Vatnajökulsþjóðgarður

Þriðjudaginn 23. janúar 2007, kl. 16:46:48 (3691)


133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[16:46]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir ræðumenn á undan mér fagna því að þetta mál skuli komið fram og komið þetta langt, ef langt skyldi kalla. Það er rétt að rifja upp að það hefur tekið ein tíu ár eða nálægt því að koma í lagafrumvarpsbúning og inn á Alþingi þeirri hugmynd sem háttvirtur fyrrverandi þingmaður Hjörleifur Guttormsson flutti á ofanverðum 10. áratug síðustu aldar um að stofna stóra þjóðgarða á miðhálendinu og þar á meðal Vatnajökulsþjóðgarð. Sjálfsagt mun frumkvæði hans í því máli ásamt ýmsu öðru halda nafni hans á lofti þegar fram líða stundir.

Ég ber enn þá von í brjósti að tilkoma Vatnajökulsþjóðgarðs verði atburður á heimsvísu á sviði náttúruverndar og þjóðgarðamála ef vel tekst til og ef mörk þjóðgarðsins verða þau sem ég sé fyrir mér. Verði staðið að málinu með þeim metnaði sem til þarf er enginn vafi á að efniviðurinn er til staðar, að í Vatnajökuls- eða miðhálendisþjóðgarði á Íslandi sem teygir sig frá strönd til strandar og tæki til jökulsins eða jafnvel jöklanna og nálægra svæða, vatnasviða og háhitasvæða, eldfjalla, eldstöðvakerfa, minja um hamfarahlaup o.s.frv. er nokkuð ljóst að um nánast einstæðan þjóðgarð í heiminum verður að ræða.

Það er óvíða á hnettinum að finna á ekki stærra svæði en þessu, sem tekur til nokkurra tuga þúsunda ferkílómetra, jafngríðarlega fjölbreytt samsafn af náttúruundrum, svo sem jöklum með skriðjöklum, eldstöðvum undir jöklum, fjölbreyttar gerðir eldstöðvakerfa og eldfjallategunda, vatnsfalla á borð við Jökulsá á Fjöllum, með einhverri tilkomumestu fossaröð Evrópu ef ekki heimsins alls. Móbergsmyndanir á þessu svæði eru nánast einstæðar í heiminum, óvíða eða nokkurs staðar annars staðar er aðgengi að jafnmögnuðum ummerkjum eftir eldvirkni undir ís eða í vatni eins og þar eru. Þá má nefna háhitasvæðin og þannig mætti lengi áfram telja.

Það er ljóst að til að þetta verk takist vel þarf að vanda það og þurfa a.m.k. þrír hlutir að vera til staðar. Þeir eru hver um sig algert úrslitaatriði. Það þarf í fyrsta lagi að fara í þetta verkefni frá byrjun af nægum metnaði. Þarna má ekki hugsa smátt og dugir ekki kotungsháttur. Ef við ætlum að gera þetta þannig að það verði meira en bara nafnið tómt þá kostar það verulega uppbyggingu, skipulagningu, umsýslu og allt sem tilheyrir.

Í öðru lagi þurfa að koma fjármunir, fjárfesting í þessu verkefni, sem að mínu mati er ekki minnsti vafi á að mun skila góðum arði. Jafnvel þótt svo væri ekki þá eru Íslendingar nógu rík þjóð til að standa sómasamlega að þessum málum. Við skulum ekki gleyma gæsluhlutverki okkar fyrir hönd þjóðarinnar, óborinna kynslóða og mannkynsins alls, þegar í hlut eiga þær miklu náttúrugersemar sem Íslendingum hafa fallið í skaut.

Í þriðja lagi þarf að vera til staðar sæmilega breið og almenn samstaða um málið. Það verður að halda á þessu af mikilli alúð til að laða fram sem víðtækasta sátt og samstöðu um málið.

Í þeirri margnefndu þingmannanefnd sem ég sat ásamt með tveimur ræðumönnum sem þegar hafa talað, hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, lögðum við frá byrjun mikla áherslu á það að reyna að ná góðu sambandi við alla helstu málsaðila, jafnt landeigendur sem sveitarstjórnir og hagsmunaaðila á svæðunum sem og náttúruverndarfólk og stjórnsýslu- og fagstofnanir á sviði náttúruverndar. Það gildir enn að framtíð þessa máls mun að miklu leyti ráðast af því að áfram takist að byggja upp samstöðu um það og varðveita hana.

