Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 500. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1171  —  500. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um sjúkraflutninga innan lands með flugvélum.

    Ráðherra hefur borist ofangreind fyrirspurn en áður en henni er svarað skal þess getið að um sjúkraflug innan lands giltu samningar þar sem landinu var skipt upp í þrjú ákveðin svæði. Frá 1. janúar 2001 til ársloka 2005 var í gildi samningur við Flugfélag Íslands um sjúkraflug á norðursvæði og austur á Höfn þar sem miðstöð sjúkraflugs var frá Akureyri. Á sama tíma var í gildi samningur við Íslandsflug (síðar Landsflug) um sjúkraflug á Vestfjarðasvæði og Vesturlandi og samningur um Vestmannaeyjasvæði var við Flugfélag Vestmannaeyja. Í samningunum voru ákvæði um ákveðinn viðbragðstíma eftir tegund útkalls.
    Frá 1. janúar 2006 er miðstöð sjúkraflugs áfram á Akureyri og var gerður samningur við Mýflug um sjúkraflug á norðursvæði, en það nær nú um allt Norðurland, Austfirði og Vestfirði. Gert er ráð fyrir sérútbúinni sjúkraflugvél í maí 2006. Auk þess er læknavakt á vegum FSA á Akureyri sem leggur til lækna í sjúkraflugið. Samningur var gerður við Landsflug um sjúkraflug til Vestmannaeyja.
    Þegar veður er slæmt eða aðstæður erfiðar er leitað til þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar, en hún þjónar auk þess Suður- og Vesturlandi.
    Þess skal getið að nokkuð er um að sjúklingar séu sendir í körfu í áætlunarflugi, sérstaklega á milli sjúkrahúsa, en upplýsingar um þau flug koma ekki fram í eftirfarandi svörum.
    Í svarinu er miðað við árin 2002, 2003 og 2004.

     1.      Hve oft á ári voru flugvélar notaðar til sjúkraflutninga innan lands árin 2000–2004 og með hversu marga sjúklinga var flogið?
    Fjöldi sjúkrafluga með flugvélum innan lands árin 2001–2004 er eftirfarandi. Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda sjúklinga.

Ár Fjöldi sjúkrafluga
2001 148
2002 278
2003 365
2004 381

     2.      Hve oft var flogið til Reykjavíkur og lent á Reykjavíkurflugvelli á tímabilinu og með hvað marga sjúklinga?
    Fjöldi sjúkrafluga þar sem flogið var til Reykjavíkur og lent þar er eftirfarandi. Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda sjúklinga.

Ár Fjöldi sjúkrafluga
2002 169
2003 251
2004 267

     3.      Hvaðan var flogið?
    Flogið var frá Egilsstöðum, Hornafirði, Djúpavogi, Norðfirði, Breiðdalsvík, Vopnafirði, Akureyri, Húsavík, Þórshöfn, Grímsey, Siglufirði, Sauðárkróki, Bíldudal, Gjögri, Ísafirði, Hólmavík, Patreksfirði, Búðardal, Rifi og Vestmannaeyjum.

     4.      Hver var, þegar lent var á Reykjavíkurflugvelli:
              a.      viðbragðstíminn, frá því að kallað var eftir flugvél og þar til sjúklingur var kominn um borð,
              b.      flugtíminn, frá því að sjúklingur kom um borð í vél og þar til hún lenti?
        Óskað er eftir upplýsingum um stysta tíma, lengsta tíma og meðaltíma.

    Viðbragðstíma á sjúkraflugi til Reykjavíkur frá því að kallað var eftir vél og þar til flugvél fer í loftið með sjúkling samkvæmt stigi 1 (akút útköll) má sjá í töflunni fyrir neðan. Tekið skal fram að sjúkraflugvélin þarf oft að koma um lengri veg til að sækja sjúkling. Eins geta orðið tafir á sjúkraflugvelli, t.d. meðan beðið er eftir sjúklingi.

