt land og að sem flestir landsmenn hafi aðgang að vínbúðum eftir því aðstæður bjóða upp á.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um einkaleyfi ÁTVR hf. til heildsölu tóbaks hér á landi og að félagið skuli tryggja að allt tóbak sé merkt. Enn fremur er félaginu veitt heimild til framleiðslu tóbaks. Ekki er um að ræða neina efnislega breytingu frá núgildandi reglum um starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.
    Í 1. mgr. er lagt til að ÁTVR hf. skuli selja tóbak innan lands í heildsölu og hafi einkaleyfi til slíkrar sölu. Þá kemur fram að smásala tóbaks fari eftir ákvæðum 8. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.
    Í 2. mgr. segir að ÁTVR hf. leggi á og innheimti tóbaksgjald af tóbaksvörum sem hafi verið fluttar hingað til lands eða framleiddar hér á landi, sbr. 9. gr. laga nr. 96/1995.
    Í 3. mgr. er lagt til að ÁTVR hf. tryggi að allt tóbak sem flutt sé til landsins frá útlöndum eða framleitt hér á landi, hvort heldur er unnið eða óunnið, sé merkt. Tekið er fram að um merkingar tóbaks fari eftir ákvæðum 6. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.
    Í 4. mgr. er lagt til að ÁTVR hf. hafi heimild til framleiðslu neftóbaks eins og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur haft.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um nauðsynlegar undanþágur frá ákvæðum hlutafélagalaga, með tilliti til þess að ríkissjóður er eini stofnandi og hluthafi félagsins. Að öðru leyti, eins og fram kemur í ákvæðinu, skulu ákvæði hlutafélagalaga gilda um hlutafélagið.

Um 7. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um að öll hlutabréf í ÁTVR verði í eigu íslenska ríkisins og lagt til að fjármálaráðherra fari með eignarhlut ríkisins í félaginu. Þá er lagt til að sala félagsins að hluta til eða í heild sé bönnuð, sem og sameining eða slit félagsins. ÁTVR hf. verður skattskylt félag að öllu leyti með sama hætti og önnur almenn hlutafélög. Hér er um nokkra breytingu að ræða þar sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er undanþegin frá greiðslu tekjuskatts. Rétt er að taka fram að þrátt fyrir þessa breytingu er ekki gert ráð fyrir því að þær tekjur sem ríkissjóður hefur á síðustu árum fengið frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins í formi reglubundinna arðgreiðslna breytist að neinu ráði. Með hlutafélagavæðingu fyrirtækisins og tekjuskattsskyldu mun sú breyting verða að þær fjárhæðir sem berast frá fyrirtækinu til ríkissjóðs munu bæði vera í formi skatttekna og arðgreiðslna.

Um 8. gr.

    Í greininni er kveðið á um að ÁTVR hf. beri allan kostnað af stofnun félagsins og kostnað við yfirtöku þess á rekstri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.

Um 9. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að ÁTVR hf. yfirtaki hinn 1. janúar 2007 allar eignir, réttindi, skuldir, skuldbindingar og rekstur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Þá skal Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins lögð niður frá og með sama degi jafnframt því sem umboð stjórnar fyrirtækisins fellur niður.

Um 10. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Í ákvæðinu er kveðið á um að stofnfundur ÁTVR hf. skuli haldinn eigi síðar en 1. september 2006. Á stofnfundi skal leggja fram til afgreiðslu drög að stofnsamningi og samþykktum eins og skylt er við stofnun hlutafélaga. Þá skal félaginu jafnframt kosin stjórn samkvæmt samþykktum þess til fyrsta aðalfundar. Í 9. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að ÁTVR hf. yfirtaki hinn 1. janúar 2007 allar eignir, réttindi, skuldir, skuldbindingar og rekstur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Nauðsynlegt er að ráðrúm gefist til að ganga frá ráðningu forstjóra og starfsmanna ÁTVR hf. áður en félagið tekur við rekstri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Í ákvæðinu er lagt til að stjórninni verði falið að undirbúa yfirtöku á rekstri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins með ráðningu forstjóra og starfsfólks og öðrum aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að hlutafélagið geti sinnt hlutverki sínu.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Í ákvæðinu er fjallað um skipun nefndar sem skal meta eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Við yfirtöku ÁTVR hf. á eignum og rekstri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins er nauðsynlegt að fram fari mat á því hvert hlutafé félagsins skuli vera. Í greininni er gert ráð fyrir því að fjármálaráðherra skipi þriggja manna nefnd sem hafi þetta hlutverk. Í nefndinni sitji a.m.k. einn löggiltur endurskoðandi og skal hún hafa fullan aðgang að öllum gögnum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Nefndin skal leggja fram niðurstöður sínar fyrir fjármálaráðherra eigi síðar en tíu dögum fyrir stofnfund félagsins.

Um ákvæði til bráðabirgða III.

    Í ákvæðinu er kveðið á um að innborgað hlutafé skuli nema þeirri upphæð sem matsnefnd leggur til samkvæmt ákvæði II til bráðabirgða. Með yfirtöku ÁTVR hf. á eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins telst hlutaféð að fullu greitt.

