Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 520. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1242  —  520. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996, og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92 1. júní 1989.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Stefán Eiríksson og Rögnu Árnadóttur frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, Ólaf Hauksson frá Sýslumannafélagi Íslands, Steinar Adolfsson og Jónmund Kjartansson frá ríkislögreglustjóra, Ingimund Einarsson og Böðvar Bragason frá lögreglustjóranum í Reykjavík, Svein Ingiberg Magnússon og Pál Winkel frá Landssambandi lögreglumanna, Kolbrúnu Sævarsdóttur og Ásgeir Eiríksson frá Félagi löglærðra fulltrúa ákæruvalds, Eyþóru Geirsdóttur og Guðfinnu H. Þórsdóttur frá Stéttarfélagi lögfræðinga.
    Umsagnir bárust frá Hagstofu Íslands, Akranesbæ, Sýslumannafélagi Íslands, sýslumanninum í Reykjavík, Landssambandi lögreglumanna, ríkislögreglustjóra, Útlendingastofnun, Ísafjarðarbæ, Alþjóðahúsinu, sýslumanninum á Seyðisfirði, sýslumanninum í Keflavík, sýslumanninum á Höfn, réttarfarsnefnd, Félagi löglærðra fulltrúa ákæruvalds, dómstólaráði, sýslumanninum á Ísafirði, Fangelsismálastofnun ríkisins, Jafnréttisstofu, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, lögreglustjóranum í Reykjavík, Persónuvernd, Sveitarfélaginu Hornafirði, Stéttarfélagi lögfræðinga, ríkissaksóknara, Húsavíkurbæ, Lögregluskóla ríkisins, Hafnarfjarðarbæ, Kópavogsbæ, Háskóla Íslands, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Reykjavíkurborg, Mosfellsbæ, Lögmannafélagi Íslands og Mýrdalshreppi.
    Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á umdæmaskipan lögreglu hér á landi og á verkaskiptingu milli einstakra sýslumannsembætta vegna endurskipulagningar löggæslu og varða þær bæði innra og ytra skipulag. Lagt er til að við embætti ríkislögreglustjóra starfi greiningardeild sem rannsaki landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og leggi mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Lögregluumdæmum verði fækkað úr 26 í 15 og þau stækkuð auk þess sem sérstakar rannsóknardeildir verði starfræktar við sjö embætti. Nýtt embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu taki við löggæsluverkefnum lögreglustjórans í Reykjavík og sýslumannanna í Hafnarfirði og Kópavogi.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að markmiðið með breytingunum væri að bæta og efla löggæslu í landinu og auka öryggi borgaranna. Þannig verða lögregluumdæmin færri og stærri en lögreglustöðvum verður ekki fækkað. Telur nefndin að stækkun embætta feli í sér mikla möguleika á sérhæfingu þar sem gert er ráð fyrir að löggæsla og meðferð ákæruvalds færist frá átta minnstu embættunum til þeirra stærri. Með stofnun nýs embættis á höfuðborgarsvæðinu verður unnt að stuðla að betri nýtingu mannafla, sérhæfingu og nýtingu sérþekkingar. Telur nefndin að með breytingunum muni rannsóknir sakamála verða markvissari. Þá kom fram að það er eitt markmiða frumvarpsins að auka sýnilega löggæslu. Með þeim breytingum sem felast í frumvarpinu verður unnt að halda úti sólarhringsvöktum sem bæta mun löggæslu í landinu og efla öryggi borgaranna.
    Nefndin ræddi um hlutverk og heimildir greiningardeildar og lögreglurannsóknadeildar við embætti ríkislögreglustjóra. Ljóst er af upplýsingum þeim sem nefndinni voru veittar að frumvarpinu er ætlað að skjóta stoðum undir þá starfsemi lögreglu sem felst í því að greina hættu á alvarlegri glæpastarfsemi og er nú verkefni efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Slík greining þjónar tvennum tilgangi: annars vegar auðveldar hún lögreglu að upplýsa alvarleg afbrot, og hins vegar getur hún komið í veg fyrir að slík afbrot verði fullframin. Er þessi þáttur í störfum lögreglu ekki síst mikilvægur í ljósi þeirrar ógnar sem samfélaginu stafar af skipulagðri glæpastarfsemi svo sem fíkniefnasmygli, mansali og hryðjuverkum. Felst sérstaða slíkra brota m.a. í því að þau sæta sjaldnast almennri kæru. Kom fram að slík forvarna- og greiningarvinna væri forsenda þess að hérlend yfirvöld gætu unnið með yfirvöldum í öðrum ríkjum að baráttu gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi. Telur nefndin brýnt að skipulag lögreglu taki mið af þessum veruleika.
    Í frumvarpinu er ekki aukið við rannsóknarheimildir lögreglu. Um heimildir til lögreglurannsóknar og greiningarstarfs fer eftir lögum um meðferð opinberra mála. Nokkur umræða fór fram um það hvort þörf væri á því að koma á lögbundnu eftirliti með rannsóknar- og greiningarstarfi lögreglunnar. Telur nefndin mikilvægt að umræða um frekari rannsóknarheimildir lögreglu fari ekki fram án þess að þörf fyrir slíkt eftirlit verði metin og tekið til skoðunar hvernig slíku eftirliti mætti koma við. Margar leiðir geta komið til greina í því sambandi, þeirra á meðal aðkoma sérstakrar þingnefndar.