Hér var nefndur sá möguleiki sem settar voru fram hugmyndir um í skýrslu þingmannanefndarinnar, að Alþingi kæmi beint að stjórn þjóðgarðsins. Í mínum huga var það ekki síður til að tryggja í fyrsta lagi tengsl við Alþingi, sem ættu að geta gagnast málinu, að þjóðgarðurinn og stjórn hans væru beintengd inn í Alþingi og til fjárveitingavaldsins. Í öðru lagi var því ætlað að tryggja þverpólitíska aðkomu að málinu. Með því væri undirstrikaður vilji manna til að um málið ríki þverpólitísk sátt. Til þess eru vart til betri aðferðir en að annaðhvort þingmenn eða fulltrúa þingflokka, sem í mínum huga getur allt eins komið til greina, en kosnir á Alþingi, komi að stjórn þjóðgarðsins. Það undirstrikar líka þjóðareðli málsins, að þjóðin á öll þjóðgarðinn saman.

Þau sjónarmið eru vissulega fullgild að eðlilegt er að hafa í huga þann mikla fólksfjölda sem býr á suðvesturhorni landsins og á landfræðilega beint aðild að málinu í gegnum það svæðaskipulag sem lagt er til grundvallar. Ég vil segja að ég held að einn vandasamasti partur þessa máls, sem enn er óþroskaður að ýmsu leyti, sé stjórnsýsluþátturinn. Það þarf að fara vel yfir það hvort þarna næst jafnvægi sem þarf að tryggja milli þess að heimaaðilar, landeigendur, sveitarstjórnarmenn og hagsmunasamtök, t.d. ferðaþjónustuaðilar og áhugamannasamtök svo sem náttúruverndarsamtök á viðkomandi svæðum, verði áfram fullvissuð um að verða höfð með í ráðum og hafi áhrif á umsýslu og stjórn einstakra svæða. Þau þurfa að geta komið sjónarmiðum sínum að og haft áhrif á hvernig staðið verður að málum. Það er dýrmætt og í raun alger forsenda þess að málið gangi eitthvað áfram að það takist að halda áfram að byggja upp þann jákvæða anda sem ég fullyrði að starf þingmannanefndarinnar hafi átt þátt í að skapa.

Hitt er jafnljóst og verið hefur að tryggja verður eðlileg tengsl við náttúruverndarlöggjöf og að stjórnsýsla og fagstofnanir á sviði umhverfismála og náttúruverndar séu aðilar að málinu með eðlilegum hætti. Þau tengsl verða líka til staðar. Það er ekkert betra að fá upp ágreining eða missa málin í deilur á eina hliðina frekar en aðra. Þar þarf að búa vel um hnútana og auðvitað hlýtur að koma til skoðunar fyrr eða síðar spurningin um hvort sérstök eða sjálfstæð stofnun skuli koma að þessum málum. Þar gæti ég vel hugsað mér að þjóðgarða- og þjóðlendustofnun af einhverju tagi yrði til sem sjálfstæð eining eða deild í annarri stærri fagstofnun á sviði stjórnsýslu umhverfismála og náttúruverndar. Ég bið menn lengstra allra orða að læsa sig ekki fasta í eitt frekar en annað í þessum efnum.

Það er augljóst að þegar tveir af núverandi þjóðgörðum renna saman í einn og eftir stendur fyrst og fremst einn lítill þjóðgarður á Snæfellsnesi utan þess kerfis, að slepptum Þingvöllum sem lúta að sérstökum reglum eins og við þekkjum, þá er einungis hinn litli þjóðgarður á Snæfellsnesi sem fellur undir hin almennu náttúruverndarlög og þá stofnun sem í þessi verkefni fer á vegum umhverfisráðuneytis. Að þessu þarf öllu að hyggja. Þótt hið dreifistýrða og svæðisskipta stjórnsýslufyrirkomulag myndi undirstöðuna í anda þess sem þingmannanefndin lagði til er ég enn staðfastlega þeirrar skoðunar að skynsamlegt og í raun nauðsynlegt sé að hafa heimamenn með og jákvæða í verkefninu.

