Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 795. máls.

Þskj. 1244  —  795. mál.



Frumvarp til laga

um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar er sérstök stofnun sem annast stjórnun, rekstur og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar í samræmi við ákvæði loftferðalaga og annarra laga eftir því sem við á. Aðsetur stofnunarinnar er þar sem utanríkisráðherra ákveður.
    Flugmálastjórn Íslands annast eftirlit með framkvæmd flugverndar og flugöryggis á Keflavíkurflugvelli.
    Sérstakur flugvallarstjóri stjórnar starfsemi og rekstri Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og ræður starfsmenn til stofnunarinnar.
    Utanríkisráðherra setur reglugerð þar sem kveðið er nánar á um skipulag og starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar.

2. gr.

    Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar ber ábyrgð á að starfrækt sé slökkvilið á Keflavíkurflugvelli og annast framkvæmd eldvarnaeftirlits. Um starfsemi slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli gilda ákvæði laga nr. 75/2000, um brunavarnir, eftir því sem við getur átt.
    Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar er heimilt að semja við sveitarfélag eða byggðasamlag um að hafa með höndum verkefni og stjórn slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli. Um slíkt skal gera skriflegan samning sem skal tilkynna til Brunamálastofnunar.
    Utanríkisráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um starfsemi slökkviliðs Keflavíkurflugvallar.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2006 fyrir utan ákvæði til bráðabirgða sem öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara breytast eftirfarandi ákvæði laga um loftferðir, nr. 60 10. júní 1998:
     a.      Við 1. mgr. 71. gr. a, sbr. 2. gr. laga nr. 74/2000 og 1. gr. laga nr. 88/2004, bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó skulu tekjur af lendingargjöldum á Keflavíkurflugvelli renna til Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar.
     b.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 71. gr. b, sbr. 2. gr. laga nr. 74/2000 og 2. gr. laga nr. 88/2004, kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Öryggisgjald vegna vopna- og öryggisleitar á Keflavíkurflugvelli skal þó greiðast til Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Eftir því sem við verður komið skal bjóða því starfsfólki störf hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sem unnið hefur á árinu 2006 hjá eftirtöldum deildum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli: Slökkviliði, snjóruðnings- og brautadeild, rafeindadeild, voltadeild og verkfræðideild.
    Flugvallarstjórinn á Keflavíkurvelli undirbýr og annast ráðningar í framangreind störf hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar í samráði við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
    Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í utanríkisráðuneytinu. Aðdragandi þess er sá að bandarísk stjórnvöld tilkynntu ríkisstjórn Íslands 15. mars 2006 að dregið yrði stórlega úr starfsemi Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli síðar á árinu. Jafnframt að ákveðið hefði verið að orrustuþotur varnarliðsins og björgunarþyrlur þess yrðu fluttar brott í síðasta lagi fyrir lok september 2006. Bandaríkjamenn hafa sagt upp öllum íslenskum starfsmönnum sínum á Keflavíkurflugvelli og lýkur ráðningarsamningum þeirra starfsmanna sem lengstan uppsagnarfrest hafa 30. september 2006.
    Vegna framangreindra fyrirætlana og aðgerða Bandaríkjamanna þurfa íslensk stjórnvöld meðal annars að gera ráðstafanir til að taka yfir þá starfsemi og þann rekstur Keflavíkurflugvallar sem Bandaríkjamenn hafa annast hingað til.
    Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sem starfar á grundvelli reglugerðar nr. 297/1964 sem sett er með stoð í lögum nr. 110/1951, um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, hefur um áratugaskeið annast umsjón og rekstur Keflavíkurflugvallar. Með frumvarpinu eru sett sérstök lög um starfsemi stofnunarinnar og jafnframt er gert ráð fyrir því að stofnunin yfirtaki þau flugtengdu verkefni sem Bandaríkjamenn hafa hingað til annast á Keflavíkurflugvelli á grundvelli ákvæða varnarsamningsins.

II. Mikilvægi Keflavíkurflugvallar sem samgöngumannvirkis.
    Keflavíkurflugvöllur er afkastamesta samgöngumannvirki landsins og mikilvægasti tengipunktur Íslands við önnur lönd. Alþjóðlegur flugvöllur eins og Keflavíkurflugvöllur er hátæknivinnustaður. Þar starfar fólk með yfirgripsmikla þekkingu, menntun og réttindi til að tryggja starfsemi flugvallarins og virkni tæknibúnaðar hans. Fjöldi starfsmanna verður að uppfylla skilyrði og kröfur flugöryggissviðs Flugmálastjórnar Íslands um menntun og færni og er sú menntun og færni vottuð af ýmsum alþjóðlegum stofnunum eða fyrirtækjum.
    Uppsagnir starfsmanna varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, þar með margra sem starfa að málefnum flugvallarins, geta leitt til þess að vel menntað og þjálfað starfsfólk hverfi af starfssvæðinu. Því er nauðsynlegt að sem fyrst sé hægt að bregðast við svo rekstrarhæfni flugvallarins raskist ekki með því að lykilstarfsfólk hverfi til annarra starfa.
    Í ákvæðum til bráðabirgða í frumvarpi þessu er að finna heimild til að ráða, án auglýsingar, þá starfsmenn varnarliðsins sem nauðsynlegir eru til að tryggja áframhaldandi snurðulausan rekstur Keflavíkurflugvallar.

