Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 795. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1274  —  795. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Geir H. Haarde utanríkisráðherra, Jón Egil Egilsson og Veturliða Þór Stefánsson frá utanríkisráðuneyti, Björn Inga Knútsson, flugvallarstjóra á Keflavíkurflugvelli, Vernharð Guðnason frá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Kristján Gunnarsson og Guðjón H. Arngrímsson frá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérstök lög um starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar. Hlutverk hennar verði að annast stjórn, rekstur og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar í samráði við ákvæði loftferðalaga og annarra laga. Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hefur hingað til starfað á grundvelli reglugerðar sem sett er með stoð í lögum nr. 110/1952, um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna. Vegna ákvörðunar Bandaríkjastjórnar um breytingar á starfsemi Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að taka yfir þá starfsemi og þann rekstur Keflavíkurflugvallar sem Bandaríkjamenn hafa annast hingað til og er m.a. bætt úr því með sérstökum lögum um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.
    Með ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að þegar verði hafist handa um að ráða starfsfólk til stofnunarinnar. Þar sem sérstaklega stendur á er lagt til að heimilt verði að víkja frá ákvæðum um auglýsingu opinberra starfa í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um bráðabirgðaákvæðið þar sem segir að eftir því sem við verði komið verði því starfsfólki sem hafi starfað hjá tilgreindum deildum varnarliðsins boðið starf hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar. Nefndin leggur til að ákvæðið verði gert afdráttarlaust um að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar verði gert skylt að bjóða öllu viðkomandi starfsfólki störf.
    Eins og fram kemur í athugasemdum við ákvæði til bráðabirgða er nauðsynlegt að hafa hliðsjón af óhjákvæmilegum breytingum sem verða með yfirfærslu verkefna frá varnarliðinu til Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar. Af þessari ástæðu er ekki kveðið á um það í frumvarpinu að sú skylda hvíli á Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar að bjóða öllum starfsmönnum sambærileg störf við þau sem þeir hafa áður gegnt fyrir fyrri vinnuveitanda þótt leitast verði við að gera það, sbr. skýringar við ákvæði til bráðabirgða.
    Eftir breytinguna munu starfsmenn Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar verða starfsmenn íslenska ríkisins og njóta réttinda sem opinberir starfsmenn.
    Nefndin ræddi sérstaklega stöðu starfsmanna snjóruðnings- og brautadeildar en vinnuskyldu hluta þeirra lýkur 31. maí nk. Ráðningarsambandi annarra starfsmanna sem tilgreindir eru í ákvæði til bráðabirgða lýkur hins vegar 30. september nk. Fram kom á fundi nefndarinnar að þeir starfsmenn sem hafa vinnuskyldu til 31. maí muni halda óbreyttum kjörum hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar fram til 30. september.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Í stað orðanna „Eftir því sem við verður komið skal bjóða“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða komi: Bjóða skal.

Alþingi, 4. maí 2006.



Halldór Blöndal,


form., frsm.


Össur Skarphéðinsson.


Magnús Stefánsson.



Drífa Hjartardóttir.


Jón Gunnarsson.


Bjarni Benediktsson.



Steingrímur J. Sigfússon.


Jónína Bjartmarz.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.