Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 221. máls.
Þskj. 221  —  221. mál.
Prentað upp.

Formbreyting.



Frumvarp til laga

um
upplýsingarétt um umhverfismál .

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




I. KAFLI
Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
Markmið laganna.

    Markmið laga þessara er að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál, sem stjórnvöld hafa yfir að ráða eða geymdar eru fyrir þeirra hönd, til að stuðla að sterkari vitund um málefni á umhverfissviði, frjálsum skoðanaskiptum og aukinni þátttöku almennings í töku ákvarðana um umhverfismál.

2. gr.
Skilgreining á stjórnvöldum sem falla undir lögin.

    Lög þessi gilda um:
     1.      öll stjórnvöld sem falla undir gildissvið upplýsingalaga,
     2.      lögaðila sem hefur verið falið opinbert hlutverk eða veitir almenningi opinbera þjónustu sem varðar umhverfið á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samnings við stjórnvöld sem falla undir 1. tölul.,
     3.      lögaðila sem gegna opinberu hlutverki eða veita opinbera þjónustu sem varðar umhverfið og lúta stjórn þeirra stjórnvalda sem falla undir 1. tölul. Lögaðili er talinn lúta opinberri stjórn í þessum skilningi þegar stjórnvöld skv. 1. tölul. tilnefna meira en helming stjórnarmanna í stjórn lögaðilans eða hafa á annan hátt virk yfirráð yfir honum.
    Einvörðungu upplýsingar sem til verða eða aflað er í tilefni af hinu opinbera hlutverki eða þjónustu þeirra sem ákvæði 2. og 3. tölul. 1. mgr. taka til falla undir lögin.
    Lögin gilda ekki um Alþingi, umboðsmann Alþingis, Ríkisendurskoðun eða dómstóla.

3. gr.
Skilgreining á upplýsingum um umhverfismál.

    Með upplýsingum um umhverfismál er átt við hvers kyns upplýsingar í rituðu, sjónrænu, heyranlegu, rafrænu eða einhverju efnislegu formi um:
     1.      ástand afmarkaðra þátta umhverfisins, svo sem andrúmslofts og lofthjúps, vatns, jarðvegs, lands, landslags og náttúruminja, þ.m.t. votlendis og strand- og hafsvæða, líffræðilegrar fjölbreytni og þátta hennar, þ.m.t. erfðabreyttra lífvera, og samspil milli þessara þátta,
     2.      þætti á borð við efni, orku, hávaða, geislun eða úrgang, þ.m.t. geislavirkan úrgang og losun hvers kyns efna og þátta út í umhverfið sem hafa áhrif á eða líklegt er að hafi áhrif á þá þætti í umhverfinu sem um getur í 1. tölul.,
     3.      ráðstafanir í tengslum við stefnumótun, löggjöf, skipulags- og framkvæmdaáætlanir og samninga á sviði umhverfismála sem hafa eða líklegt er að hafi áhrif á þá þætti sem um getur í 1. og 2. tölul., auk kostnaðar- og ábatagreiningar eða annars konar hagkvæmnigreiningar sem notuð er í tengslum við ákvarðanir um slíkar ráðstafanir,
     4.      ástandið að því er varðar heilbrigði manna og öryggi, þ.m.t. mengun matvæla, lífsskilyrði fólks, menningarminjar og mannvirki að svo miklu leyti sem þau verða eða líklegt er að þau verði fyrir áhrifum vegna ástands þeirra umhverfisþátta sem um getur í 1. tölul. eða vegna þeirra atriða sem um getur í 2. tölul.

4. gr.
Gildissvið gagnvart öðrum lögum.

    Ákvæði annarra laga sem heimila víðtækari aðgang að upplýsingum halda gildi sínu.
    Almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarka ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögum þessum.
    Lög þessi gilda ekki um rannsókn eða saksókn í opinberu máli.
    Réttur til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál samkvæmt lögum þessum víkur fyrir lögvörðum réttindum samkvæmt höfundalögum.

II. KAFLI
Aðgangur að upplýsingum um umhverfismál.
5. gr.
Upplýsingaréttur almennings um umhverfismál.

    Stjórnvöldum þeim sem falla undir 2. gr. er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum um umhverfismál með þeim takmörkunum sem greinir í 6. gr. Stjórnvöldum er ekki skylt að afla sérstaklega upplýsinga til þess að láta almenningi þær í té.
    Upplýsingarétturinn tekur bæði til gagna sem eru í vörslum stjórnvalds og gagna sem annar aðili geymir fyrir hönd þess.
    

6. gr.
Takmarkanir á upplýsingarétti.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Réttur almennings til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál tekur ekki til:
     1.      gagna sem undanþegin eru aðgangi skv. 4.–6. gr. upplýsingalaga,
     2.      efnis sem er í vinnslu eða ófullgerðra skjala eða gagna, en þá skal jafnframt upplýst hvenær ætla má að gögnin verði tilbúin, eða
     3.      upplýsinga sem sérstök lagaákvæði um þagnarskyldu taka til.
    Áður en stjórnvald tekur ákvörðun um aðgang að upplýsingum um umhverfismál getur það skorað á þann sem upplýsingarnar varða að upplýsa hvort efni þeirra varði viðkvæma framleiðslu- eða viðskiptahagsmuni sem leyndar eiga að njóta lögum samkvæmt. Stjórnvald skal veita sjö daga frest til þess að svara erindinu.

7. gr.
Takmarkalaus upplýsingaréttur að tilteknum tíma liðnum.

    Veita skal aðgang að gögnum sem 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. tekur til eftir ákvæðum 8. gr. upplýsingalaga.
    Veita skal aðgang að gögnum sem 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. tekur til jafnskjótt og viðkomandi skjöl eða gögn hafa verið fullgerð nema önnur undantekningarákvæði taki jafnframt til þeirra.
    Veita skal aðgang að gögnum sem 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. tekur til þegar liðin eru þrjátíu ár frá því að gögnin urðu til nema upplýsingarnar varði viðkvæma einkahagsmuni.

8. gr.
Upplýsingar um mengandi losun út í umhverfið.

    Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. og 3. og 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga og 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga þessara á almenningur rétt á því að fá aðgang að upplýsingum um mengandi losun út í umhverfið.

9. gr.
Aðgangur að hluta skjals.

    Ef ákvæði 6. gr. á aðeins við um hluta skjals skal veita almenningi aðgang að öðru efni skjalsins ef unnt er að skilja upplýsingarnar sem falla undir undantekningar frá þeim upplýsingum sem beðið er um. Sama regla á við um önnur gögn eftir því sem við getur átt.

10. gr.
Almenn miðlun upplýsinga um umhverfismál.

    Stjórnvöld, sem undir lög þessi falla, skulu vinna að því að gera upplýsingar um umhverfismál aðgengilegar almenningi. Umhverfisráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um miðlun slíkra upplýsinga.

III. KAFLI
Málsmeðferð.
11. gr.
Beiðni um aðgang að upplýsingum og málsmeðferð.

    Sá sem fer fram á aðgang að upplýsingum um umhverfismál á grundvelli 5. gr. skal tilgreina þær upplýsingar sem hann óskar eftir að fá.
    Stjórnvald getur vísað frá beiðni ef tilgreining þeirra upplýsinga sem óskað er eftir aðgangi að er of óljós til að hægt sé að afgreiða beiðnina. Áður en til þess kemur ber að veita málsaðila leiðbeiningar þar um og gefa honum færi á að afmarka beiðni sína nánar.
    Stjórnvald getur sett það skilyrði að beiðni um aðgang að upplýsingum sé skrifleg og komi fram á eyðublaði sem það leggur til.
    Þegar farið er fram á aðgang að upplýsingum í máli þar sem taka á eða tekin hefur verið stjórnvaldsákvörðun skal beiðni beint til þess stjórnvalds sem tekið hefur eða taka mun ákvörðun í málinu. Annars skal beiðni beint til þess stjórnvalds sem hefur upplýsingarnar í vörslum sínum.
    

12. gr.
Málshraði og málsmeðferð.

    Stjórnvald skal taka ákvörðun um hvort það verður við beiðni um aðgang að upplýsingum svo fljótt sem verða má. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan 15 daga frá móttöku hennar skal skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.
    Hafi beiðni um aðgang að upplýsingum ekki verið afgreidd 60 dögum eftir að hún barst stjórnvaldi er aðila heimilt að kæra afgreiðsluna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem úrskurðar um upplýsingarétt hans.
    Þegar afgreitt er erindi um aðgang að upplýsingum um umhverfismál sem höfundaréttur tekur til skal veita upplýsingar um nafn rétthafa liggi þær fyrir.
    Um málsmeðferð fer að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum.

13. gr.
Ljósrit eða afrit af gögnum.

    Stjórnvöld skulu veita aðgang að upplýsingum um umhverfismál á því formi eða með því sniði sem þær eru varðveittar á, nema þær séu þegar aðgengilegar almenningi. Þegar upplýsingar eru varðveittar á rafrænu formi getur aðili valið á milli þess að fá þær á því formi eða útprentaðar á pappír.
    Þegar skjöl eru mörg getur stjórnvald ákveðið að fela öðrum að sjá um ljósritun þeirra. Hið sama á við hafi stjórnvald ekki aðstöðu til að ljósrita skjöl. Þá skal aðili greiða þann kostnað sem hlýst af ljósritun skjalanna. Hið sama gildir um afrit af öðrum gögnum en skjölum eftir því sem við á.
    Umhverfisráðherra ákveður með gjaldskrá hvað greiða skuli fyrir ljósrit og afrit gagna sem veitt eru samkvæmt lögum þessum þannig að mætt sé þeim kostnaði sem af því hlýst, þ.m.t. efnis- og launakostnaði og eðlilegum afskriftum af þeim búnaði sem notaður er við afritun upplýsinga. Ef fyrirsjáanlegt er að kostnaður við afritun eða ljósritun verði hærri en 10.000 kr. er heimilt að krefjast fyrirframgreiðslu.

14. gr.
Rökstuðningur      og tilkynning ákvörðunar.

    Ákvörðun stjórnvalds um að synja beiðni um aðgang að upplýsingum um umhverfismál, að hluta eða í heild, skal rökstudd og tilkynnt skriflega. Hið sama gildir ef synjað er beiðni um ljósrit eða afrit af umbeðnum gögnum.

IV. KAFLI
Stjórnsýslukæra.
15. gr.
Kæruheimild.

    Heimilt er að bera synjun stjórnvalds á beiðni um aðgang að upplýsingum um umhverfismál samkvæmt lögum þessum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um ljósrit af skjölum eða afrit af öðrum gögnum.
    Um meðferð slíkra mála gilda ákvæði 14.–19. gr. upplýsingalaga.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
16. gr.
Innleiðing á tilskipun.

    Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/4/EB frá 28. janúar 2003 um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/313/EB, sem tekin var inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 123/2003 hinn 26. september 2003.

17. gr.
Gildistaka og lagaskil.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Um leið falla úr gildi lög nr. 21/1993, um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál, sbr. 2. og 3. tölul. 25. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996.
    Ákvæði laganna gilda um allar upplýsingar um umhverfismál án tillits til þess hvenær þær urðu til eða hvenær þær hafa borist stjórnvöldum.

18. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

     1.      Eftirfarandi breytingar verða á upplýsingalögum, nr. 50/1996:
                  a.      Við 6. gr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: umhverfismál, enda geti birting þeirra haft alvarleg áhrif á vernd þess hluta umhverfisins sem slíkar upplýsingar varða, t.d. heimkynni fágætra tegunda lífvera.
                  b.      Við 8. gr. bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr., svohljóðandi:
                      Veita skal aðgang að upplýsingum sem 5. tölul. 6. gr. tekur til þegar ekki er lengur ástæða til að ætla að miðlun upplýsinganna geti haft skaðleg áhrif á umhverfið.
     2.      Lokamálsliður 2. mgr. 30. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, orðast svo: Með sama hætti skulu ákvæði laga um upplýsingarétt um umhverfismál gilda um verktaka og upplýsingaskyldu hans.
     3.      2. málsl. 9. gr. laga nr. 66/1985, um Þjóðskjalasafn Íslands, orðast svo: Um aðgang að öðrum gögnum og skjölum, sem upplýsingalög og lög um upplýsingarétt um umhverfismál taka ekki til, skal mælt fyrir um í reglugerð sem menntamálaráðherra setur að fengnum tillögum þjóðskjalavarðar.
     4.      22. gr. a í höfundalögum, nr. 73/1972, orðast svo:
                      Heimilt er að veita aðgang að skjölum eða öðrum gögnum mála samkvæmt stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og öðrum lögum með því að afhenda ljósrit eða afrit af þeim þótt þau hafi að geyma verk er njóta verndar samkvæmt þessum lögum.
                      Upplýsingaréttur skv. 1. mgr. er þó háður því skilyrði að verkin verði ekki birt, eintök af þeim gerð, eintökum af þeim dreift eða þau nýtt með öðrum hætti nema með samþykki höfundar.
                      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að veita hinum skráða upplýsingar skv. 18. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.

    Frumvarp þetta er samið í þeim tilgangi að uppfylla skyldur íslenska ríkisins vegna EES- samningsins. Markmið frumvarpsins er að innleiða tilskipun 2003/4/EB frá 28. janúar 2003 um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/313/EB, en hún var tekin inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 123/2003 hinn 26. september 2003. Samkvæmt 10. gr. tilskipunarinnar skal hún hafa verið innleidd eigi síðar en 14. febrúar 2005.

II.

    Í alþjóðlegum umhverfisrétti hefur aukin áhersla verið á það lögð að almenningur hljóti fræðslu um umhverfismál og hafi aðgang að upplýsingum um umhverfismál sl. áratugi. Þannig var mikilvægi þess að almenningur hlyti fræðslu um umhverfismál áréttað í 19. gr. Stokkhólmsyfirlýsingarinnar, sem samþykkt var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi mannsins 16. júní 1972. Þar var áhersla lögð á að miðla upplýsingum um umhverfismál sem leið til þess að hafa áhrif á breytni borgaranna en ekki á rétt þeirra til aðgangs að upplýsingunum. Í Ríó-yfirlýsingunni frá 14. júní 1992 er á hinn bóginn skýrt kveðið á um rétt einstaklinga til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál. Í 10. gr. hennar segir m.a.:
     „Best verður tekist á við umhverfismál með þátttöku allra þegna sem hlut eiga að máli á viðkomandi sviðum. Í hverju ríki skal sérhver einstaklingur hafa aðgang, eftir því sem við á, að upplýsingum um umhverfið sem eru í vörslu opinberra aðila, þar á meðal upplýsingum um hættuleg efni og hættulega starfsemi í samfélagi þeirra, svo og tækifæri til að taka þátt í ákvarðanatöku. Ríki skulu auðvelda og örva skilning og þátttöku almennings með því að veita honum greiðan aðgang að upplýsingum. Raunverulegur aðgangur skal veittur að réttar- og stjórnsýslukerfum, þar á meðal að réttarúrræðum.“
    Mælt er fyrir um sams konar rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál í nokkrum öðrum yfirlýsingum og samningum sem gerðir hafa verið á síðustu árum.

III.

    Með lögum nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, var lagður grundvöllur að fullgildingu EES-samningsins og meginmáli hans ljáð lagagildi hér á landi. Á grundvelli EES-samningsins voru tekin upp í íslensk lög fyrstu almennu ákvæðin um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál. Í 74. gr. EES-samningsins er vísað til viðauka XX sem fjallar um umhverfið. Í viðaukanum er að finna tilskipun 90/313/EB um frjálsan aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Tilskipunin var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 21/1993, um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Með 3. gr. laganna var almenningi tryggður réttur til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál með þeim takmörkunum sem fram koma í 5. gr. laganna. Þegar upplýsingalög, nr. 50/1996, voru sett, voru m.a. gerðar þær breytingar á lögum nr. 21/1993, að um aðgang að fyrirliggjandi gögnum um umhverfismál færi samkvæmt upplýsingalögum.
    25. júní 1998 var af hálfu stjórnvalda undirritaður alþjóðasamningur efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, þ.e. hinn svonefndi Árósasamningur. Samningurinn hefur hins vegar ekki verið fullgiltur af hálfu Íslands.
    Evrópubandalagið undirritaði einnig Árósasamninginn og af því tilefni hefur Evrópuþingið og ráðið sett tilskipun 2003/4/EB frá 28. janúar 2003, um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/313/EB. Tilskipunin hefur það að markmiði að innleiða fyrstu stoð Árósasamningsins í löggjöf bandalagsins, sbr. 5. tölul. formálsorða hennar, en sá hluti samningsins lýtur að almennum aðgangi að upplýsingum um umhverfismál. Tilskipunin er nákvæmari og gengur lengra um nokkur atriði heldur en Árósasamningurinn. Þessi tilskipun var tekin inn í EES-samninginn 26. september 2003 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 123/2003. Eins og áður segir er markmið frumvarpsins að lögleiða þessa tilskipun.

IV.

    Helsti munurinn á tilskipun 2003/4/EB um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál, í samanburði við tilskipun 90/313/EB, um frjálsan aðgang að upplýsingum um umhverfismál, er fólginn í eftirfarandi atriðum:
     a.      Víkkuð hefur verið skilgreiningin á því hvaða upplýsingar teljast til „upplýsinga um umhverfismál“.
     b.      Nýja tilskipunin tekur til fleiri aðila, þ.e. ekki bara stjórnvalda í hefðbundnum skilningi, heldur einnig til fyrirtækja sem rækja opinbert hlutverk að ákveðnum skilyrðum.
     c.      Rétturinn til aðgangs að upplýsingum tekur ekki aðeins til upplýsinga sem eru í vörslu stjórnvalda heldur einnig til upplýsinga sem aðrir aðilar geyma fyrir þeirra hönd.
     d.      Helstu takmarkanir á aðgangi almennings að upplýsingum um mengandi losun út í umhverfið eru felldar niður.
     e.      Meginreglan er sú að stjórnvöldum beri að veita aðgang að upplýsingum um umhverfismál á því formi eða með því sniði sem þær eru varðveittar á, nema þær séu þegar aðgengilegar almenningi. Þegar upplýsingar eru varðveittar rafrænt getur aðili valið milli þess að fá þær á því formi eða útprentaðar á pappír.
    Ef ákvæði frumvarpsins eru borin saman við ákvæði upplýsingalaga, nr. 50/1996, má segja að helsti munurinn felist í eftirfarandi atriðum:
     1.      Ákvæði frumvarpsins taka ekki bara til upplýsinga í gögnum mála eins og upplýsingalögin heldur einnig til upplýsinga um umhverfismál í skrám og gagnagrunnum.
     2.      Lögin sem setja á samkvæmt frumvarpinu hafa að því leyti víðtækara gildissvið en upplýsingalögin að þrátt fyrir ákvæði 5. gr. og 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga og 3. tölul. 6. gr. frumvarpsins á almenningur almennt rétt á að fá aðgang að upplýsingum um mengandi losun út í umhverfið.
     3.      Frumvarpið hefur víðtækara gildissvið en upplýsingalögin hvað varðar skilgreiningu á því til hvaða stjórnvalda frumvarpið tekur.
     4.      Frumvarpið hefur takmarkaðra gildissvið en upplýsingalögin því að það tekur aðeins til upplýsinga um umhverfismál, sbr. skilgreiningu þess hugtaks í 3. gr. frumvarpsins. Þá kemur fram ein undanþága frá upplýsingarétti í 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins sem ekki er að finna berum orðum í upplýsingalögunum.

V.

    Ráðuneytið sendi frumvarpið til umsagnar iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, landbúnaðarráðuneytisins, sjávarútvegsráðuneytisins og samgönguráðuneytisins, Samtaka atvinnulífsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Brunamálastofnunar, Landmælinga Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, Skipulagsstofnunar, Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, Úrvinnslusjóðs, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfismála. Umsagnir bárust frá níu aðilum og að auki var haldinn fundur með fulltrúum Samorku og Samtaka atvinnulífsins. Farið var yfir frumvarpið og tekið tillit til þeirra athugasemda sem hægt var að verða við í ljósi þess svigrúms sem tilskipun 2003/4/EB veitir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Ákvæði 1. gr. frumvarpsins lýsa markmiðum þess. Ákvæðið er byggt á a-lið 1. gr. tilskipunar 2003/4/EB svo og 1. tölul. formálsorða hennar.

Um 2. gr.