III. Tvíþætt hlutverk Keflavíkurflugvallar og staðsetning hans á varnarsvæði.
    Keflavíkurflugvöllur er í dag herflugvöllur sem að mestu leyti er starfræktur í þágu borgaralegs flugs. Jafnframt er Flugstöð Leifs Eiríkssonar með tvíþætt hlutverk (e. dual purpose) þar sem henni er bæði ætlað að þjóna borgaralegu flugi og herflugi. Samkvæmt samningi Íslands og Bandaríkjanna, frá 5. júlí 1983 sem birtur var í C-deild Stjórnartíðinda 27. júlí 1983 með auglýsingu nr. 10, hafa bandarísk hervöld heimild til að nota Flugstöð Leifs Eiríkssonar á ófriðartímum eða í neyðartilfellum í samræmi við varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins og hlutaðeigandi samninga og samþykkta.
    Keflavíkurflugvöllur er flugvöllur í skilningi 56. gr. laga um loftferðir, nr. 60/1998. Samkvæmt því lagaákvæði er flugvöllur skilgreindur sem „afmarkað landsvæði, að meðtöldum byggingum og búnaði sem ætlað er til afnota við komur, brottfarir og hreyfingar loftfara á jörðu niðri.“ Nánari reglur um kröfur þær sem flugvellir og búnaður þeirra þarf að uppfylla er að finna í reglugerð um flugvelli nr. 347/2004 og alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
    Keflavíkurflugvöllur er staðsettur á landsvæði sem er varnarsvæði samkvæmt lögum nr. 110/1951. Samkvæmt lögum nr. 106/1954, um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl., sbr. 10. tölul. 14. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands nr. 3/2004 fer utanríkisráðherra með allt stjórnsýsluvald á varnarsvæðum. Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar heyrir því undir yfirstjórn utanríkisráðherra.

IV. Yfirtaka á rekstri þjónustueininga.
    Embætti Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar skiptist í dag niður í fjögur svið, þ.e. flugvallarsvið, öryggissvið, flugumferðarsvið og almenna skrifstofu. Yfir sviðunum er einn flugvallarstjóri. Alls starfa þarna í dag um 62 starfsmenn.
    Varnarliðið hefur verið vinnuveitandi slökkviliðs, snjóruðnings- og brautadeildar, rafeindadeildar, voltadeildar og verkfræðideildar á Keflavíkurflugvelli. Starfsmenn slökkviliðsins og framangreindra deilda eru um 150 talsins og allir íslenskir. Frumvarpið gerir ráð fyrir að framangreindar þjónustueiningar færist undir Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.
    Lauslega áætlað munu starfsmenn Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar við þessar breytingar verða um 200 talsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í ákvæði 1. mgr. 1. gr. er kveðið á um það að sérstök stofnun, Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, annist umsjón, rekstur og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar. Með ákvæðinu er fest í sérlög sú framkvæmd sem tíðkast hefur að sérstök Flugmálastjórn, staðsett á Keflavíkurflugvelli, annist rekstur Keflavíkurflugvallar. Stofnuninni er jafnframt ætlað að yfirtaka þann flugtengda rekstur á Keflavíkurflugvelli sem varnarliðið hefur annast til þessa. Sjá nánar I. og IV. kafla almennra athugasemda.
    Í 2. mgr. 1. gr. er tekið fram að Flugmálastjórn Íslands skuli annast eftirlit með framkvæmd flugverndar og flugöryggis á Keflavíkurflugvelli. Ekki þykir heppilegt að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafi eftirlit með sjálfri sér að því er þessi málefni varðar. Til að koma í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra er hér því kveðið á um sérstakt eftirlitshlutverk Flugmálastjórnar Íslands með Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.
    Í 3. mgr. 1. gr. segir að sérstakur flugvallarstjóri annist stjórnun og rekstur Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar. Það er í samræmi við það sem tíðkast hefur.
    Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar heyrir undir yfirstjórn utanríkisráðherra og í 4. mgr. 1. gr. er kveðið á um heimild utanríkisráðherra til að setja reglugerð þar sem kveðið er nánar á um skipulag og starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. 2. gr. segir að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar beri ábyrgð á því að starfrækt sé slökkvilið á Keflavíkurflugvelli og annist framkvæmd eldvarnaeftirlits. Stofnuninni er hér falið það eftirlits- og ábyrgðarhlutverk með slökkviliðinu sem sveitarfélögum er falið skv. 10. gr. laga um brunavarnir, nr. 75/2000. Af gildissviðsákvæði 2. gr. laga nr. 75/2000 leiðir að ákvæði þeirra laga taka einnig til starfrækslu slökkviliða á flugvöllum. Er á þessu hnykkt með tilvísun 2. málsl. 1. mgr. 2. gr.
    Í 2. mgr. 2. gr. er að finna ákvæði sem heimilar Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar að semja við sveitarfélag eða byggðasamlag um að hafa með höndum verkefni og stjórn slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli. Ákvæði þetta sækir fyrirmynd sína til 14. gr. laga nr. 75/2000 þar sem sveitarfélögum er heimilað að hafa samvinnu sín á milli um brunavarnir. Rétt þykir að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafi einnig slíka heimild.
    Í 3. mgr. 2. gr. er að finna heimild utanríkisráðherra til að setja í reglugerð nánari reglur um starfsemi slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli. Einnig gilda um starfsemi slökkviliðsins þær reglur sem er að finna í reglugerð um flugvelli nr. 347/2004, sjá hér einkum kafla 9.2 í VI. hluta reglugerðarinnar og tilvísanir hans í gr. 9.2.3–9.2.38 í 1. bindi viðauka 14 við Chicago-samninginn.