Ár Stysti tími Lengsti tími Meðaltími
2002 0:18 4:03 1:23*
2003 0:19 3:20 1:23
2004 0:24 4:14 1:25

    Flugtími sjúkraflugs frá því að flugvél fer í loftið með sjúkling og þar til lent er í Reykjavík samkvæmt stigi 1 (akút útkall) er:

Ár Stysti tími Lengsti tími Meðaltími
2002 0:17 1:58 0:49*
2003 0:21 2:02 0:43
2004 0:22 2:00 0:45

    * Athugið að upplýsingar um útkallstegund lágu ekki alltaf fyrir á árinu 2002 og því eru ofangreindar tölur fyrir árið 2002 metnar út frá fyrirliggjandi gögnum.
     5.      Hvert var hlutfall þeirra sjúklinga sem flogið var með til Reykjavíkur og höfðu legið á sjúkrastofnun utan borgarinnar, þ.e. voru fluttir milli sjúkrastofnana?
    Fjöldi sjúkrafluga (ekki er vitað um fjölda sjúklinga) með sjúklinga frá sjúkrastofnunum úti á landi og til sjúkrastofnana í Reykjavík var árið 2002 39 flug, árið 2003 90 flug og árið 2004 77 flug.

Ár     Hlutfall frá sjúkrastofnun
2002 23%
2003 36%
2004 29%

     6.      Eru til upplýsingar hversu „akút“ sjúkraflugið til Reykjavíkur var í hverju tilviki?
    Fjöldi sjúkrafluga til Reykjavíkur af viðbragðsstigi 1 voru árið 2002 107 flug, árið 2003 120 flug og árið 2004 136 flug.

Ár Hlutfall bráðasjúkrafluga
2002 63%*
2003 48%
2004 51%

    *Athugið að upplýsingar um útkallstegund lágu ekki alltaf fyrir á árinu 2002 og því eru ofangreindar tölur fyrir árið 2002 metnar út frá fyrirliggjandi gögnum.

     7.      Eru til rannsóknir á afdrifum sjúklinga sem fluttir voru með flugvél til Reykjavíkur? Svar óskast sundurliðað sem hér segir:
              a.      dánartíðni á sjúkrahúsi eftir flutninginn,
              b.      dvöl (legudagar) á sjúkrahúsi í Reykjavík,
              c.      útskrift: heim, á stofnun, annað sjúkrahús,
              d.      hvort flutningstími til Reykjavíkur hafi haft afdrifarík áhrif á batahorfur sjúklings.

    Ekki liggja fyrir upplýsingar um þessi atriði.

     8.      Hvort eru áhafnir sjúkraflugvéla á staðarvöktum eða bakvöktum?
    Með vísan til ofangreindra samninga skal flugvél ávallt vera tilbúin samkvæmt þeim kröfum sem koma fram í svari við 9. lið fyrirspurnarinnar og er samningsaðilum í sjálfsvald sett hvernig þeir leysa það.

     9.      Hver er skilgreindur viðbragðstími þessara starfsmanna í sjúkraflugi, þ.e. sá tími sem líður frá útkalli til flugtaks?
    Í eldri samningum um sjúkraflug var viðbragðstími skilgreindur sem tími frá því að staðfest beiðni um sjúkraflug berst uns flugvél er lent á flugvelli þar sem sækja á sjúkling með allan nauðsynlegan búnað og mannskap. Viðbragðstími er skilgreindur í þremur stigum eftir tegund útkalls, t.d. var viðbragðstími eftir stigi 1 90 mínútur. Í Vestmannaeyjum var viðbragðstíma hins vegar breytt í 45 mínútur frá 1. febrúar 2004, enda miðað við að flugvélin sé tilbúin á flugvelli þar sem flytja á sjúkling með allan nauðsynlegan búnað og mannskap.
    Þess skal getið að í þeim samningum sem nú gilda er viðbragðstími samkvæmt stigi 1 45 mínútur (35 mínútur með sérútbúinni sjúkraflugvél) og er skilgreindur sem tími frá því að staðfest beiðni um sjúkraflug berst og þar til flugvél er tilbúin til flugtaks með allan nauðsynlegan búnað á þeim flugvelli sem sjúkraflugið er þjónustað frá. Hámarksviðbragðstími í hverju sjúkraflugi er skilgreindur eftir tegund útkalls.