    Ákvæði greinarinnar eru byggð á 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 2003/4/EB svo og 11. tölul. formálsorða hennar. Ákvæði greinarinnar taka einvörðungu til íslenskra stjórnvalda og lögaðila, sem hafa staðfestu hér á landi.
    Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. tekur frumvarpið til allra stjórnvalda sem falla undir gildissvið upplýsingalaga. Með ákvæðinu er vísað til skilgreiningar á stjórnvöldum, sem notuð er t.d. bæði í stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, og upplýsingalögum, nr. 50/1996, og vísast til umfjöllunar þessa laga hvaða stjórnvöld falla undir gildissvið þeirra.
    Af ákvæðum tilskipunarinnar leiðir að lögin taka ekki aðeins til stjórnvalda í þeirri hefðbundinni skilgreiningu stjórnsýsluréttar sem hér að framan var vísað til, heldur einnig til ákveðinna hlutafélaga, sameignarfélaga, sjálfseignarstofnana og annarra einkaréttarlegra aðila sem annast opinbera stjórnsýslu sem varðar umhverfið, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Til einföldunar á framsetningu frumvarpstextans eru allir þeir aðilar sem falla undir gildissvið laganna skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. nefndir stjórnvöld.
    Framangreind afmörkun tilskipunarinnar leiðir óhjákvæmilega til þess að þau hlutafélög í eigu ríkis eða sveitarfélaga sem falla undir tilskipunina og þar með frumvarp þetta geta verið undirseld upplýsingagjöf um umhverfismál en hlutafélög í eigu einkaaðila eru það ekki. Hjá þessum aðstöðumun er ekki hægt að komast vegna fyrirmæla b- og c-liða 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Sambærilegur aðstöðumunur verður á rekstrarskilyrðum hlutafélaga í opinberri eigu og einkaeigu í öðrum ríkjum sem eru aðilar að EES-samningnum.
    Ástæða þess að upplýsingarétturinn er ekki einvörðungu látinn taka til upplýsinga um umhverfismál hjá hefðbundnum stjórnvöldum skv. tilskipun 2003/4/EB svo og Árósasamningnum er að fyrirkomulag og skipulag stjórnsýslu er mjög mismunandi á milli landa. Til þess að aðgangur almennings að opinberum upplýsingum um umhverfismál sé ekki háður því hvaða form hefur verið valið á rækslu opinberrar þjónustu var þessi leið valin.
    Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. tekur frumvarpið til lögaðila sem hefur fengið opinbert hlutverk eða veitir almenningi opinbera þjónustu sem varðar umhverfið á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samnings við stjórnvöld sem falla undir 1. tölul. Ákvæðið er byggt á b-lið 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 2003/4/EB. Við fyrstu sýn virðist ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins efnislega víðtækara en ákvæði tilskipunarinnar því hið síðarnefnda tekur aðeins til lögaðila sem annast opinbera stjórnsýslu samkvæmt innlendum lögum. Ákvæði frumvarpsins tekur hins vegar til lögaðila sem falið hefur verið að annast opinbert hlutverk eða þjónustu sem varðar umhverfið á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samnings. Þar sem almennt er óheimilt að fela lögaðilum að rækja opinbert hlutverk með reglugerð nema reglugerðin eigi sér viðhlítandi lagastoð fyrir slíku ytra valdframsali, er í raun ekki um að ræða víðara gildissvið að þessu leyti. Hvað varðar samninga um rækslu opinberra verkefna, þá er heimilt að gera samninga við lögaðila um opinber rekstrarverkefni á grundvelli 30. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins. Í lokamálslið 2. mgr. þeirrar greinar er áréttað að ákvæði laga um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál gildi um slíka verktaka og upplýsingamiðlun hans. Ákvæði frumvarpsins hefur því ekki að geyma nýmæli að þessu leyti. Af þeim sökum var ákveðið að leggja til að ákvæði 2. tölul. 2. gr. væri svo úr garði gert þar sem það þykir lýsa á nákvæmari hátt gildissviði frumvarpsins að íslenskum rétti en ef fylgt væri nákvæmlega orðalagi b-liðar 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar.
    Einvörðungu þeir lögaðilar sem fengið hefur verið opinbert hlutverk eða falið að veita almenningi opinbera þjónustu sem varðar umhverfið falla undir gildissvið laganna. Með orðunum „varðar umhverfið“ er vísað til skilyrðis um að opinbera verkefnið eða þjónustan hafi áhrif á umhverfið, svo sem not náttúruauðlinda, mengandi losun út í umhverfið eða önnur áhrif, hvort sem þau eru jákvæð eða neikvæð. Dæmi um opinbera þjónustu af þessum toga er t.d. sorphirða sem sveitarfélag hefur falið verktaka að rækja á grundvelli samnings.
    Í 3. tölul. greinarinnar kemur fram að lögin taki til lögaðila sem bera opinbera ábyrgð, gegna opinberu hlutverki eða veita opinbera þjónustu sem varðar umhverfið og lúta opinberri stjórn. Ákvæðið er í samræmi við c-lið 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 2003/4/EB. Undir ákvæðið falla einvörðungu aðilar sem hafa á hendi hlutverk eða þjónustu sem talist getur til opinberrar stjórnsýslu. Undir þetta ákvæði fellur því t.d. ekki orkuframleiðsla eða sala til notenda á raforku, en þessi starfsemi hefur verið flutt úr rekstrarumhverfi hins opinbera yfir á almennan samkeppnismarkað samkvæmt ákvæðum raforkulaga, nr. 65/2003. Annað mál er að upplýsingar um umhverfismál sem berast frá slíkum fyrirtækjum til stjórnvalda falla hins vegar undir frumvarpið, ef að lögum verður, og eru þá aðgengilegar hjá stjórnvöldum að svo miklu leyti sem undantekningarákvæði frumvarpsins eiga ekki við.
    Þar sem deila má um hvað felist í því að lúta opinberri stjórn í skilningi tilskipunarinnar er í ákvæðinu tekin upp skilgreining um það að norskri fyrirmynd. Þannig er kveðið á um að lögaðili sé talinn lúta opinberri stjórn í þessum skilningi þegar stjórnvöld skv. 1. tölul. tilnefna meira en helming stjórnarmanna í stjórn lögaðilans eða hafa á annan hátt virk yfirráð yfir honum. Undir ákvæðið fellur á hinn bóginn ekki þegar athöfnum manna er stjórnað með reglustjórn, svo sem lögum og reglugerðum eða með stjórnvaldsákvörðunum, t.d. skilyrðum í opinberum leyfum.
    Áréttað er að einvörðungu upplýsingar sem til verða eða aflað er í tilefni af hinu opinbera hlutverki eða þjónustu sem ákvæði 2. og 3. tölul. 1. mgr. greinarinnar taka til falla undir lögin. Hafi upplýsinga um umhverfismál því ekki verið aflað í tengslum við rækslu hins opinbera hlutverks falla þær ekki undir gildissvið laganna.
    Frumvarpið tekur eingöngu til handhafa framkvæmdarvalds. Á grundvelli 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 2003/4/EB eru lögin hvorki látin taka til Alþingis og undirstofnana þess né dómstóla.

Um 3. gr.

    Ákvæði greinarinnar er byggt á 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 2003/4/EB, sbr. 10. tölul. formálsorða hennar. Í ákvæðinu er hugtakið „upplýsingar um umhverfismál“ skilgreint. Ákvæðið markar í raun efnislegt gildissvið frumvarpsins þar sem það veitir einvörðungu aðgang að upplýsingum um umhverfismál verði það að lögum.

Um 4. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að ákvæði annarra laga sem heimila víðtækari aðgang að upplýsingum haldi gildi sínu. Af ákvæði þessu leiðir að í engu er þrengdur sá réttur til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál sem til staðar er skv. 3. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996, og öðrum gildandi lögum. Ákvæðið er í samræmi við þá löggjafarstefnu sem t.d. hefur verið fylgt í Danmörku og Noregi og tekið er mið af í 24. tölul. formálsorða tilskipunar 2003/4/EB.
    Í 2. mgr. er tekið fram að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögum þessum. Í lögum eru mörg ákvæði um þagnarskyldu. Skipta má þeim ákvæðum í tvo flokka eftir því hvort þau sérgreina þær upplýsingar sem þagnarskylda á að ríkja um. Finna má fjölmörg þagnarskylduákvæði sem nefna má almenn ákvæði laga um þagnarskyldu. Dæmi um slíkt ákvæði er 18. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Einkenni þessara almennu ákvæða er að þau sérgreina ekki þær upplýsingar sem þagnarskyldan gildir um heldur tilgreina aðeins „atriði“, „upplýsingar“ eða „það“ sem starfsmaður fær vitneskju um í starfi og leynt skal fara. Slík almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarka sem fyrr segir ekki aðgang að gögnum skv. 4. gr. frumvarpsins. Það sama á við um almenn ákvæði um þagnarskyldu sem fram koma í stjórnvaldsfyrirmælum. Þeir hagsmunir sem þessum almennu þagnarskylduákvæðum er ætlað að vernda eru almennt hinir sömu og ákvæði 6. gr. frumvarpsins taka til. Það fer því eftir túlkun 6. gr. frumvarpsins hvort aðgangur að gögnum er óheimill eða takmarkaður. Í þessu sambandi er rétt að minna á að í 3. tölul. 6. gr. er á hinn bóginn tekið fram að réttur almennings til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál taki ekki til upplýsinga sem sérstök ákvæði laga um þagnarskyldu banna að miðlað sé til óviðkomandi manna.
    Í 3. mgr. kemur fram að ákvæði frumvarpsins, verði það að lögum, gildi ekki um rannsókn eða saksókn í opinberu máli. Ákvæðið er í samræmi við niðurlag 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Ákvæðið er byggt á 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 2003/4/EB þar sem það er fært á vald aðildarríkjanna að taka afstöðu til þess hvort reglur tilskipunarinnar verði látnar gilda um dómstóla. Í c-lið 2. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar er síðan einnig að finna heimila takmörkun á aðgangi almennings að upplýsingum um umhverfismál ef hann hefði alvarleg áhrif á meðferð mála fyrir dómstólum, möguleika einstaklinga til að hljóta réttláta meðferð fyrir dómi eða möguleika opinbers yfirvalds til að láta fara fram rannsókn sem varðar refsiverðan verknað eða agabrot.
    Í 4. mgr. greinarinnar er mælt svo fyrir að réttur til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál samkvæmt frumvarpinu, ef að lögum verður, víki fyrir lögvörðum höfundarétti samkvæmt höfundalögum. Ákvæðið er byggt á e-lið 2. mgr. 4. gr. tilskipunar 2003/4/EB og er sett fram á svipaðan hátt og 2. mgr. 3. gr. norskra laga um upplýsingarétt um umhverfismál sem sett voru til að innleiða fyrrnefnda tilskipun. Íslenska ríkið hefur undirgengist þjóðréttarlegar skuldbindingar til þess að vernda bókmenntir og listaverk. Þar má t.d. nefna Bernarsáttmálann til verndar bókmenntum og listaverkum í þeirri gerð sem samþykkt var á ráðstefnu Bernarsambandsríkja í París 24. júlí 1971, sbr. lög nr. 80/1972 og samninga Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) frá árinu 1996, höfundaréttarsamning WIPO og grannréttindasamning WIPO.
    Af ákvæði 4. mgr. leiðir að höfundalög ganga framar reglum frumvarps þessa, verði það að lögum, rekist ákvæði þeirra á.
    Samkvæmt 1. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, á höfundur eignarrétt á verki sínu með þeim takmörkunum sem í lögunum greinir. Samkvæmt 3. gr. sömu laga hefur hann einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að birta það í upphaflegri mynd eða breyttri, í þýðingu og öðrum aðlögunum. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að höfundaréttur tekur til einstaklingsbundinnar gerðar verksins en ekki þeirrar hugmyndar sem að baki býr. Þessu er á hinn bóginn öðruvísi farið með einkaleyfi þar sem sjálf hugmyndin að baki nýtur réttarverndar en ekki búningur hennar sem slíkur. Að tilteknum skilyrðum fullnægðum veita einkaleyfislögin vernd hugverki sem er fólgið í lausn á tæknilegum vanda og verður hagnýtt í iðnaði. Bæði höfundaréttindi og einkaleyfisréttur geta tengst árangri af sömu nýsköpun. Þegar uppfinningamaður lýsir uppfinningu sinni í máli og myndum nýtur sú lýsing að öllu jöfnu verndar samkvæmt höfundalögum.
    Svo að um hugverk sé að ræða sem réttarverndar nýtur verður m.a. að birtast í því tiltekið sjálfstæði, viss frumleiki og einhver sérkenni sem réttlætt geta þörf fyrir slíka vernd. Þetta þýðir að söfnun upplýsinga um staðreyndir telst almennt ekki hugverk (sbr. þó það sem síðar segir um gagnagrunna). Þannig telst bókhald og tölfræðilegar upplýsingar um umhverfismál ekki til hugverka. Hafi hins vegar uppdrættir eða líkön verið útbúin á grundvelli hinna tölfræðilegu upplýsinga til þess að skýra þær, geta slík verk notið höfundaréttar falli þau undir 3. mgr. 1. gr. höfundalaga. Því falla staðreyndaupplýsingar sem safnað hefur verið um varpstöðvar ákveðinnar fuglategundar ekki undir höfundalög. Uppdrættir og teikningar sem sýndu hins vegar helstu varpstöðvar gætu hins vegar fallið undir höfundalög, sbr. 3. mgr. 1. gr. þeirra laga.
    Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. höfundalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 60/2000, getur gagnagrunnur notið höfundaréttarlegrar verndar skv. 1. gr. höfundalaga að því er tekur til niðurröðunar og samsetningar að fullnægðum almennum skilyrðum höfundaréttar um frumleik og skapandi vinnu í vali og niðurröðun efnis í gagnagrunninn.
    Samkvæmt 50. gr. höfundalaga, sbr. 10. gr. laga nr. 60/2000, hefur sá einkarétt til eintakagerðar eða birtingar verks í heild eða að verulegum hluta sem framleiðir skrár, töflur, eyðublöð, gagnagrunn eða svipað verk sem hefur að geyma umtalsvert safn upplýsinga eða er árangur verulegrar fjárfestingar. Verndin nær einnig til endurtekins og kerfisbundins útdráttar eða endurnýtingar óverulegs hluta gagnagrunna ef gengið er óhæfilega gegn réttmætum hagsmunum framleiðanda. Ákvæði 50. gr. höfundalaga er byggt á tilskipun 96/9/EB, um lögverndun gagnagrunna. Þeir gagnagrunnar sem falla undir 50. gr. höfundalaga eru frábrugðnir þeim sem falla undir 6. gr. laganna að því leyti að þess er ekki krafist að fullnægt sé skilyrðum um frumleik og skapandi vinnu í vali og niðurröðun efnis í þá gagnagrunna sem undir 50. gr. falla. Réttlæting þessarar verndar felst í vinnuframlagi og fjárfestingu þeirri sem framleiðendur leggja í við gerð slíkra heimildabanka. Hér er um að ræða svokallaðan „sui generis“ rétt, óháðan höfundarétti skv. 1. gr. laganna.
    Höfundaréttur hins opinbera er takmarkaðri en einkaaðila um nokkur atriði skv. 9. gr. höfundalaga. Þannig njóta lög, reglugerðir, fyrirmæli stjórnvalda, dómar og önnur áþekk gögn, sem gerð eru af opinberri hálfu, ekki verndar eftir höfundalögum, og ekki heldur opinberar þýðingar á slíkum gögnum.
    Í II. kafla höfundalaga eru síðan lögfestar aðrar takmarkanir á höfundarétti. Lagt er til að með 18. gr. frumvarpsins verði 22. gr. höfundalaga breytt og hljóði þá svo:
              „Heimilt er að veita aðgang að skjölum eða öðrum gögnum mála samkvæmt stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og öðrum lögum með því að afhenda ljósrit eða afrit af þeim þótt þau hafi að geyma verk er njóta verndar samkvæmt þessum lögum.
              Upplýsingaréttur skv. 1. mgr. er þó háður því skilyrði að verkin verði ekki birt, eintök af þeim gerð, eintökum af þeim dreift eða þau nýtt með öðrum hætti nema með samþykki höfundar.
              Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að veita hinum skráða upplýsingar skv. 18. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.“
    Í grófum dráttum verður samspil ákvæða höfundalaga og ákvæða frumvarps þessa, verði það að lögum, á fjóra vegu:
     1.      Höfundalög standa því ekki í vegi að veita megi aðgang að upplýsingum um umhverfismál sem ekki eru háðar höfundarétti skv. 1. gr. höfundalaga eða lögvernd gagnagrunna skv. 50. gr. sömu laga.
     2.      Höfundalög standa því ekki í vegi að veita megi aðgang að upplýsingum um umhverfismál sem háðar eru höfundarétti sé litið til eðlis verksins skv. 1. gr. höfundalaga eða lögvernd gagnagrunna skv. 50. gr. sömu laga, falli verkið undir þau opinberu gögn, sem undanþegin eru höfundarétti skv. 9. gr. höfundalaga.
     3.      Höfundalög standa því ekki í vegi að veita megi aðgang að upplýsingum um umhverfismál sem háðar eru höfundarétti skv. 1. gr. höfundalaga eða lögvernd gagnagrunna skv. 50. gr. sömu laga, heimili 22. gr. a höfundalaga afhendingu ljósrita eða afrita af verkinu.
     4.      Óheimilt er að afhenda ljósrit eða afrit af gögnum sem háð eru höfundarétti skv. 1. gr. höfundalaga eða lögvernd gagnagrunna skv. 50. gr. sömu laga, falli verkin hvorki undir ákvæði 9. gr. eða 22. gr. a höfundalaga. Almennt væri hér um að ræða höfundarverk eða önnur lögvernduð verk sem ekki lægju fyrir í gögnum stjórnsýslumáls eða í öðru máli. Um gæti verið að ræða höfundarverk sem lægi fyrir í skrá eða gagnagrunni, t.d. kort og myndir af Íslandi sem Landmælingar Íslands hafa útbúið, sbr. 8. gr. laga nr. 95/1997 um landmælingar og kortagerð.
    Enda þótt ákveðnar upplýsingar um umhverfismál hjá hinu opinbera verði undanþegnar aðgangi almennings á grundvelli 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins er ekki þar með sagt að almenningur geti ekki átt möguleika á að fá aðgang að upplýsingunum á öðrum lagagrundvelli. Ástæðan er sú að hið opinbera kostar oft opinbera gagnaöflun og miðlun upplýsinga með fé sem innheimt er á grundvelli höfundaréttar ríkisins. Þótt kort og myndir af Íslandi í vörslum Landmælinga Íslands, sem ekki tilheyra stjórnsýslumáli eða öðrum málum, séu þannig oftast undanþegin upplýsingarétti samkvæmt frumvarpinu er almennt hægt að fá aðgang að þeim á grundvelli III. kafla laga nr. 95/1997, um landmælingar og kortagerð, gegn greiðslu enda sé í hvívetna virtur höfundaréttur ríkisins að efni sem höfundaréttar nýtur og Landmælingar Íslands hafa tekið saman. Í þessu sambandi má minna á dóm Hæstaréttar í máli nr. 124/2002 frá 19. september 2002 en þar var viðurkennt að útgefanda sem keypt hafði þrjár þekjur úr stafrænum kortagrunni Landmælinga Íslands og gefið síðan út kort án birtingarleyfis væri skylt að greiða Landmælingum Íslands fyrir þessa nýtingu á upplýsingunum á grundvelli 50. gr. höfundalaga.

