Málefni Byrgisins, þingstörfin fram undan o.fl.

Fimmtudaginn 18. janúar 2007, kl. 11:47:07 (3432)


133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þingstörfin fram undan o.fl.

[11:47]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er eðlilegt að taka undir það með virðulegum forseta að hér má um margt bæta verklag en ég held að virðulegur forseti hljóti að vera sammála okkur mörgum um það að inngrip forseta í þetta mál með viðtalinu í gær hafi ekki verið heppilegt, tímasetningin hafi ekki verið heppileg. Eins og fram kom í máli hv. þm. Marðar Árnasonar var eiginlega óhjákvæmilegt að skilja þessi orð sem hótun og það er auðvitað ekki heppilegt þegar mál standa eins og þau standa hér í dag.

Það er eðlilegt að umræðum séu settar skynsamlegar skorður. Ég held að flestir hafi tekið undir það og það er verið að vinna, að því er ég hélt, í málinu í samstöðu um það að reyna að finna sameiginlega lausn. En það er eðlilegt að virðulegur forseti sé spurður að því hvort virðulegur forseti hafi ekki velt því fyrir sér hvort hugsanlegt sé að embættið sem slíkt hafi kannski ekki staðið fullkomlega rétt að máli og beri þar af leiðandi einhvern hluta ábyrgðar á því hvernig á því standi að mál standa eins og þau standa í dag. Virðulegur forseti segir nefnilega í viðtalinu: En að hluta til skapast þessi staða að mínu mati vegna þess að í þingsköpum eru engar takmarkanir ræðutíma. Að hluta til, virðulegur forseti, þannig að það er kannski eðlilegt að virðulegur forseti segi okkur hvaða aðrir hlutar eiga þar hlut að máli.

Ég held að það hljóti að skipta miklu máli hvaða verklag virðulegur forseti hefur hverju sinni. Það hefur margoft verið bent á það að mjög margir hv. þingmenn í stjórnarandstöðu hafa of oft að mínu mati upplifað störf virðulegs forseta þannig að í raun sé verið að keyra þingmál áfram fyrir hönd framkvæmdarvaldsins. Margvísleg rök hafa verið færð fyrir því og ég held að einmitt þegar um mál eins og það sem við erum með á dagskrá í dag er að ræða reyni verulega á embætti forseta.

Ég velti fyrir mér og spekúlera hvort það sé ekki eðlilegt, og ég vona að virðulegur forseti taki það upp í þeim starfshópi sem nú vinnur að endurskoðun þingskapa, að virðulegur forseti sé kjörinn með auknum meiri hluta í þingsal þannig að það sé tryggt að um það embætti ríki gífurleg samstaða, að stjórn og stjórnarandstaða komi sér að hluta til saman um þetta embætti þannig að það sé tryggt að forseti leiti stuðnings í báðar fylkingar. Þannig geti virðulegur forseti í sann verið forseti allra þingmanna. Og ef viðkomandi virðulegur forseti stenst ekki þá kröfu geti minni hlutinn hreinlega haft neitunarvald ef minni hlutinn er nægjanlega stór til þess. Þetta held ég, virðulegur forseti, að væri ástæða til að skoða í ljósi þeirra atburða sem hér hafa (Forseti hringir.) átt sér stað.