Mér urðu þó nokkur vonbrigði hvernig ráðgjafarnefnd umhverfisráðherra, fjórða nefndin eða starfshópurinn sem starfað hefur að málin frá því að Alþingi afgreiddi ályktun sína 1999, hefur dregið upp mörkin hvað varðar afmörkun Vatnajökulsþjóðgarðs. Ég sakna þess mjög að ekki skuli reynt að ná inn undir þjóðgarðinn eða verndarsvæðið strax í byrjun t.d. þeim náttúruperlum sem við í þingmannanefndinni lögðum til. Ég nefni þar t.d. Suðurárbotna, Suðurá og það svæði í vestur- og norðvesturjaðri Ódáðahrauns þannig að stærri hluti Ódáðahrauns komi strax í byrjun inn í þjóðgarðinn. Ég hefði kosið að breiðari landspilda fylgdi friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum. Ég nefni Langasjó, sunnan jökla. Þar stingur í augu fleygurinn sem dreginn er inn í friðlýsingarsvæðið. Það veit ekki á gott.

Umfram allt annað veldur mér miklum vonbrigðum að ekki skuli frá byrjun gert ráð fyrir alfriðun Jökulsár á Fjöllum með öllum hennar helstu þverám. Það fæ ég ekki skilið, af hverju sú eindrægna niðurstaða þingmannahópsins og sá margyfirlýsti vilji að ég held allra stjórnmálaflokka, a.m.k þingfulltrúa allra þingflokka á Alþingi, að reka af sér slyðruorðið og friðlýsa Jökulsá á Fjöllum, eitt af stóru jökulvötnunum okkar sem eftir eru ósnortin og ótrufluð. Mér þykir leitt að þetta skuli þynnast út í tillögunum. Þegar frumvarpið er skoðað þá er að sjálfsögðu ekki um neina afmörkun að ræða heldur vísað í að reglugerð verði gefin út en í greinargerð eru hugmyndir um afmörkun Vatnajökulsþjóðgarðs. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Norðan jökuls taki þjóðgarðurinn til þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum og meginárfarvega Jökulsár á Fjöllum frá upphafi til ósa. Jafnframt væri æskilegt að árfarvegur Kreppu og landspilda að lágmarki 150–200 metra á bökkum beggja árfarvega fylgdi með ásamt Kverkfjöllum og Krepputungu. Þá taki þjóðgarðurinn til Herðubreiðarlinda, Öskju …“ — o.s.frv.

Í reynd vísar þetta orðalag Kreppu út úr upphaflegum tillögum um afmörkun þjóðgarðsins eða a.m.k. það sem ég hefði viljað sjá fortakslaust. Kverká er heldur hvergi nefnd. Það vill að vísu svo til að Svartá lendir sjálfkrafa innan svæðisins, sem er afmarkað innan þjóðgarðsmarkanna sunnan Vaðöldu og Öskju, en það sem hér skiptir mestu máli er hvað er verið að friðlýsa. Er verið að friðlýsa Jökulsá á Fjöllum, ekki bara sem vatnsfall heldur sem vatnasvið? Er verið að friðlýsa náttúrulega rennslishætti þess með hlaupum þess, hamförum og öllu sem tilheyrir? Það eins og hver annar brandari fyrir okkur sem til þekkjum að undanskilja Kreppu. Staðreyndin er sú að Kreppa á ekki minni þátt í því en Jökulsá sjálf. Það sem kemur undan Dyngjujökli skapar einnig í henni hlaupin á sumrin og gefur henni þann karakter sem hún hefur. Þetta veit heldur ekki á gott vegna þess að vitað er um áhuga virkjunaraðila og ásælni í þetta vatn. Það eru ekki gamlar hugmyndirnar um að taka Kreppu og Kverká og veita austur á bóginn, með drekkingarlónum í annaðhvort Fagradal eða Arnardal sem mundu að sjálfsögðu einnig stórspilla landslagsheildinni á þessu svæði. Menn töluðu um að þá mætti setja einhvers konar túristakrana á Dettifoss og sjá um að hann yrði a.m.k. 180 rúmmetrar í rennsli á sumrin. Einstöku smekkmenn í hópi virkjunarmanna töldu sig hafa möguleika á að sanna að þannig væri Dettifoss einmitt fallegastur, penastur í svona 180 rúmmetrum.