Um ákvæði til bráðabirgða IV.

    Í ákvæðinu er fjallað um réttindi starfsmanna við breytingu á Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins í hlutafélag.
    Í 1. mgr. kemur fram að þegar starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins verður lögð niður, sbr. 9. gr., fer um réttindi og skyldur starfsmanna eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Gert er ráð fyrir því að öllum núverandi starfsmönnum verði boðið starf hjá hinu nýja fyrirtæki.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að um biðlaunarétt starfsmanna Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins fari eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Í 3. mgr. er fjallað um þá starfsmenn sem hafa áunnið sér lífeyrisrétt í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og ráðast til starfa hjá hlutafélaginu með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti í hálft ár eða meira. Lagt er til að sama regla gildi um þessa starfsmenn og almennt gildir um sjóðfélaga í B-deild lífeyrissjóðsins. Réttur til töku lífeyris úr B-deild er bundinn við starfslok viðkomandi, þ.e. starfslok í því starfi sem veitt hefur aðild að deildinni. Sjá nánar 1. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Lagt er til að sambærileg regla gildi um sjóðfélaga B-deildar sem þiggja störf hjá hlutafélaginu.

Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags
um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

    Í frumvarpinu er lagt til að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins verði gerð að opinberu hlutafélagi í eigu ríkisins. Hlutafélagið taki yfir allar eignir og skuldbindingar núverandi verslunar þann 1. janúar 2007. Heildareignir fyrirtækisins voru um 3,2 milljarðar kr. samkvæmt ársreikningi 2005 og óráðstafað eigið fé var um 2,2 milljarðar en heildarvelta það ár var um 16,6 milljarðar. ÁTVR hefur lengi verið rekið sem fyrirtæki í B-hluta fjárlaga sem hefur aflað allra sinna tekna með sölu á vörum og þjónustu. Fyrirtækið hefur ekki fengið framlög úr ríkissjóði heldur greitt arð í hann miðað við eigið fé og afkomu á hverjum tíma. Sérstök stjórn hefur verið yfir ÁTVR og hefur reksturinn í aðalatriðum verið áþekkur því sem tíðkast um verslunarfyrirtæki. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neinum verulegum breytingum á starfsemi fyrirtækisins heldur snýr það fyrst og fremst að því að færa hana í það rekstrarform sem þykir vera sveigjanlegast og gefast best í verslunarrekstri. Samkvæmt frumvarpinu verður ÁTVR áfram með einkaleyfi á smásölu áfengis og heildsöludreifingu tóbaks. Einnig er gert ráð fyrir að ÁTVR tryggi áfram álagningu tóbaksgjalds og að merkingar séu settar á tóbak. Við breytingu í hlutafélag mun fyrirtækið hins vegar byrja að greiða tekjuskatt sem það hefur verið undanþegið til þessa.
    Í stórum dráttum snúa fjárhagsleg áhrif áfengis- og tóbakssölunnar einkum að tekjuöflun fyrir A-hluta ríkissjóðs. Innheimt er áfengisgjald í ríkissjóð bæði af innfluttu áfengi og því sem framleitt er innan lands og er það innifalið í innkaupsverði ÁTVR frá birgjum. Þá leggur ÁTVR á tóbaksgjald á heildsölustigi sem leggst við innkaupsverðið hjá versluninni. Tekjum af vörusölu umfram innkaup á vörum og rekstrarkostnað hefur að mestu verið ráðstafað sem arðgreiðslum til ríkissjóðs. Árið 2003 var arðgreiðslan 133 m.kr. en 649 m.kr. árið 2004 og 670 m.kr. árið 2005. Góður hagnaður hefur verið af versluninni undanfarin ár sem á m.a. rætur að rekja til hagstæðrar gengisþróunar. Verði fyrirtækinu breytt í hlutafélag má gera ráð fyrir að ríkissjóður hafi svipaðar tekjur af rekstrinum eftir sem áður. Tekjurnar verði þá að mestu í mynd tekjuskatts af hagnaðinum en árleg arðgreiðsla verði fyrir vikið ákvörðuð lægri með hliðsjón af afkomu eftir skatta. Ekki er því ástæða til að ætla að samþykkt frumvarpsins hafi áhrif á þessa tekjuöflun ríkissjóðs.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að öllum núverandi starfsmönnum verði boðið starf hjá hlutafélaginu og að þeir haldi áunnum réttindum sínum, þar með töldum lífeyrisréttindum, í samræmi við það sem kveðið er á um í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Skuldbindingar ÁTVR vegna eftirlauna núverandi og fyrrverandi starfsmanna voru gerðar upp gagnvart Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins í einu lagi með útgáfu skuldabréfs á árinu 1999. Árlegar skuldbindingar hafa síðan verið gerðar upp við sjóðinn jafnóðum og þær myndast og verður því engin áfallin lífeyrisskuldbinding fyrir hendi hjá fyrirtækinu eða ríkissjóði við stofnun hlutafélagsins.