Um 5. gr.

    Ákvæðið er byggt á 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2003/4/EB, sbr. 8. tölul. formálsorða hennar. Samkvæmt ákvæðinu hefur almenningur rétt til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál sem stjórnvöld skv. 2. gr. frumvarpsins hafa í vörslum sínum eða eru geymd fyrir þeirra hönd. Sá sem setur fram slíka beiðni þarf ekki að tiltaka ástæður fyrir henni eða sýna fram á að hann hafi hagsmuna að gæta. Upplýsingarétturinn tekur einvörðungu til fyrirliggjandi upplýsinga. Ekki er hægt að krefjast þess á grundvelli ákvæðisins að stjórnvöld afli upplýsinga eða taki þær sérstaklega saman til að geta látið þær í té.
    Stjórnvaldi ber að synja beiðni um upplýsingar um umhverfismál ef það ræður ekki yfir umbeðnum upplýsingum eða þær eru ekki geymdar á vegum þess, sbr. a-lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2003/4/EB. Þetta á þó ekki við ef því er kunnugt um að upplýsingarnar séu í vörslu annars stjórnvalds eða geymdar á vegum þess. Þegar svo stendur á ber að framsenda erindið til þess stjórnvalds í samræmi við ákvæði 7. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 4. mgr. 12. gr. frumvarpsins, og greina málsaðila frá því.
    Í 2. mgr. 5. gr. er tekið fram að upplýsingarétturinn taki bæði til gagna sem séu í vörslum stjórnvalds og gagna sem annar aðili geymi fyrir hönd þess. Ákvæðið er í samræmi við 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2003/4/EB, sbr. 8. tölul. formálsorða hennar. Ákvæðinu er ætlað að taka til upplýsinga sem tilheyra stjórnvaldinu en öðrum hefur af einhverri ástæðu verið falið að geyma. Um getur t.d. verið að ræða grunngögn sem verktaki hefur safnað saman á grundvelli samnings við stjórnvöld. Ef hið opinbera á eignarrétt að grunngögnunum en um hefur verið samið að þær skuli varðveittar hjá verktakanum, falla upplýsingarnar undir upplýsingarétt almennings á grundvelli 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Ákvæði 1. tölul. leiða til þess að réttur almennings til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál tekur ekki til upplýsinga sem falla undir 4.–6. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996. Þar sem frumvarpið tekur ekki aðeins til mála og gagna eiga takmarkanir og undantekningar frá upplýsingarétti, sem fram koma í 4.–6. gr. upplýsingalaga, við hvort sem um er að ræða upplýsingar um umhverfismál í ákveðnu máli, skýrslu, skrá eða gagnagrunni. Varðveisluháttur upplýsinganna skiptir því ekki máli.
    Þeir hagsmunir, sem oft standa í vegi fyrir aðgangi að upplýsingum um umhverfismál eru veigamiklir framleiðslu- eða viðskiptahagsmunir stjórnvalda skv. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins.
    Þegar óskað er eftir aðgangi að upplýsingum er lúta að viðskiptum stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga, sem falla undir 1. tölul. 2. gr. frumvarpsins, er heimilt að takmarka aðgang að slíkum upplýsingum lúti þau að þeim hluta af rekstri þeirra sem rekinn er í samkeppni á markaði, sbr. 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Þannig verður t.d. að telja að rannsóknir sem Íslenskar orkurannsóknir vinna að gegn greiðslu á samkeppnismarkaði séu ekki aðgengilegar almenningi á grundvelli frumvarps þessa, verði það að lögum. Annað mál er að eftir að vinnslufyrirtæki sem keypt hefur slíkar rannsóknir hefur t.d. lagt þær fram í stjórnsýslumáli þegar sótt er um virkjunarleyfi stæði 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga ekki í vegi fyrir aðgangi almennings að slíkum upplýsingum vegna viðskiptahagsmuna Íslenskra orkurannsókna.
    Þegar óskað er aðgangs að upplýsingum hjá þeim stjórnvöldum sem undir 2. eða 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. falla, gæti hlutaðeigandi stjórnvald hafnað aðgangi að upplýsingunum, varði þær t.d. veigamikla framleiðslu- eða viðskiptahagsmuni þess, á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga.
    Það er skilyrði fyrir því að heimilt sé að halda upplýsingum sem varða veigamikla framleiðslu- eða viðskiptahagsmuni leyndum að upplýsingarnar séu almenningi ekki þegar aðgengilegar. Þá verður að liggja fyrir að verði aðgangur veittur að upplýsingunum sé það til þess fallið að valda hlutaðeigandi stofnun eða fyrirtæki óréttmætu tjóni.
    Samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita aðgang að upplýsingum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í þessu sambandi skal minnt á að í f-lið 2. mgr. 4. gr. tilskipunar 2003/4/EB er áréttað að tryggja verði að uppfylltar séu kröfur í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. Þannig er tekið fram að aðildarríkin geti synjað beiðni um aðgang að upplýsingum um umhverfismál ef birting þeirra getur haft alvarleg áhrif á vernd persónuupplýsinga eða skjala sem varða einstakling, hafi viðkomandi ekki veitt samþykki sitt fyrir birtingu upplýsinganna.
    Með ákvæði 1. tölul. 6. gr. frumvarpsins, sbr. 5. gr. upplýsingalaga, er tekið af skarið um að frumvarpið hafi ekki að geyma lagaheimild eða lagafyrirmæli í skilningi 8. eða 9. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, er veitir almenningi aðgang að persónuupplýsingum, þ.m.t. viðkvæmum persónuupplýsingum, svo sem heilsufarsupplýsingum nafngreindra manna, þegar óskað er eftir aðgangi að upplýsingum um umhverfismál. Ávallt verður því að meta í hvert skipti hvort synja beri beiðni um aðgang að upplýsingum um umhverfismál eða takmarka hann á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga, séu upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga, sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, samofnar upplýsingum um umhverfismál. Standi 5. gr. upplýsingalaga í vegi fyrir því að veita megi aðgang að upplýsingum um umhverfismál ætti engu að síður oft að vera hægt að veita aðgang að upplýsingum um umhverfismál á grundvelli 8. gr. frumvarpsins með því að afmá persónuupplýsingar en afhenda að öðru leyti ópersónugreinanlegar upplýsingar um umhverfismál.
    Ákvæði 2. tölul. eru byggð á d-lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2003/4/EB. Samkvæmt ákvæðinu tekur réttur almennings til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál ekki til efnis sem er í vinnslu eða ófullgerðra skjala eða gagna. Þegar synjað er beiðni um upplýsingar á grundvelli þessa ákvæðis ber að upplýsa viðkomandi aðila um hvenær ætla má að gögnin verði fullgerð. Ef annað stjórnvald annast vinnslu upplýsinganna skal jafnframt upplýsa um það á grundvelli 7. gr. stjórnsýslulaga, sbr. lokamálslið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2003/4/EB. Ákvæði 2. tölul. er byggt á svipuðum sjónarmiðum og 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga en þar segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til vinnuskjala stjórnvalda. Sá er þó munurinn að ákvæði 2. tölul. er ekki bundið við að skjal sé ritað til eigin afnota. Þannig getur undantekningin tekið til skýrslna, skráa og gagnagrunna ef ætlunin er að þetta verði almenningi aðgengilegt eftir að það hefur verið fullgert eða þegar vinnslan er komin á ákveðið stig. Hið sama á við um gögn sem ekki hefur verið unnið úr og geta talist villandi þar sem kerfisbundnar leiðréttingar hafa ekki verið gerðar.
    Ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins undanþiggur upplýsingar sem sérstök ákvæði laga um þagnarskyldu banna að miðlað sé til óviðkomandi manna. Ákvæðið er í samræmi við a-lið 2. mgr. 4. gr. tilskipunar 2003/4/EB. Sérstök þagnarskylduákvæði tilgreina þær upplýsingar sem þagnarskylda ríkir um. Almenn þagnarskylduákvæði, sem ekki tilgreina þær upplýsingar sem þagnarskylda á að ríkja um, víkja hins vegar fyrir ákvæðum frumvarps þessa, sbr. 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins. Í fylgiskjali I eru tekin nokkur dæmi um sérstök þagnarskylduákvæði sem ganga munu framar ákvæðum frumvarpsins, verði það að lögum. Tekið skal fram að sérstök ákvæði laga um þagnarskyldu ganga einnig fram ákvæðum upplýsingalaga með gagnályktun frá 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996.
    Þegar tekin er ákvörðun um hvort takmarka skuli aðgang almennings á grundvelli allra matskenndra ákvæða þessarar greinar skal í sérhverju tilviki vega og meta þá hagsmuni almennings sem fylgja birtingu upplýsinganna á móti verndarhagsmunum ákvæðanna. Vegi hagsmunir af birtingu upplýsinganna sýnilega þyngra skal afhenda upplýsingarnar.
    Oft getur verið vandkvæðum bundið fyrir stjórnvöld að meta hvort upplýsingar um umhverfismál varða viðkvæma framleiðslu- eða viðskiptahagsmuni sem leyndar eiga að njóta lögum samkvæmt. Í fyrsta lagi þarf að meta hvort upplýsingarnar séu almenningi þegar aðgengilegar. Ef svo er ekki þarf að meta hvaða áhrif aðgangur að upplýsingunum getur haft á samkeppnisstöðu fyrirtækis, hvort hann er til þess fallinn að valda því óréttmætu tjóni. Af þessum sökum er mælt svo fyrir í 2. mgr. að áður en stjórnvald tekur ákvörðun um hvort veittur verður aðgangur að upplýsingum um umhverfismál geti það skorað á þann sem upplýsingarnar varða að upplýsa hvort efni þeirra varði viðkvæma framleiðslu- eða viðskiptahagsmuni sem leyndar eiga að njóta lögum samkvæmt. Veita skal sjö daga frest til þess að svara erindinu. Þegar stjórnvaldi hafa borist svör ber því að leggja sjálfstætt mat á það hvort skilyrði séu til þess að undanþiggja upplýsingarnar aðgangi á grundvelli 5. gr. eða 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga eða á grundvelli 3. tölul 6. gr. frumvarps þessa.
    Ákvæði 2. mgr. 6. gr. felur í sér reglu um álitsumleitan sem segja má að sé í raun nánari útfærsla á rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Sjálfstæð lagaleg þýðing reglunnar felst í því að þeim sem upplýsingarnar varða er skylt að svara fyrirspurn stjórnvaldsins.
    Frumvarpið er á því byggt að einvörðungu sá sem óskar eftir aðgangi að upplýsingum teljist aðili þess máls þar sem tekin verður ákvörðun um rétt hans til aðgangs að upplýsingunum. Aðild að málinu breytist ekki þótt óskað sé upplýsinga frá þeim sem upplýsingarnar varða á grundvelli 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.