Þetta eru ekki gamlar hugmyndir, frú forseti. Það eru varla 10 ár síðan þingmenn þá Norðurlandskjördæmis eystra og Austurlands, voru leiddir í allan sannleikann um þessa snilld á kynningarfundi á Eiðum. Kannski eru þau 12–15, ekki meira. — Nú sakna ég að sjá ekki formann umhverfisnefndar Alþingis en hann mun vera löglega forfallaður. Einhver gegnir kannski störfum fyrir hann. — Það er þeim mun brýnna að Alþingi manni sig loksins upp í að samþykkja þá þingsályktunartillögu, sem ég ásamt fleiri þingmönnum hef flutt ár eftir ár, um að Alþingi taki af skarið og lýsi yfir prinsippvilja löggjafans til að friðlýsa Jökulsá á Fjöllum og allar hennar þverár, allt vatnasvið og náttúrulega rennslishætti. Ætla menn ekki að hugsa sinn gang gagnvart því að hvert stórjökulfljótið á fætur öðru hverfur nú sjónum sem slíkt, með sínum náttúrulegu rennslisháttum, með sínum korgi á sumrin, með hlaupum og deyr út í uppistöðulónum. Jökulsá á Fjöllum er ein eftir af virkilega stóru korguðu jökulánum sem eru nánast einstæðar á heimsvísu, koma undan þíðjöklum með öllum þeim ósköpum sem því fylgir í hlýindatíð á sumrin. Fyrir utan það er Jökulsá einstæð um margt annað vegna fossaraðanna sem í henni eru, vegna ummerkjanna um hamfarahlaupin og vegna þess að hún er perlubandið sem tengir saman gersemarnar allt frá Vatnajökli og til sjávar í botni Öxarfjarðar.

Þessa tillögu, frú forseti, flutti ég upphaflega á 129. löggjafarþingi en í nokkur þing hafa flutt hana með mér þingmenn úr öllum þingflokkum. Það er undarlegt þegar tillaga af þessu tagi nýtur þverpólitísks stuðnings, hefur fengið nánast einróma stuðning í öllum umsögnum, hefur aftur og aftur gengið til umhverfisnefndar Alþingis og verið þar tilbúin í raun til afgreiðslu í marga mánuði. Það er dálítið undarlegt verklag að nefndin komi henni ekki frá sér. Nú skora ég á þingmenn að samþykkja tillöguna og það er þeim mun mikilvægara sem þetta er veiklulega um búið í frumvarpinu. Það má ekki misskiljast þannig að það standi eitthvað til að fara að krukka í Jökulsá á Fjöllum. Þá fyrst mun hrikta í, frú forseti, að mínu mati, ef menn ætla virkilega ekki að standa við stóru orðin, þeir sem sagt hafa að það muni aldrei koma til greina. Þessi tillaga er á dagskrá hér á eftir og gengur vonandi til nefndar. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa um hana langa framsögu, svo sjálfsögð sem hún er og efni hennar vel kunnugt. Þess vegna mætti hún mín vegna fara umræðulaust til umhverfisnefndar á eftir en ég mun reka hart eftir því að hún verði afgreidd.

Það er mikilvægt að Alþingi segi sitt í þessum efnum þannig að það liggi fyrir. Þau skilaboð þurfa að vera skýr þannig að séu einhverjir einhvers staðar úti í þjóðfélaginu sem renna girndaraugum til þess að fara í Jökulsá á Fjöllum þá velkist þeir ekki lengur í vafa um að það verði ekki leyft. Það er ákaflega mikilvægt. Slík prinsippsamþykkt, þótt hún komi á undan afgreiðslu þessa lagaramma um Vatnajökulsþjóðgarðs, gerir ekkert nema styrkja málið. Hún hjálpar málinu, styrkir það og þannig hefur hún allan tímann verið hugsuð. Flutningsmenn málsins hafa meðal annarra verið tveir fyrrverandi umhverfisráðherrar. Núverandi. hæstv. heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, var flutningsmaður málsins þegar hún gerði hér stuttan stans milli ráðuneyta sem þingmaður. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi. umhverfisráðherra hefur flutt málið, hv. þm. Halldór Blöndal og auk þeirra eru nú á tillögunni hv. þm. Dagný Jónsdóttir, Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir.

Í umræðum hefur málið án undantekninga fengið undirtektir og stuðning. Sama gildir að ég best veit eiginlega um allar umsagnir sem um það hafa borist. Ég verð að segja að mér finnst Alþingi og umhverfisnefnd ekki geta boðið okkur upp á hún hafi sig ekki í að afgreiða slíkt mál árum saman, þannig að ég er bjartsýnn á að það verði.