Málefni Byrgisins, þingstörfin fram undan o.fl.

Fimmtudaginn 18. janúar 2007, kl. 11:32:12 (3427)


133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þinghaldið fram undan o.fl.

[11:32]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hér hljóðs undir liðnum um fundarstjórn forseta og vil lýsa því yfir að mér finnst fundarstjórn forseta fullkomlega hagað með eðlilegum hætti og nefni það sérstaklega að í dag er fimmtudagur og þá er eðlilegur þingfundatími kl. 10.30 þegar fundað er á fimmtudögum. Það á einnig við um föstudaga, þá byrja menn kl. 10.30 þannig að þetta er með fullkomlega eðlilegum hætti.

Hér hefur verið kvartað undan því að ekki hafi verið gefinn eðlilegur tími til fundarhalda fyrir nefndir. Það hefur verið gert. Í morgun gátu nefndir fundað a.m.k. í tvo tíma, jafnvel rúmlega það ef vilji var fyrir hendi. Á morgun gefst tími til fundarhalda fyrir nefndir og síðan eftir helgi eftir þörfum.

Þessi fundarstjórn forseta er með fullkomlega eðlilegum hætti og ásakanir um annað eru ekki við hæfi, ég tala nú ekki um það orð sem menn hafa tamið sér svolítið í þessari umræðu núna, orðið herlög. Það er ekki við hæfi í Alþingi Íslendinga að tala svona. (Gripið fram í.) Ég fer þess á leit við þingmenn að menn hætti nú slíku tali.

Síðan, eins og hér hefur verið nefnt, er fundur forseta með þingflokksformönnum nú klukkan eitt. Þar verður auðvitað farið yfir fyrirkomulag þinghaldsins fram undan. Ég á þá von á því að það komi í ljós hver vilji þingflokksformanna er í þinghaldinu og menn hafi eðlilegt samráð um það eins og venja er til í þinginu.