Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 803. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1284  —  803. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál.

Flm.: Forsætisráðherra.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd undir formennsku stjórnarformanns persónuverndar og með þátttöku þjóðskjalavarðar, forseta Sögufélags, skrifstofustjóra Alþingis og formanns stjórnmálafræðiskorar félagsvísindadeildar Háskóla Íslands til að annast skoðun gagna sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945–1991 í vörslu opinberra aðila og ákveða í samráði við forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti og dóms- og kirkjumálaráðuneyti frjálsan aðgang fræðimanna að þeim.

Greinargerð.


    Ríkisstjórnin hefur samþykkt að tillögu forsætisráðherra, utanríkisráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra að fela forsætisráðherra að leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál.
    Nokkrar umræður hafa orðið um nauðsyn þess að rannsökuð séu opinber gögn að því er varðar innra öryggi íslenska ríkisins á tímum kalda stríðsins, til þess að fá úr því skorið hvort þar sé að finna upplýsingar um persónulega hagi einstaklinga eða dæmi um ólögmæta upplýsingaöflun. Rannsókn af þessu tagi ber ekki árangur nema gögn séu gerð aðgengileg þeim sem að henni vinna.
    Nauðsynlegt er að opinber skjalasöfn séu opnuð í þessu skyni og veittur verði aðgangur að þeim til að taka af öll tvímæli um það sem þar er að finna. Í þeim tilgangi er þessi tillaga flutt.
    Í hópi nefndarmanna samkvæmt tillögunni er að finna hæfa sérfræðinga til að vinna að þessu verki í samráði við þau ráðuneyti sem hlut eiga að máli og skulu opna skjalasöfn sín til að tillagan nái tilgangi sínum. Undir opinbera aðila í tillögunni falla Landssími Íslands, dómstólar og lögregluyfirvöld.
    Nefndin skal ljúka störfum með skýrslu til Alþingis eigi síðar en í árslok 2006.