Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 550. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1273  —  550. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar um kaup Eglu hf. á Búnaðarbankanum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Getur viðskiptaráðherra upplýst með óyggjandi hætti, m.a. á grundvelli upplýsinga sem aflað verði frá Fjármálaeftirlitinu hérlendis og sambærilegri stofnun í Þýskalandi, hvort þýski bankinn Hauck & Aufhauser var eins og haldið hefur verið fram meðal raunverulegra kaupenda og síðan eigenda Búnaðarbankans sem hluti af Eglu hf. þegar einkavæðingu Búnaðarbankans lauk, sbr. tilkynningu 16. janúar 2003?
     2.      Ef í ljós kemur að hinn erlendi banki var ekki meðal raunverulega kaupenda og upplýsingar þar um voru rangar, hvaða afleiðingar mun það hafa í för með sér gagnvart:
                  a.      öðrum bjóðendum í Búnaðarbankann sem gengið var fram hjá með vísan til hins erlenda banka sem þátttakanda í tilboði Eglu hf.,
                  b.      einkavæðingarnefnd,
                  c.      ráðherranefnd um einkavæðingu,
                  d.      Kauphöll Íslands vegna rangrar upplýsingagjafar eða mistaka við eftirlit,
                  e.      Fjármálaeftirlitinu vegna rangrar upplýsingagjafar eða mistaka við eftirlit,
                  f.      Ríkisendurskoðun, sbr. skýrslu þeirrar stofnunar um einkavæðinguna,
                  g.      kaupandanum Eglu hf.?


    Ráðuneytið ritaði Fjármálaeftirlitinu (FME) erindi hinn 2. mars sl. og óskaði eftir því að stofnunin veitti því þær upplýsingar sem nauðsynlegar væru til að unnt væri að svara fyrirspurninni eftir því sem stofnunin teldi sig hafa heimildir til vegna þagnarskylduákvæða og aðgengis. Svar Fjármálaeftirlitsins barst ráðuneytinu í tvennu lagi, með bréfum dags. 3. apríl sl. og 2. maí sl., og er svar ráðuneytisins byggt á upplýsingum stofnunarinnar.
    Ráðuneytið ritaði forseta Alþingis bréf hinn 13. mars sl. og tilkynnti um væntanlega töf á svari. Á þeim tíma reiknaði ráðuneytið með að stofnunin mundi leita til Bundesanstalt für Finanzdienstleistungsaufsicht (BaFin), systurstofnunar FME í Þýskalandi, um staðfestingu á því að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser hefði verið „raunverulegur eigandi“ hlutafjár í Eglu hf., sbr. orðalag fyrirspurnar háttvirts þingmanns. Því væri svars ekki að vænta innan þess tímafrests sem áskilinn er í þingskapalögum. Við nákvæma yfirferð þeirra gagna sem FME hafði tiltæk þróuðust mál hins vegar á þann veg að stofnunin sá ekki tilefni til þess að leita til BaFin.
    Í svari FME kemur fram að hinn 16. janúar 2003 hefðu Egla hf., Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar, Samvinnulífeyrissjóðurinn og Vátryggingafélag Íslands hf. lagt fram umsókn til Fjármálaeftirlitsins í samræmi við 40. gr. laga nr. 161/2002, um samþykki stofnunarinnar fyrir kaupum þessara aðila á virkum eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. Við athugun á umsókninni aflaði FME upplýsinga og gagna um umsækjendur til þess að geta lagt mat á hæfi þeirra. Upplýsingaöflun þessi varðaði m.a. hluthafa Eglu hf., þ.m.t. þýska bankann Hauck & Aufhäuser. Við upplýsingaöflun um þýska eignaraðilann var FME í samskiptum við systurstofnun sína í Þýskalandi. FME fékk staðfest að þýski bankinn hefði starfsleyfi sem viðskiptabanki í Þýskalandi og lyti eftirliti BaFin. Enn fremur óskaði FME eftir upplýsingum BaFin um það hvort sú stofnun gerði athugasemdir við fyrirhuguð viðskipti Hauck & Aufhäuser og fékk staðfest að svo væri ekki. Á grundvelli þess að FME hafði þegar átt samskipti við þýsku systurstofnunina um þátttöku Hauck & Aufhäuser í hlutafélaginu Eglu hf. og kaupum á Búnaðarbankanum og fengið staðfestingu á því að BaFin gerði ekki athugasemdir við viðskiptin taldi FME ekki tilefni til að leita aftur til BaFin. Í svari Fjármálaráðuneytisins til ráðuneytisins kemur fram að miðað við þær upplýsingar sem stofnunin hefur aflað sér, sbr. þær skyldur sem VI. kafli laga nr. 161/2002 leggur á hana, sé ekkert sem bendi til annars en að Hauck & Aufhäuser hafi verið hluthafi í Eglu hf. í samræmi við veittar upplýsingar í tengslum við sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. í janúar 2003.