    Ákvæði greinarinnar hafa sömu markmið og 8. gr. upplýsingalaga og eru byggð á sömu löggjafarsjónarmiðum. Þannig er á því byggt að aðgangur að upplýsingum um umhverfismál verði öllum heimill að tilteknum tíma liðnum enda er það í samræmi við þá framkvæmd sem víðast er tíðkuð. Stærstur hluti upplýsinga er þess eðlis að hagsmunirnir að baki vernd þeirra dvína með tímanum. Á sama tíma vex oft áhugi sagnfræðinga á þeim málum sem til meðferðar hafa verið og varpað geta ljósi á söguna. Með hliðsjón af þessu þykir rétt að leggja til að þrenns konar tímamörk gildi gagnvart aðgangi að upplýsingum sem háðar eru takmörkunum skv. 1.–3. tölul. 6. gr. frumvarpsins.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að veita skuli aðgang að gögnum sem 1. tölul. 6. gr. tekur til eftir ákvæðum 8. gr. upplýsingalaga, enda byggjast takmarkanir 1. tölul. 6. gr. á eyðutilvísun til 4.–6. gr. upplýsingalaga.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að veita skuli aðgang að gögnum sem 2. tölul. 6. gr. tekur til jafnskjótt og skjöl og gögn hafa verið fullgerð, nema önnur undantekningarákvæði taki jafnframt til þeirra.
    Í þriðja lagi er byggt á sömu löggjafarstefnu og fram kemur í 2. mgr. 8. gr. upplýsingalaga um að þagnarskyldar upplýsingar um umhverfismál verði almenningi aðgengilegar þegar liðin eru þrjátíu ár frá því að gögnin urðu til nema upplýsingarnar varði viðkvæma einkahagsmuni, en í því tilviki verða þær ekki aðgengilegar fyrr en að áttatíu árum liðnum frá því þær urðu til, sbr. 2. mgr. 8. gr. upplýsingalaga
    

Um 8. gr.

    Ákvæði greinarinnar er byggt á 2. mgr. 4. gr. tilskipunar 2003/4/EB, en þar er mælt svo fyrir að aðildarríkin megi ekki, með skírskotun til a-, d-, f-, g- og h-liðar 2. mgr., kveða á um að beiðni verði synjað ef beiðnin varðar upplýsingar um mengandi losun út í umhverfið.
    Hugtakið „mengandi losun“ er ekki skilgreint í tilskipun 2003/4/EB. Á því er byggt að undir hugtakið falli m.a. losun fastra og fljótandi efna, svo og lofttegunda sem skaðað geta umhverfið.
    Af ákvæði 8. gr. frumvarpsins leiðir að ekki er heimilt að takmarka aðgang að upplýsingum um mengandi losun út í umhverfið enda þótt slíkar upplýsingar geti skaðað ímynd eða samkeppnisstöðu þess fyrirtækis sem í hlut á. Ákvæði tilskipunar 2003/4/EB og frumvarps þessa er byggt á því að fyrirtæki eigi ekki réttmætra hagsmuna að gæta af því að halda slíkum upplýsingum leyndum þar sem þeir hagsmunir vegi þyngra að veita almenningi rétt til þess að fá aðgang að slíkum upplýsingum.

Um 9. gr.

    Ákvæði greinarinnar eru nánast samhljóða 7. gr. upplýsingalaga og er á því byggt að það verði skýrt á sambærilegan hátt. Ákvæði greinarinnar á sér að öðru leyti fyrirmynd í 4. tölul. 4. gr. tilskipunar 2003/4/EB, sbr. 17. tölul. formálsorða hennar.

Um 10. gr.

    Ákvæði 10. gr. er ætlað að innleiða 1.–2. mgr. 7. gr. tilskipunar 2003/4/EB, sbr. 21. tölul. formálsorða hennar. Vinna ber að því að stjórnvöld komi skipulagi á upplýsingar um umhverfismál sem tengjast starfsemi þeirra þannig að hægt sé að miðla þeim til almennings, t.d. á heimasíðu hlutaðeigandi stjórnvalds. Þannig er ætlunin að upplýsingar um umhverfismál verði smám saman aðgengilegar í rafrænum gagnagrunnum sem almenningur á auðvelt með að nálgast.

Um 11. gr.

    Í 11. gr. frumvarpsins er fjallað um form- og efniskröfur til beiðna um aðgang að upplýsingum um umhverfismál.
    Í 1. mgr. segir að sá sem fari fram á aðgang að upplýsingum um umhverfismál á grundvelli 5. gr. skuli tilgreina þær upplýsingar sem hann óskar eftir aðgangi að. Frumvarpið er frábrugðið upplýsingalögum að því leyti að ekki þarf að tilgreina þau gögn eða mál sem óskað er eftir aðgangi að. Samkvæmt frumvarpinu þarf einungis að tilgreina þær upplýsingar um umhverfismál sem óskað er eftir aðgangi að.
    Í 2. mgr. kemur fram að stjórnvald geti vísað frá erindi ef tilgreining þeirra upplýsinga sem óskað er eftir aðgangi að er of óljós til að hægt sé að afgreiða erindið. Áður en það er gert skal veita málsaðila leiðbeiningar þar um og gefa honum færi á að tilgreina beiðni sína nánar. Ákvæðið er byggt á 3. mgr. 3. gr. tilskipunar 2003/4/EB.
    Í 3. mgr. 11. gr. kemur fram sambærilegt ákvæði og er að finna í 2. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Þar segir að stjórnvald geti sett það skilyrði að beiðni um aðgang að upplýsingum sé skrifleg og komi fram á eyðublaði sem það leggur til.
    Í 4. mgr. 11. gr. kemur fram sama regla og í 3. mgr. 10. upplýsingalaga um það til hvaða stjórnvalds beri að beina beiðni um aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Þykir það til einföldunar að byggja á sömu reglu í frumvarpi þessu og upplýsingalögum.

Um 12. gr.

    Ákvæði 12. gr. frumvarpsins fjalla um málshraða og eru samhljóða ákvæðum 11. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996, að öðru leyti en því að lagt er til að afgreiðslufrestur verði 14 dagar. Um útreikning frests fer skv. 8. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. 4. mgr. 12. gr. frumvarpsins. Ástæða þess að hafður er lengri afgreiðslufrestur samkvæmt frumvarpi þessu en í upplýsingalögunum er sú að stjórnsýslumál er varða umhverfismál geta verið mikil að vöxtum og skjöl mörg og því getur tekið lengri tíma að afgreiða erindi um ljósrit og afrit gagna en mál sem falla undir upplýsingalögin. Tekið skal fram að skv. a-lið 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 2003/4/EB skal afgreiða erindi um aðgang að upplýsingum um umhverfismál svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en innan mánaðar frá móttöku erindis. Ef upplýsingar eru umfangsmiklar eða flókið að afgreiða erindið skal það afgreitt innan tveggja mánaða, sbr. b-lið 2. mgr. 3. gr. sömu tilskipunar. Í samræmi við þennan tveggja mánaða frest, svo og fyrirmæli 6. gr. tilskipunarinnar, er mælt svo fyrir í 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins að hafi beiðni um aðgang að upplýsingum ekki verið afgreidd 60 dögum eftir að hún barst stjórnvaldi sé aðila heimilt að kæra afgreiðsluna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem úrskurði þá um upplýsingarétt hans. Hunsi stjórnvald beiðni um aðgang að upplýsingum í 60 daga frá móttöku hennar leiðir af ákvæði 2. mgr. 12. gr. að farið er með málið eins og fyrir liggi synjun um aðgang að upplýsingunum.
    Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. tilskipunar 2003/98/EB um endurnot opinberra upplýsinga er mælt svo fyrir að þegar erindi er afgreitt um aðgang að upplýsingum um umhverfismál sem höfundaréttur tekur til skuli veita upplýsingar um nafn rétthafa liggi þær fyrir. Standi 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins í vegi fyrir því að veita megi aðgang að upplýsingum um umhverfismál, þar sem þriðji maður eða hið opinbera á höfundarétt að þeim, skulu stjórnvöld greina frá nafni rétthafa sem aðili máls getur þá snúið sér til.
    Í 4. mgr. 12. gr. er kveðið svo á að um málsmeðferð fari að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum. Á stjórnvöldum hvílir því t.d. leiðbeiningar- og rannsóknarskylda skv. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá ber stjórnvöldum ávallt að veita leiðbeiningar um kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál þegar ákvörðun er tilkynnt aðila máls ef beiðni er synjað, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.

Um 13. gr.

