Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 649. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1299  —  649. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Erlu Pálmadóttur um kostnað við hjúkrun aldraðra.

Frá Jóhönnu Erlu Pálmadóttur.



     1.      Hve margir aldraðir hafa lokið meðferð á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og eru á biðlista eftir úrræðum utan sjúkrahússins? Á hvaða sviðum sjúkrahússins liggja þeir og hver er meðalkostnaður á dag vegna umönnunar þeirra skipt eftir sviðum?
    Svör við þessu eru byggð á gögnum úr DRG-gagnagrunni Landspítala – háskólasjúkrahúss frá 26. apríl sl. Samkvæmt því bíða nú 97 aldraðir einstaklingar eftir hjúkrunarheimilisplássi á LSH og skiptast þeir þannig eftir sviðum: Á geðsviði bíða fimm, á lyflækningasviði I bíða 14, á lyflækningasviði II bíður einn, á skurðlækningasviði bíða átta, á endurhæfingarsviði fjórir og öldrunarsviði 65.
    Taflan hér á eftir sýnir áætlaðan meðalkostnað á legudag fyrir sjúkling í bið. Tekið er meðaltal þeirra sem hafa dvalið 30 daga eða lengur og eru 75 ára.


Áætlaður meðalkostnaður legudaga, aldraðir sjúklingar í bið.


Svið og heiti Kostnaður
A Skurðlækningasvið 80.651 kr.
C Lyflækningasvið 1 52.279 kr.
E Geðsvið 24.067 kr.
N Endurhæfing 30.282 kr.
O Öldrunarsvið 35.823 kr.

     2.      Hver er meðalkostnaður við umönnun aldraðra á hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og hins vegar í Norðvesturkjördæmi?

    Ráðuneytið bað um rekstrarupplýsingar fyrir árið 2005 og rekstraráætlun fyrir árið 2006 frá hjúkrunarheimilum og var skilafrestur 27. mars sl. Flest hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu hafa skilað rekstrarupplýsingum, en einungis eitt hjúkrunarheimili í Norðvesturkjördæmi. Samanburður á rekstrartölum fyrir árið 2005 er því óraunhæfur og verður því að miða við rekstrartölur fyrir árið 2004 og reikna meðalkostnað út frá þeim. Við samanburð ber að hafa í huga að umönnunarþyngd vistmanna samkvæmt RAI-mælingum hjá þeim heimilum sem skiluðu rekstrarupplýsingum var 1,02 á höfuðborgarsvæðinu en 0,97 í Norðvesturkjördæmi.
    Meðalkostnaður á legudag árið 2004 við umönnun aldraðra á hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu og í Norðvesturkjördæmi var eins og kemur fram í eftirfarandi töflu.
    



Meðalkostnaður legudaga á hjúkrunarheimilum 2004.

Rekstrarliðir Höfuðborgarsvæði, kr. Norðvesturkjördæmi, kr. Mismunur, kr.
Daggjöld og húsnæðisgjald 13.654 12.393 1.261
Aðrar tekjur 541 456 85
Tekjur samtals 14.195 12.849 1.346
Launakostnaður við umönnun 7.988 6.589 1.399
Annar launakostnaður 2.506 3.592 -1.086
Annar rekstrarkostnaður 3.583 2.741 843
Gjöld samtals 14.078 12.921 1.156
Afkoma 117 -72 190