Um 3. gr.

    Ákvæði 1. mgr. 3. gr. er almennt gildistökuákvæði og er lögunum ætlað að taka gildi 1. júní 2006. Ákvæði til bráðabirgða er þó ætlað að öðlast þegar gildi. Slíkt þykir nauðsynlegt til að tryggja það að flugvallarstjóri geti strax hafist handa við að ráða til starfa það lykilstarfsfólk sem þarf til að tryggja öruggan rekstur Keflavíkurflugvallar.
    Í 2. mgr. 3. gr. er að finna breytingar á tilteknum ákvæðum laga um loftferðir. Í ákvæðum þessum er kveðið með skýrum hætti á um það að tekjur af lendingargjöldum á Keflavíkurflugvelli og greiðsla öryggisgjalds vegna vopna- og öryggisleitar á Keflavíkurflugvelli skuli renna til Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar. Þetta er í samræmi við þá skipan mála sem tíðkast hefur. Rétt þykir þó að kveða á um það með skýrum hætti í lögum að greiðslur þessar skuli renna til Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða er því starfsfólki varnarliðsins sem sinnt hefur ákveðnum flugtengdum verkefnum á árinu 2006 tryggður forgangsréttur til starfa hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar. Allar þessar einingar hafa sinnt verkefnum sem sinna þarf áfram á Keflavíkurflugvelli þrátt fyrir brotthvarf varnarliðsins. Leitast verður við að bjóða starfsfólkinu að sinna svipuðum verkefnum hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar og það hefur áður sinnt hjá varnarliðinu. Jafnframt verður þó að hafa hliðsjón af óhjákvæmilegum breytingum sem hér munu koma til.
    Í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða er kveðið á um ráðningarhlutverk flugvallarstjórans á Keflavíkurflugvelli, að því er varðar framangreind störf, og þarfnast ákvæðið ekki skýringar.
    Með 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, sem byggist á sanngirnisrökum, er tryggt að ekki þurfi að auglýsa þau störf sem um ræðir í ákvæðinu.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

    Með frumvarpinu er mótaður rammi utan um starfsemi og stjórnsýslu íslenskra flugmálayfirvalda á Keflavíkurflugvelli. Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar mun sem fyrr annast stjórnun og rekstur flugvallarins en til stofnunarinnar færast ýmsir rekstrarþættir sem hafa verið á hendi Bandaríkjahers, svo sem slökkvilið og rekstur flugbrauta og mannvirkja og kerfa sem tengjast flugvellinum. Áætlað er að starfsmenn verði samtals um 200 talsins.
    Fjármálaráðuneytið hefur ekki forsendur til að meta stofnkostnað sem fylgir yfirtöku íslenska ríkisins á rekstri sem Bandaríkjaher hefur haft með höndum vegna Keflavíkurflugvallar. Samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins gæti matsvirði fasteigna og tækja verið um 4,3 milljarðar kr. en óvisst er með útfærslu og endurgjald við yfirtöku þeirra.
    Talið er að árlegur rekstrarkostnaður verkefna sem færast frá hernum til ríkisins nemi um 1.420 m.kr. á ári. Tekjur sem renna til Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar munu vera öryggisgjald og lendingargjöld.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að útgjöld ríkisins aukist um 1,4 milljarða króna.