    Ákvæði 1. mgr. 13. gr. eru byggð á 4. mgr. 3. gr. tilskipunar 2003/4/EB og 5. gr. tilskipunar 2003/98/EB. Ákvæðið byggist á því að stjórnvöldum beri að veita aðgang að upplýsingum um umhverfismál á því formi eða með því sniði sem þær eru varðveittar á, nema þær séu þegar aðgengilegar almenningi. Þegar upplýsingar eru varðveittar á rafrænu formi getur aðili valið á milli þess að fá þær á því formi eða útprentaðar á pappír.
    Séu upplýsingarnar þegar aðgengilegar almenningi á öðru formi eða með öðru sniði, t.d. á heimasíðu stjórnvaldsins eða á annarri vefslóð, í útgefinni skýrslu eða riti er almennt fullnægjandi að vísa á upplýsingarnar þar, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. tilskipunar 2003/4/EB.
    Af ákvæði 1. mgr. 13. gr. leiðir að hægt er að óska eftir því að fá upplýsingarnar veittar munnlega eða fá að skoða þær. Ef upplýsingarnar liggja fyrir í skjölum er hægt að óska eftir ljósriti af þeim. Ef þær liggja fyrir á rafrænu formi er hægt að óska eftir afriti af þeim. Ef um er að ræða myndbandsspólu er hægt að óska eftir afriti af henni o.s.frv.
    Þegar þær upplýsingar um umhverfismál sem óskað er eftir aðgangi að eru fyrirliggjandi í fleiri gögnum er nægilegt að afhenda afrit eða ljósrit af einni gerð, enda sé með því komið til móts við þarfir málsaðila á viðhlítandi hátt.
    Í ákvæðum laganna felst engin skylda til þess að búa til gögn eða taka saman upplýsingar heldur aðeins að veita aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum, sbr. 1. mgr. 5. gr. tilskipunar 2003/98/EB.
    Almenningi er ávallt heimilt að skoða umbeðnar upplýsingar um umhverfismál sér að kostnaðarlausu, sbr. 1. mgr. 5. gr. tilskipunar 2003/4/EB. Á hinn bóginn er heimilt að taka gjald fyrir ljósrit og afrit á grundvelli gjaldskrár. Í 3. mgr. 13. gr. segir að umhverfisráðherra ákveði með gjaldskrá hvað greiða skuli fyrir ljósrit og afrit gagna þannig að mætt sé þeim kostnaði sem af því hlýst. Ákvæðið er á því byggt að heimilt sé í reglugerð að mæla fyrir um að allur kostnaður af gerð ljósrita og frumrita verði greiddur. Heimilt er þannig að reikna inn í verðið efniskostnað, launakostnað og eðlilegar afskriftir af þeim búnaði sem notaður er við afritun upplýsinga. Á hinn bóginn er ekki heimilt að taka hærra gjald en hlýst af því að veita umrædda þjónustu þar sem ekki er um að ræða skattlagningarheimild heldur heimild til töku þjónustugjalda. Er það og í samræmi við 2. mgr. 5. gr. tilskipunar 2003/4/EB, sbr. 18. tölul. formálsorða hennar, svo og 6. gr. tilskipunar 2003/98/EB.

Um 14. gr.

    Þar sem gerður er áskilnaður um að synjun á beiðni um aðgang að upplýsingum sé ávallt rökstudd samhliða því að tilkynnt er um hana, sbr. 5. mgr. 4. gr. tilskipunar 2003/4/EB, verður ekki hjá því komist að taka upp í frumvarpið ákvæði þessa efnis, þar sem stjórnsýslulögin gera stjórnvöldum einungis skylt að veita eftirfarandi rökstuðning eftir að tilkynnt hefur verið um synjunina að framkominni sérstakri beiðni aðila máls þar um. Af þessum sökum er svo fyrir mælt að ákvörðun stjórnvalds um að synja beiðni um aðgang að upplýsingum um umhverfismál, að hluta eða í heild, skuli rökstudd og tilkynnt skriflega. Tekið er fram að hið sama gildi ef synjað er beiðni um að láta aðila í té ljósrit eða afrit af gögnum. Þar sem stjórnsýslulögin gilda um meðferð slíkra mála ber að veita málsaðila leiðbeiningar um kæruheimild o.fl. skv. 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Um 15. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. tilskipunar 2003/4/EB er skylt að tryggja að lögum kæruheimild á ákvörðun stjórnvalds um að synja beiðni um aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Í 15. gr. er lagt til að ákvörðun um synjun beiðni um aðgang að upplýsingum, hvort heldur er að hluta eða í heild, verði kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um ljósrit af skjölum eða afrit af öðrum gögnum.
    Ótvíræðir kostir fylgja því að setja ekki á fót nýja úrskurðarnefnd heldur fela úrskurðarnefnd um upplýsingamál að úrskurða í slíkum málum, enda þótt hún heyri ekki stjórnarfarslega undir málefnasvið umhverfisráðherra eins og frumvarpið, ef að lögum verður, mun að öðru leyti gera. Ekki verður séð að vandamál eigi að fylgja slíku fyrirkomulagi þar sem úrskurðarnefndin er sjálfstæð í störfum sínum, sbr. 2. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996.
    Í 2. mgr. 15. gr. frumvarpsins er áréttað að um meðferð mála gildi ákvæði 14.–19. gr. upplýsingalaga.

Um 16. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 17. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um gildistöku og lagaskil.
    Í 2. mgr. eru lagaskilin ákveðin með sama hætti og gert var í 2. mgr. 24. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996.

Um 18. gr.

    Í greininni koma fram ákvæði sem breyta öðrum lögum.
    Í 1. tölul. er mælt fyrir um að bætt verði við upplýsingalög heimild til að takmarka aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Lagt er til að við 6. gr. upplýsingalaga bætist nýr töluliður þar sem tekið verði af skarið um að réttur almennings taki ekki til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál ef birting þeirra getur haft alvarleg áhrif á vernd þess hluta umhverfisins sem slíkar upplýsingar varða, t.d. heimkynni fágætra tegunda lífvera. Ákvæðið er byggt á h- lið 2. mgr. 4. gr. tilskipunar 2003/4/EB. Á grundvelli ákvæðisins er t.d. heimilt að undanþiggja upplýsingar um varpstöðvar fágætra fugla ef hætta er talin á að upplýsingarnar verði notaðar til lögbrota, svo sem ólögmætrar eggjatöku. Jafnframt er lagt til að við 8. gr. upplýsingalaga bætist ný málsgrein þar sem þessar takmarkanir falli niður þegar ekki er lengur ástæða til að ætla að miðlun upplýsinga geti haft skaðleg áhrif á umhverfið.
    Í 2. tölul. greinarinnar er lagt til að 30. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, verði breytt þannig að ákvæðið vísi ekki til eldri laga um efnið heldur til nýrra laga sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu.
    Í 3. tölul. er lögð til breyting á lögum nr. 66/1985, um Þjóðskjalasafn Íslands. Markmið frumvarpsins er að ákvæði laganna taki einnig til upplýsinga um umhverfismál sem eru í vörslum safnsins.
    Í 4. tölul. er lögð til breyting á höfundalögum, nr. 73/1972. Með 5. tölul. 25. gr. upplýsingalaga var tekið í höfundalög ákvæði um að fyrirmæli laganna um höfundavernd girði ekki fyrir að upplýsingar séu látnar í té, hvort heldur samkvæmt upplýsingalögum eða öðrum lögum, t.d. stjórnsýslulögum. Hins vegar var skýrt tekið fram að þeim sem fengi aðgang að upplýsingunum væri óheimilt að hagnýta sér þær þannig að það færi í bága við almenn fyrirmæli höfundalaga um rétt höfunda yfir verkum sínum.
    Þegar lögin voru sett voru gildandi lagareglur um upplýsingarétt almennt þannig úr garði gerðar að þær veittu einvörðungu aðgang að upplýsingum í tilteknum málum en ekki aðgang að skrám eða gagnagrunnum. Frá þessu var þó sú undantekning að 9. gr. þágildandi laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, sbr. nú 18. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, veitti hinum skráða samkvæmt framangreindum lögum aðgang að upplýsingum um hann sjálfan í skrám og gagnagrunnum þótt frá því væru ákveðnar undantekningar. Þar sem sá aðgangsréttur veitir almennt aðeins aðgang að upplýsingum um hinn skráða en hvorki að skrám né gagnagrunnum í heild né heldur heimild til þess að afrita þá í heild eða að stórum hluta, skerðir sá aðgangsréttur yfirleitt ekki lögvarinn höfundarétt, enda tekur höfundaréttur ekki til upplýsinga um staðreyndir.
    Þar sem frumvarp þetta hefur þær breytingar í för með sér að aðgangur verður ekki aðeins veittur að upplýsingum um umhverfismál, sem finna má í stjórnsýslumálum og öðrum málum, heldur einnig skrám og gagnagrunnum verður ekki hjá því komist að breyta ákvæði 22. gr. a í höfundalögum þannig að tekið sé af skarið um að ákvæðið takmarkist við upplýsingar í málum (n. dokumentinnsyn), líkt og gert er í 27. gr. norsku höfundalaganna. Að öðrum kosti skerðist verulega höfundarvernd gagnagrunna skv. 3. mgr. 6. gr. höfundalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 60/2000 og 50. gr. höfundalaga, sbr. 10. gr. laga nr. 60/2000, varði efni gagnagrunnsins upplýsingar um umhverfismál. Breytingin er einnig nauðsynleg til að stjórnvöld geti virt þjóðréttarlegar skuldbindingar sínar á sviði höfundaréttar, svo sem tilskipun 96/9/EB um lögverndun gagnagrunna.
    Rétt þykir í lokamálslið ákvæðisins að taka af skarið um að fyrirmæli höfundalaga um höfundarvernd girði ekki fyrir aðgang hins skráða að upplýsingum um hann sjálfan á grundvelli 18. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Ákvæðið felur í sér mjög óverulega takmörkun á höfundarétti þar sem sjaldan reynir á hann þegar veittur er aðgangur að persónuupplýsingum.



Fylgiskjal I.


Dæmi um sérákvæði laga um þagnarskyldu.


Lög nr. 9/1940, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að banna
að veita upplýsingar um ferðir skipa.

1. gr.

    Ríkisstjórnin getur, er hún telur nauðsynlegt vegna yfirvofandi eða yfirstandandi ófriðar eða hliðstæðs ástands, fyrirskipað, að enginn megi láta neitt uppi við óviðkomandi menn um ferðir íslenskra eða erlendra skipa.
    Nú notar ríkisstjórnin heimild þá, sem henni er veitt í lögum þessum, og taka þá bannfyrirmæli hennar til allra upplýsinga um burtför skips úr höfn, um ferð þess frá einni höfn til annarrar, um það hvar skipið er statt á hverjum tíma, um ákvörðunarstað þess og komu í höfn í ferð eða að lokinni ferð, svo og til allra upplýsinga um farm skips og farþega.

2. gr.

    Ríkisstjórninni er heimilt að gera allar þær ráðstafanir, sem henni þykir þurfa, til þess að bannfyrirmæli þau, sem um ræðir í 1. gr., komi að haldi, þar á meðal að láta stöðva símskeyti um ferðir skipa, ef þurfa þykir.

Almenn hegningarlög, nr. 19/1940.

91. gr., sbr. 23. gr. laga nr. 82/1998.

    Hver, sem kunngerir, skýrir frá eða lætur á annan hátt uppi við óviðkomandi menn leynilega samninga, ráðagerðir eða ályktanir ríkisins um málefni, sem heill þess eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin, eða hafa mikilvæga fjárhagsþýðingu eða viðskipta fyrir íslensku þjóðina gagnvart útlöndum, skal sæta fangelsi allt að 16 árum.
    Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem falsar, ónýtir eða kemur undan skjali eða öðrum munum, sem heill ríkisins eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin.
    Sömu refsingu skal enn fremur hver sá sæta, sem falið hefur verið á hendur af íslenska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri.
    Hafi verknaður sá, sem í 1. og 2. málsgrein hér á undan getur, verið framinn af gáleysi, skal refsað með fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef sérstakar málsbætur eru fyrir hendi.

115. gr., sbr. 38 gr. laga nr. 82/1998.

    Hver, sem opinberlega skýrir heimildarlaust eða vísvitandi rangt frá því, sem fram hefur farið við kosningar þær og atkvæðagreiðslur, sem í 102. gr. getur, eða því, sem gerst hefur á fundum eða starfi opinberra samkomna, nefnda, stjórnvalda eða dómstóla, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.