    Þá er enn fremur lagt til í frumvarpinu að ráðherra verði heimilt að ákveða að við einstök embætti lögreglustjóra starfi, undir eftirliti ríkislögreglustjóra, greiningardeildir til að leggja mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Telur nefndin nauðsynlegt að unnt verði að stofna slíkar deildir við einstök embætti sem eru í nálægð við alþjóðlega umferð um landið.
    Nefndin ræddi einnig á fundum sínum þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu á stöðu stjórnenda í lögreglunni og almennum hæfisskilyrðum til skipunar í embætti. Í frumvarpinu er lagt til að ríkislögreglustjóri, aðstoðarríkislögreglustjórar og lögreglustjórar skuli fullnægja sömu almennu hæfisskilyrðum og sýslumenn til skipunar í embætti. Um aðstoðarlögreglustjóra gilda sérstakar menntunar- og starfsreynslukröfur, en að öðru leyti sömu hæfisskilyrði og til skipunar í embætti lögreglustjóra.
    Samkvæmt lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði skal staðgengill sýslumanns fullnægja hæfisskilyrðum til skipunar í sýslumannsembætti. Með vísan til þessa segir í greinargerð með frumvarpinu að með sama hætti skuli sá aðstoðarlögreglustjóri sem gegnir hlutverki staðgengils lögreglustjóra fullnægja hæfisskilyrðum til skipunar í embætti lögreglustjóra. Telur nefndin rétt að þessi áskilnaður komi skýrt fram í texta frumvarpsins og leggur því til breytingu á frumvarpinu þess efnis.
    Því sjónarmiði var hreyft fyrir nefndinni að breyting á menntunarskilyrðum aðstoðarlögreglustjóra væri varhugaverð. Í því samhengi var einkum rætt um almennar starfsskyldur aðstoðarlögreglustjóra og hve mjög geti reynt á lögfræðilega menntun við úrlausn verkefna í því embætti, en samkvæmt núgildandi lögum er lögfræðimenntun skilyrði skipunar í embætti varalögreglustjóra. Þrátt fyrir að sjónarmið um gildi lögfræðimenntunar fyrir störf aðstoðarlögreglustjóra hafi átt hljómgrunn innan nefndarinnar er það eindregin afstaða nefndarinnar að mikilvægt sé að vel menntaðir og reyndir lögreglumenn geti sóst eftir æðstu stjórnunarstöðum innan lögreglunnar. Kom fram að þessi leið hefði verið farin annars staðar á Norðurlöndum. Enn fremur fékk nefndin ekki séð að efnisrök lægju að baki þeim greinarmun sem gerður er á embættum aðstoðarlögreglustjóra og aðstoðarríkislögreglustjóra í þessu tilliti. Þess ber þó að geta að samkvæmt gildandi lögum er sá munur á embættum varalögreglustjóra og vararíkislögreglustjóra að 30 ára aldursskilyrði er fyrir skipan í embætti vararíkislögreglustjóra. Af frumvarpinu leiðir hins vegar að umrætt aldursskilyrði fellur brott. Telur nefndin eðlilegt að gerðar verði sömu hæfiskröfur til skipunar í embætti aðstoðarríkislögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra og leggur því til breytingu á frumvarpinu þess efnis. Sá aðstoðarríkislögreglustjóri sem gegnir starfi staðgengils ríkislögreglustjóra mun í samræmi við framanritað þurfa að fullnægja hæfisskilyrðum til skipunar í embætti ríkislögreglustjóra.
    Nefndin leggur einnig til breytingar í kjölfar sameiningar sveitarfélaganna Ólafsfjarðarbæjar og Siglufjarðarkaupstaðar í eitt sveitarfélag sem félagsmálaráðuneytið staðfesti 3. mars 2006 og mun taka gildi 11. júní 2006. Telur nefndin af ýmsum ástæðum óheppilegt að innan sama sveitarfélags séu umdæmi tveggja sýslumanna. Má þar helst nefna vandkvæði við innheimtu opinberra gjalda, framkvæmd löggæslu á hendi tveggja lögreglustjóra í einu og sama sveitarfélagi, auk þess sem afmörkun stjórnsýsluumdæma sýslumanna ræðst af mörkum sveitarfélaga, sbr. reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna, nr. 57/1992. Því leggur nefndin til að embætti sýslumannsins í Ólafsfirði verði sameinað stjórnsýsluumdæmi sýslumannsins á Siglufirði. Telur nefndin eðlilegt að embættin verði sameinuð samhliða gildistökunni, þótt sameining sveitarfélaganna taki gildi 11. júní 2006. Með því skapast nauðsynlegt svigrúm til að undirbúa breytingarnar.
    Nefndin leggur auk þess til að frumvarpið verði lagað að breytingum á heitum sveitarfélaganna Bessastaðahrepps og Gerðahrepps, sem heita nú Sveitarfélagið Álftanes og Sveitarfélagið Garður.     Loks leggur nefndin til breytingar á gildistökuákvæði frumvarpsins þannig að auk ákvæðis til bráðabirgða taki 6. gr. frumvarpsins, sem fjallar um inntöku nýnema í Lögregluskóla ríkisins, þegar gildi. Inntaka nýnema fyrir næsta ár hefst í haust og telur nefndin eðlilegt að ákvæðið öðlist þegar gildi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Atli Gíslason sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er með fyrirvara við álitið.

Alþingi, 27. apríl 2006.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Ágúst Ólafur Ágústsson,


með fyrirvara.



Birgir Ármannsson.


Björgvin G. Sigurðsson,


með fyrirvara.


Kjartan Ólafsson.



Sigurjón Þórðarson,


með fyrirvara.


Sigurður Kári Kristjánsson.


Guðrún Ögmundsdóttir,


með fyrirvara.