    Í svarbréfi FME kemur enn fremur fram að stofnunin hafi m.a. farið yfirársreikning Hauck & Aufhäuser fyrir árið 2003, aflað upplýsinga frá Eglu hf. um hlutafjárþátttöku þýska bankans í Eglu hf. í upphafi árs 2003 og breytingar á eignarhaldi hluthafa frá sama tíma. Að mati FME kemur ekkert fram í gögnum sem aflað hefur verið og í þeim upplýsingum sem stofnuninni hafa verið veittar sem gefur tilefni til að ætla að Hauck & Aufhäuser hafi ekki verið hluthafi í Eglu hf. frá janúar 2003 og allt til 17. mars 2005. FME lætur þess enn fremur getið í svari sínu til ráðuneytisins að fyrir liggi staðfesting endurskoðanda Hauck & Aufhäuser í Þýskalandi, KPMG í Frankfurt, að eignarhlutur bankans í Eglu hf. hafi verið hluti af verðbréfaeign bankans árið 2004. Með tilvísun til framangreindra upplýsinga telur FME, eins og áður er getið, ekki nauðsyn á að afla sérstakrar staðfestingar BaFin, systurstofnunar sinnar í Þýskalandi, á því að Hauck & Aufhäuser hafi verið hluthafi í Eglu hf. Ráðuneytið er þeirrar skoðunar að fyrirliggjandi upplýsingar lögbærra yfirvalda, í þessu tilviki FME og BaFin, og staðfesting virts endurskoðunarfirma, samanber og sjálfstæða athugun Ríkisendurskoðunar, gefi ekki tilefni til þess að efast um að Hauck & Aufhäuser hafi verið meðal hluthafa í Eglu hf. frá 16. janúar 2003 til 17. mars 2005.
    Í bréfi FME til ráðuneytisins, dags. 2. maí sl., segir orðrétt: „Með vísan til ofangreindra gagna og efnis bréfs Fjármálaeftirlitsins frá 3. apríl sl. eru engar forsendur til að ætla annað en að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser hafi verið hluthafi í Eglu hf. og þátttakandi í einkavæðingu Búnaðarbankans í janúar 2003.“
    Ráðuneytið fór þess á leit við FME að stofnunin gæfi ráðuneytinu skrá yfir þau gögn sem farið var yfir og lágu til grundvallar mati FME á því að ekki væri tilefni til að efast um að Hauck & Aufhäuser hafi verið raunverulegir eigendur eignarhluta í Eglu hf. Er skrá þessi birt hér á eftir.
    Með tilvísun til þess sem fram kemur í svari við fyrri hluta fyrirspurnarinnar þar sem fram kemur að mati ráðuneytisins fullnægjandi vissa fyrir því að upplýsingar um eignaraðild Hauck & Aufhäuser hafi reynst réttar, telst ekki tilefni til að fjalla um annan hluta fyrirspurnarinnar.
    Gögn sem FME fór yfir vegna fyrirspurnar á þskj. 798:
     1.      Yfirlýsing frá KPMG í Frankfurt, dags. 17. mars 2006, ljósrit úr gögnum Ríkisendurskoðunar.
     2.      Fulltingi hf., Eignarhald í Eglu hf. Bréf dags. 3. mars 2006.
     3.      Ársreikningur Eglu hf. fyrir árið 2004, útg. 20. júní 2005.
     4.      Fundargerð hluthafafundar Eglu hf., dags. 29. desember 2004.
     5.      Fundargerð stjórnar Eglu hf., dags. 14. október 2004.
     6.      Fulltingi ehf. Bréf dags. 1. júní 2004.
     7.      Share purchase agreement, fax dags. 14. maí 2004.
     8.      Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, bréf dags. 8. mars 2004.
     9.      Ársreikningur Eglu hf. fyrir árið 2003, útg. 27. febrúar 2004.
     10.      Fulltingi ehf. Beiðni um samþykki fyrir sölu hluta í Eglu hf., dags. 27. febrúar 2004.
     11.      Fundargerð hluthafafundar Eglu hf., dags. 12. desember 2003.
     12.      Hauck & Aufhäuser, fax dags. 12. desember 2003.
     13.      Hauck & Aufhäuser, Power of Attorney, dags. 12. desember 2003.
     14.      Fulltingi ehf. réf til Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KgaA, dags. 12. maí 2003.
     15.      Minutes of shareholders´meeting, Egla hf. dags. 9. apríl 2003.
     16.      Egla ehf. Bréf til Hauck & Aufhäuser, dags. 31. mars 2003.
     17.      Fundargerð hluthafafundar Eglu hf., dags. 25. mars 2003.
     18.      Hauck & Aufhäuser, Power of Attorney/umboð, dags. 25. mars 2003.
     19.      Endurrit hluthafafundar í Eglu hf., dags. 16. janúar 2003.
     20.      Samþykktir fyrir Eglu hf., dags. 16. janúar 2003.
     21.      Hauck & Aufhäuser, Share purchase agreement, dags. 15. janúar 2003.
     22.      Hauck & Aufhäuser, Vollmacht/Power of Attorney, dags. 14. janúar 2003.
     23.      Hauck & Aufhäuser, Power of Attorney, dags. 14. janúar 2003.
     24.      Egla ehf. Bréf til Hagstofu Íslands/hlutafélagaskrár, dags. 10. janúar 2003.