230. gr., sbr. 122 gr. laga nr. 82/1998.

    Ef maður, sem hefur eða haft hefur með höndum starf, sem opinbera skipun, leyfi eða viðurkenningu þarf til að rækja, segir frá einhverjum einkamálefnum, sem leynt eiga að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári. Sömu refsingu varðar einnig sams konar verknaður þeirra manna, sem aðstoðað hafa ofangreinda menn í starfi þeirra.

Lög nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.

63. gr., sbr. 1. gr. laga nr. 107/1974.

    Ekki er heimilt að veita upplýsingar um rannsóknir, sem kostaðar eru af einstaklingi, félagi eða stofnun, nema með samþykki hennar. Ef þagnarskylda er brotin, varðar það ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um opinbera starfsmenn og skaðabótaskyldu.

Hjúkrunarlög, nr. 8/1974.

6. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 32/1975.

    Hjúkrunarfræðingum er skylt að gæta fyllstu þagmælsku um öll einkamál, er þeir fá vitneskju um í starfi sínu, nema lög bjóði annað, og helst þagnarskyldan, þótt þeir láti af starfi.
    Skylda til þess að bera vitni fyrir rétti er takmörkuð í samræmi við þetta og ákvæði réttarfarslaga um vitnaskyldu embættis- og sýslunarmanna og sérákvæði slíkra laga um lækna.

Lög nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir
og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir.

27. gr.

    Allir þeir, sem starfa á einn eða annan hátt að framkvæmd laga þessara, eru bundnir þagnarskyldu um öll persónuleg málefni, sem þeir í því sambandi kunna að fá vitneskju um.

Lög nr. 35/1978, um lyfjafræðinga.

12. gr.

    Lyfjafræðingar, aðstoðarlyfjafræðingar og lyfsalar eru bundnir þagnarskyldu að viðlagðri ábyrgð samkvæmt 136. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um alla vitneskju eða grun um sjúkdóma eða önnur einkamál, sem þeir kunna að öðlast í starfi. Þeir skulu þó skýra landlækni og Lyfjaeftirliti ríkisins eða öðru yfirvaldi frá vitneskju sinni, ef ætla má, að einstaklings- eða almannaheill krefjist. Þeim ber skylda til að tjá sig fyrir dómi samkvæmt ákvæðum gildandi laga. Ef lyfjafræðingur eða aðstoðarlyfjafræðingur starfar á vegum lyfsala eða forstöðumanns, sbr. 9. gr., skal hann skýra lyfsalanum eða forstöðumanninum frá vitneskju sinni, en hann síðan tilkynna landlækni, lyfjaeftirliti eða öðrum yfirvöldum.
    Ákvæði 1. mgr. um þagnarskyldu taka og til lyfjatækna, meinatækna, ritara og annarra samstarfsmanna lyfjafræðinga, aðstoðarlyfjafræðinga eða lyfsala, er vegna starfa sinna kunna að öðlast sömu vitneskju um sjúkdóma og einkamál manna.

Tollalög, nr. 55/1987.

141. gr.

    Tollstarfsmönnum er bannað, að viðlagri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi, að skýra óviðkomandi aðilum frá því sem þeir komast að í starfi sínu um verslunarhagi einstakra manna og fyrirtækja, þar með talin hvers konar vitneskja sem ráða má af samritum af sölu- og vörureikningum sem tollyfirvöld halda eftir.

Lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

44. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 119/1989 og 2. gr. laga nr. 51/2002.

    Skatt- og tollyfirvöldum, starfsmönnum þeirra og erindrekum er bannað, að viðlagri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um opinbera starfsmenn, að skýra óviðkomandi mönnum frá því er þeir komast að í starfi sínu um viðskipti einstakra manna og fyrirtækja. Þagnarskyldan helst þó að starfsmenn þessir láti af starfi sínu.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu skatt- og tollyfirvöld veita Hagstofu Íslands upplýsingar er varða skýrslugerð hennar.

Læknalög, nr. 53/1988.

15. gr.

    Lækni ber að gæta fyllstu þagmælsku og hindra það að óviðkomandi fái upplýsingar um sjúkdóma og önnur einkamál er hann kann að komast að sem læknir.
    Þetta gildir ekki bjóði lög annað eða sé rökstudd ástæða til þess að rjúfa þagnarskyldu vegna brýnnar nauðsynjar.
    Samþykki sjúklings, sem orðinn er 16 ára, leysir lækni undan þagnarskyldu. Að öðrum kosti þarf samþykki forráðamanna.
    Læknir verður ekki leiddur fram sem vitni í einkamálum gegn vilja sjúklings nema ætla megi að úrslit málsins velti á vitnisburði hans eða málið sé mikilvægt fyrir málsaðila eða þjóðfélagið, hvort tveggja að mati dómara. Í slíkum tilvikum ber lækni að skýra frá öllu sem hann veit og telur að hugsanlega geti haft áhrif á málið. Slíkur vitnisburður skal fara fram fyrir luktum dyrum.
    Læknir getur þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar veitt öðrum heilbrigðisstéttum upplýsingar sé um að ræða rannsóknir og meðferð sjúklinga.
    Sama þagnarskylda gildir fyrir aðrar heilbrigðisstéttir og aðra sem vinna með lækni.
    Þagnarskylda fellur ekki niður við lát sjúklings. Mæli ríkar ástæður með því getur læknir látið í té upplýsingar með hliðsjón af vilja hins látna og hagsmunum viðkomandi. Sé læknir í vafa getur hann borið málið undir landlækni.

Lög nr. 63/1989, um Hagþjónustu landbúnaðarins.

9. gr.

    Stjórn og starfsmönnum Hagþjónustu landbúnaðarins, svo og starfsmönnum þeirra bókhaldsstofa sem sjá um uppgjör búreikninga, er bannað að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um embættis- og sýslunarmenn að skýra óviðkomandi aðilum frá því er þeir komast að sökum starfa síns um efnahag, tekjur eða gjöld einstakra manna eða stofnana. Skulu þeir ætíð gæta þess að fara með upplýsingar og gögn frá bændum sem trúnaðarmál.

Lög nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga.

60. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 34/1997.

    Fulltrúar í félagsmálanefndum og starfsmenn skulu varðveita málsgögn, er varða persónulega hagi einstaklinga, með tryggilegum hætti þannig að óviðkomandi fái þar ekki aðgang. Hafi þeir kynnst einkamálum skjólstæðinga í starfi er þeim óheimilt að ræða þau mál við óviðkomandi aðila nema að fengnu samþykki skjólstæðings eða forráðamanna hans.

Lög nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

14. gr.

    Umsækjendur um lán skulu láta fylgja umsókn sinni allar þær upplýsingar sem sjóðstjórn telur máli skipta við ákvörðun um veitingu námsláns.
    Umsækjendur skulu tilgreina í lánsumsókn hvort þeir óski eftir fullu láni samkvæmt reglum sjóðsins eða lægri fjárhæð.
    Innlendum skólum, sem lög þessi taka til, er skylt að láta Lánsjóði í té nauðsylega aðstoð við framkvæmd laganna, þar á meðal upplýsingar um framvindu náms umsækjenda.
    Skattstjórum er skylt að láta Lánasjóði í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laga þessara.
    Með einstaklingsbundnar upplýsingar, sem Lánasjóði eru látnar í té samkvæmt þessari grein, skal farið með sem trúnaðarmál.

Lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

19. gr.

    Starfsmönnum yfirskattanefndar er bannað að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi að skýra óviðkomandi aðilum frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara, þar á meðal um tekjur og efnahag skattaðila. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. Hafi óviðkomandi aðili lagaheimild til að krefja yfirskattanefnd ofangreindra upplýsinga skal sama þagnarskylda hvíla á þeim sem fær slíkar upplýsingar nema ríkari þagnarskylda hvíli á honum að lögum.

Lög nr. 87/1992, um gjaldeyrismál.

15. gr.

    Þeir sem annast framkvæmd þessara laga eru bundir þagnarskyldu um hagi einstakra viðskiptamanna og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli málsins, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

Samkeppnislög, nr. 8/1993.

27. gr.

    Óheimilt er í atvinnustarfsemi er lög þessi taka til að afla sér eða reyna að afla sér með ótilhlýðilegum hætti upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmálum starfseminnar.
    Sá sem fengið hefur vitneskju um eða umráð yfir atvinnuleyndarmálum á réttmætan hátt í starfi sínu fyrir annan eða í félagi við annan, sbr. 1. mgr., má ekki án heimildar veita upplýsingar um eða hagnýta sér slík leyndarmál. Bann þetta gildir í þrjú ár frá því að starfi er lokið eða samningi slitið.
    Þeim sem vegna starfs síns eða stöðu að öðru leyti hefur verið trúað fyrir uppdráttum, lýsingu, uppskriftum, líkönum eða þess háttar er óheimilt að hagnýta sér eða veita öðrum afnot af slíku án sérstakrar heimildar.
    Nú hefur upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmáli verið aflað á þann hátt að brotið hefur verið gegn ákvæðum 1.–3. mgr. og er þá þeim sem brotlegur er eða þeim sem fengið hafa upplýsingar frá honum óheimilt að færa sér það í nyt.

Lög nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

3. mgr. 25. gr.

    Þeim sem sveitarstjórn felur að annast störf þessi er bannað, að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi, að skýra óviðkomandi mönnum frá því er þeir komast að í störfum sínum og varðar hagi skattaðila.

Lög nr. 66/1995, um grunnskóla.

2. mgr. 45. gr.

    Óheimilt er að veita upplýsingar um vitnisburði einstakra nemenda öðrum en þeim sjálfum og forráðamönnum þeirra nema nauðsyn beri til vegna flutnings nemenda milli skóla. Þó skal heimilt að veita fræðsluyfirvöldum þessar upplýsingar og öðrum vegna fræðilegra rannsókna enda sé krafist fullrar þagnarskyldu.

Lög nr. 93/1995, um matvæli.

2. mgr. 24. gr.

    Eftirlitsaðilar eru bundnir þagnarskyldu um atriði er varða framleiðslu- og verslunarleynd er þeir kunna að komast að við leyfisveitingar, sbr. VIII. kafla, og framkvæmd eftirlits.

Lög nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.

26. gr., sbr. 17. gr. laga nr. 68/2004.

    Starfsmenn skoðunarstofu og tilnefndra aðila, Löggildingarstofu og eftirlitsstjórnvalda eru bundnir þagnarskyldu um atriði er viðskiptaleynd hvílir yfir og fram koma við rannsókn og meðferð máls.

Lög nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar.

26. gr.

    Skattstjórum, Tryggingastofnun ríkisins, Innheimtustofnun sveitarfélaga og hlutaðeigandi lífeyrissjóðum er skylt að láta Atvinnuleysistryggingasjóði og úthlutunarnefndum í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laga þessara.
    Með einstaklingsbundnar upplýsingar, sem Atvinnuleysistryggingasjóði eru látnar í té samkvæmt þessari grein, skal farið sem trúnaðarmál.

Lög nr. 13/1997, um vinnumarkaðsaðgerðir.

1. mgr. 18. gr.

    Allar upplýsingar, sem svæðisvinnumiðlun fær í starfi sínu, hvort sem þær snerta einkamál eða viðskiptahagsmuni, skulu vera trúnaðarmál vinnumiðlunar og þess er upplýsingar veitir að öðru leyti en því sem snertir bein tengsl við miðlun vinnu og starfsráðningar.

Lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

1 mgr. 16. gr.

    Þeir sem starfa samkvæmt lögum þessum eru bundnir þagnarskyldu um atriði er varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls.

Lög nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.

1. mgr. 17. gr.

    Forsvarsmönnum starfs- og vinnsluleyfishafa, sbr. 14. gr., er skylt að veita Fiskistofu og samningsbundinni skoðunarstofu allar þær upplýsingar og þá aðstoð sem nauðsynleg er við framkvæmd eftirlits og skoðunar, þar með talinn aðgang að hverjum þeim stað þar sem sjávarafurðir eru unnar eða geymdar. Fiskistofa og skoðunarstofur fara með upplýsingar þær sem leynt eiga að fara sem trúnaðarmál.

Lög nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

13. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 11/2000.
Þagnarskylda.

    Stjórn, forstjóri og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um opinbera starfsmenn skýra óviðkomandi aðilum frá því er þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um starfsemi Fjármálaeftirlitsins, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Sama gildir um lögmenn, endurskoðendur, tryggingastærðfræðinga og sérfræðinga sem starfa fyrir eða á vegum Fjármálaeftirlitsins. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi og er óheimilt að nýta í atvinnuskyni upplýsingar sem bundnar eru þagnarskyldu.
    Upplýsingar sem háðar eru þagnarskyldu samkvæmt lögum sem gilda um eftirlitsskylda aðila eru háðar sambærilegri þagnarskyldu þegar þær hafa verið afhentar Fjármálaeftirlitinu.
    Upplýsingar skv. 1. mgr. má veita í samandregnu formi þannig að einstakir eftirlitsskyldir aðilar séu ekki auðkenndir.
    Þegar eftirlitsskyldur aðili er gjaldþrota eða þvinguð slit fara fram er heimilt við rekstur einkamála að upplýsa um atriði sem þagnarskylda gildir annars um skv. 1. mgr. Þagnarskyldan gildir þó um upplýsingar sem varða þriðja aðila sem á hlut að björgunaraðgerðum vegna eftirlitsskylds aðila.
    Opinber umfjöllun af hálfu þess aðila sem þagnarskyldunni er ætlað að vernda um trúnaðarupplýsingar veitir starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins eða sérfræðingum sem starfa eða starfað hafa á vegum þess ekki heimild til að láta af hendi trúnaðarupplýsingar.

Lög nr. 68/2000, um rannsókn sjóslysa.

3. mgr. 3. gr., sbr. 1. gr. laga nr. 57/2003.

    Rannsóknarnefnd sjóslysa, starfslið hennar og aðrir sem starfa í þágu nefndarinnar skulu virða þagnarskyldu um atvik sem þeim verða kunn vegna starfa fyrir nefndina. Tekur þetta til hvers konar upplýsinga um einkahagi manna og annarra upplýsinga sem leynt eiga að fara vegna lögmætra einka- og almannahagsmuna. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. Um aðgang að rannsóknargögnum fer samkvæmt ákvæðum 13. gr.

Lög nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands.

35. gr.

    Bankaráðsmenn, bankastjórar og aðrir starfsmenn Seðlabanka Íslands eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    Bankaráðsmönnum, bankastjórum og öðrum starfsmönnum Seðlabankans er óheimilt að nýta sér trúnaðarupplýsingar, sem þeir komast yfir vegna starfs síns í bankanum, í þeim tilgangi að hagnast eða forðast fjárhagslegt tjón í viðskiptum.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Seðlabankanum heimilt að eiga gagnkvæm upplýsingaskipti við opinbera aðila erlendis um atriði sem lög þessi taka til að því tilskildu að sá sem óskar upplýsinga sé háður samsvarandi þagnarskyldu.
    Seðlabanki Íslands skal veita Fjármálaeftirlitinu allar upplýsingar sem bankinn býr yfir og nýtast kunna í starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Upplýsingar sem veittar eru samkvæmt þessari grein eru háðar þagnarskyldu samkvæmt lögum þessum og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið skulu gera með sér samstarfssamning þar sem m.a. er kveðið nánar á um samskipti stofnananna.

Barnaverndarlög, nr. 80/2002.

8. mgr. 4. gr.

    Allir þeir sem vinna að barnavernd skulu gæta fyllsta trúnaðar um hagi barna, foreldra og annarra sem þeir hafa afskipti af.

Raforkulög, nr. 65/2003.

29. gr.
Þagnarskylda.

    Starfsmenn stofnana sem annast eftirlit á grundvelli laga þessara eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi skýra óviðkomandi frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um viðskipti og rekstur aðila sem þeir hafa eftirlit með. Sama gildir um sérfræðinga sem starfa á vegum stofnananna eða aðra þá sem sinna eftirliti fyrir þær, svo sem starfsmenn faggiltra skoðunarstofa.

Lög nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun.

8. gr.
Þagnarskylda og samskipti við eftirlitsstjórnvöld.

    Starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki að viðlagðri ábyrgð skýra óviðkomandi frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um viðskipti og rekstur aðila sem þeir hafa eftirlit með. Sama gildir um endurskoðendur og aðra sérfræðinga sem starfa á vegum stofnunarinnar. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum.
    Með gögn og aðrar upplýsingar, t.d. að því er varðar viðskiptahagsmuni sem stofnunin aflar við eftirlit eða af öðrum ástæðum, skal fara sem trúnaðarmál.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að birta tölfræðilegar upplýsingar um magn fjarskipta og pósts og skulu fjarskiptafyrirtæki og póstrekendur láta stofnuninni í té slíkar upplýsingar.
    Þrátt fyrir lagaákvæði um þagnarskyldu má veita eftirlitsstjórnvöldum í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og Alþjóðaviðskiptastofnuninni upplýsingar sé það liður annaðhvort í samstarfi ríkjanna um eftirlit með starfsemi eftirlitsskyldra aðila eða við úrlausn einstakra mála og slík upplýsingagjöf er nauðsynleg til að unnt sé að framfylgja lögmæltu eftirliti. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda einnig um skipti á upplýsingum við eftirlitsstjórnvöld hér á landi. Póst- og fjarskiptastofnun er því aðeins heimilt að veita eftirlitsstjórnvöldum upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein að sá sem upplýsingarnar fær sé háður sams konar þagnarskyldu.
    Þagnarskylda samkvæmt lögum þessum skal ekki vera því til fyrirstöðu að Póst- og fjarskiptastofnun gefi fulltrúum Eftirlitsstofnunar EFTA sem fjalla um póst- og fjarskiptamál allar upplýsingar sem eru nauðsynlegar við framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að skiptast á upplýsingum við sambærilegar stofnanir innan Evrópska efnahagssvæðisins og samningsríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar að því marki að ekki sé um trúnaðarupplýsingar að ræða.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur í starfi sínu krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal frá skattyfirvöldum og tollyfirvöldum, óháð þagnarskyldu þeirra.

Lög nr. 81/2003, um fjarskipti.

47. gr.
Öryggi og þagnarskylda.

    Fjarskiptafyrirtæki sem veita almenna fjarskiptaþjónustu skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja öryggi þjónustunnar í samráði við rekstraraðila fjarskiptaneta ef við á. Ef sérstök hætta er á að leynd fjarskipta á tilteknu neti verði rofin skal þjónustuveitandinn upplýsa áskrifendur um hættuna.
    Öllum sem starfa við fjarskiptavirki, hvort sem um er að ræða starfsmenn fjarskiptafyrirtækja eða aðra, er skylt, bæði meðan þeir gegna starfi og eftir að þeir hafa látið af því, að halda leyndu fyrir óviðkomandi aðilum öllu því sem um fjarskiptavirkin fer, hvort sem um er að ræða efni skeyta eða samtala eða hvort fjarskipti hafa átt sér stað og á milli hverra.
    Ekki má án undangengins dómsúrskurðar heimila óviðkomandi aðilum að sjá skeyti, önnur skjöl eða annála um sendingar sem um fjarskiptavirkin fara eða hlusta á fjarskiptasamtöl eða hljóðrita þau. Um aðgang lögreglu að upplýsingum um fjarskipti skal fara samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.
    Enginn sem starfar við fjarskiptavirki, net eða þjónustu má skjóta undan skeytum, gögnum, myndum eða öðrum merkjum sem afhent eru til fjarskiptaflutnings eða liðsinna öðrum við þess konar athæfi.
    Sá sem fyrir tilviljun, mistök eða án sérstakrar heimildar tekur við símskeytum, myndum eða öðrum fjarskiptamerkjum og táknum eða hlustar á símtöl má ekki skrá neitt slíkt hjá sér eða notfæra sér það á nokkurn hátt. Jafnframt ber honum að tilkynna sendanda að upplýsingar hafi ranglega borist sér. Skylt er að gæta fyllsta trúnaðar í slíkum tilfellum.

Lög nr. 83/2003, um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

7. gr.

    Starfsfólki Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins ber að gæta þagnarskyldu um atvik er varða lögmæta einkahagsmuni skjólstæðinga stofnunarinnar eða aðstandenda þeirra sem því verða kunn í starfi. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    Um trúnað, þagnarskyldu, varðveislu persónuupplýsinga, upplýsingagjöf og afhendingu gagna fer að öðru leyti eftir ákvæðum í lögum um réttindi sjúklinga og lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Um upplýsingaskyldu og afhendingu gagna fer jafnframt eftir barnalögum og barnaverndarlögum.

Lög nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt.

117. gr.

    Skattstjórum, umboðsmönnum skattstjóra, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins og yfirskattanefnd er bannað, að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi, að skýra óviðkomandi mönnum frá því er þeir komast að í sýslan sinni um tekjur og efnahag skattaðila. Hið sama gildir um þá er veita þessum aðilum aðstoð við starf þeirra eða á annan hátt fjalla um skattframtöl. Þagnarskyldan helst þótt menn þessir láti af störfum.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu skattyfirvöld gefa Hagstofu Íslands skýrslur, í því formi er Hagstofa Íslands ákveður, um framtaldar tekjur og eignir, álagða skatta og önnur atriði er varða skýrslugerð hennar. Þá er skattyfirvöldum heimilt að veita gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands upplýsingar er nauðsynlegar eru til eftirlits með gjaldeyrismálum, enda standi ákvæði milliríkjasamninga ekki í vegi fyrir því.

Lög nr. 27/2004, um aðild starfsmanna að Evrópufélögum.

19. gr.
Þagnarskylda.

    Fulltrúum í sérstöku samninganefndinni eða fulltrúanefndinni og sérfræðingum, sem eru þeim til aðstoðar, er óheimilt að láta af hendi upplýsingar sem þeim hafa verið veittar í trúnaði.
    Hið sama gildir um fulltrúa starfsmanna í tengslum við upplýsingamiðlun og samráð.
    Þessi kvöð fylgir einstaklingum hvar sem þeir kunna að vera og einnig eftir að umboð þeirra skv. 1. og 2. mgr. er á enda.

Lög nr. 35/2004, um rannsókn flugslysa.

1. mgr. 9. gr.

    Rannsóknarnefnd flugslysa, starfslið hennar og aðrir sem starfa í þágu nefndarinnar skulu virða þagnarskyldu um þau atvik sem þeim verða kunn vegna starfa fyrir nefndina. Tekur þetta til hvers konar upplýsinga um einkahagi manna og annarra upplýsinga sem leynt eiga að fara vegna lögmætra einka- og almannahagsmuna. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

Lög nr. 50/2004, um siglingavernd.

4. mgr. 4. gr.

    Áður en Siglingastofnun Íslands staðfestir áhættumat og verndaráætlun skv. 3. mgr. skal hún leita umsagnar ríkislögreglustjóra. Siglingastofnun skal gæta þess að kröfum um leynd og varðveislu verndaráætlana og annarra trúnaðarupplýsinga sé fullnægt. Siglingastofnun annast öll samskipti við Alþjóðasiglingamálastofnunina um siglingavernd, þ.m.t. að senda lögboðnar tilkynningar o.s.frv.



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um upplýsingarétt um umhverfismál.

    Í frumvarpinu er lagt til að stjórnvöldum verði skylt að veita almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál með ákveðnum takmörkunum þó. Miðað er við að aðgangur sé veittur að upplýsingum á því formi sem þær eru varðveittar á. Óski aðili eftir afriti af skjölum eða öðrum gögnum skal hann greiða kostnað við afritunina eftir gjaldskrá sem umhverfisráðherra setur og er gert ráð fyrir að gjaldið standi undir afritunarkostnaði.
    Miðað við framangreindar forsendur munu tekjur ríkissjóðs fyrir afritun gagna standa undir útgjöldum vegna þess og frumvarpið því ekki hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.