Námsgögn

Fimmtudaginn 25. janúar 2007, kl. 16:22:27 (3878)


133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

. námsgögn.

511. mál
[16:22]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ekki skal standa á mér að fagna 100 nýjum millj. í námsefnisgerð til grunnskólabarna. Ég fagna því að sjálfsögðu. Hins vegar er eðlilegt að höfð séu nokkur orð um aðferðirnar sem hæstv. ráðherra beitir í þessum breytingum sínum sem hún hefur mælt hér fyrir.

Eðli málsins samkvæmt hefur það vakið athygli í fjölmiðlum síðustu daga, eftir að þetta frumvarp kom hér fram á þinginu, að nú ætti að gera þær breytingar að hleypa einkaaðilum að gerð námsgagna fyrir grunnskóla. Þetta var fókuspunktur sem maður sá í fyrirsögnum blaðanna sem fjölluðu um málið þegar frumvarpið kom fram.

Það er alveg rétt. Þótt mér finnist ég ekki vera búin að sitja lengi á þingi man ég þá tíð þegar við þingmenn þurftum vetur eftir vetur að taka málefni Námsgagnastofnunar til sérstakrar skoðunar. Stofnunin var langt undir hungurmörkum, ein af þessum stofnunum sem hafði verið svelt árin á undan. Nú skulum við athuga að Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að vera með menntamálaráðuneytið frá 1991 og var þess vegna þegar ég kom á þing ábyrgur fyrir því svelti sem Námsgagnastofnun hafði þurft að upplifa og hafði kvartað undan árum saman.

Nú er hér sem sagt dæmi um fjársvelta stofnun sem hæstv. ráðherra ætlar að koma til bjargar með því að setja á árinu 2007 nýjar 100 millj. í námsefnisgerð en ekki í það að efla Námsgagnastofnun sem slíka. Nei, nú skal efla einkaaðilana sem eru svo flinkir við að búa til fjölbreytt úrval námsefnis fyrir grunnskólabörn.

Mér finnst þetta ekki rétt áhersla og nú skal ég segja að ég hef ekkert á móti því að einkaaðilar komi að námsefnisgerð fyrir grunnskóla. Ekkert á móti því. Enda hefur það verið þannig hingað til að Námsgagnastofnun hefur gert um það samninga að einkaaðilar útbúi námsgögn, bæði rafræn námsgögn, bækur, kvikmyndir og þá flóru sem Námsgagnastofnun hefur haft úr að spila. Þetta hefur hún unnið í samráði og samvinnu við einkaaðila. Það getur mjög vel verið að það megi styrkja þessi samskipti og þau geti eflst og þróast. Ég set mig ekki upp á móti því.

Ég set mig engu að síður upp á móti þessari áferð sem hæstv. menntamálaráðherra kýs að hafa á þessum málum. Markmið laganna á að vera að tryggja framboð og fjölbreytileika námsgagna, nákvæmlega það sem Námsgagnastofnun hefur beðið um árum saman að hún fái svigrúm til að gera en ekki hefur verið vilji í Stjórnarráði Íslands fyrir slíku.

Nú vil ég líka gera greinarmun á einkaaðila og einkaaðila. Við sem sitjum á Alþingi Íslendinga erum þess minnug þegar bréf rak á fjörur okkar fyrir rúmu ári, bréf sem skólastjórum grunnskólanna hafði verið sent frá Landsvirkjun þar sem Landsvirkjun, sem hefur haft talsverða fjármuni umleikis í starfsemi sinni, sá allt í einu að hún væri aflögufær um talsvert háar fjárhæðir sem hún hafði ákveðið að eyða í að útbúa námsefni fyrir grunnskólabörn. Tekið var fram í bréfi Landsvirkjunar að námsefnið hentaði til kennslu í ýmsum námsgreinum þannig að Landsvirkjun kom inn með hugmyndir sem fóru þvert á námsgreinar og í bréfinu til skólastjóranna var gert mikið úr því hvílíkur happafengur þetta námsefni væri.

Þetta hefði kannski verið allt í lagi ef námsefni Landsvirkjunar hefði ekki verið búið til í tengslum við væntanlega vígslu Kárahnjúkavirkjunar og að í tengslum við námsefnið var samkeppni. Börnum var boðið upp á samkeppni sem var þeirrar náttúru að þau áttu að fá að keppa um það í verkefnum að fá að fara með forseta Íslands til að leggja hornstein að stöðvarhúsi Kárahnjúkavirkjunar.

Í sjálfu sér væri forvitnilegt að fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvort yfir höfuð eitthvað hafi orðið af því að Landsvirkjun dreifði þessu námsefni víða. Eflaust hefur hún fengið einhverja dreifingu á það en mér er kunnugt um fjölda skóla sem þakkaði pent og afþakkaði þetta námsefni Landsvirkjunar af eðlilegum ástæðum, ekki bara vegna þess að foreldrar mótmæltu en að sjálfsögðu að hluta til vegna þess. Ein grundvallarregla hlýtur að verða að gilda í samskiptum skóla og menntayfirvalda, traust. Það verður að ríkja gagnkvæmt traust á milli þessara aðila og stjórnvöld verða að tryggja að þeir einstaklingar eða fyrirtæki eða einkaaðilar sem veljast til að útbúa námsefni handa grunnskólabörnum séu hafin yfir allan vafa um að ætla að gera það í eiginhagsmunaskyni.

Við vitum að opinberar stofnanir á borð við Lýðheilsustöð og lögregluna hafa útbúið námsefni fyrir grunnskólabörn sem er allt af hinu góða þannig að við höfum mjög fína reynslu af því að opinberar stofnanir á sviði almannaþjónustu vinni í samvinnu við skólana eða Námsgagnastofnun að námsefnisgerð. Sömu sögu má segja um félagasamtök eins og Rauða krossinn og Amnesty International, bæði þessi félagasamtök og fleiri hafa komið að námsefnisgerð og unnið í náinni samvinnu við Námsgagnastofnun að slíku. Eins og ég segi, ég ítreka að það er ekkert nema gott um það að segja. Enda er ekki auðvelt að sjá að þessir aðilar hafi nokkurra þeirra hagsmuna að gæta að þeir gætu mögulega viljað stunda innrætingu í gegnum námsefnið sem ætti að ná til grunnskólabarna. Það sama verður ekki sagt um alla einkaaðila á markaði sem vilja gjarnan koma inn námsefni til grunnskólabarna. Það sýnir dæmið um Landsvirkjun.

Mér þykir ákveðinni hættu boðið heim í þessum efnum en hún er fólgin í því að það er ekki fyrr en eftir á sem virðist eiga að koma til einhverra aðgerða varðandi slíkt, þ.e. í 8. gr. í frumvarpinu er sagt að ef vafi leiki „á að námsgögn uppfylli réttmætar gæðakröfur eða samrýmist markmiðum aðalnámskrár er heimilt að óska eftir því að menntamálaráðuneytið meti hvort viðkomandi námsgögn eru hæf til notkunar í kennslu“.

Með öðrum orðum virðist vera ráð fyrir því gert að í gegnum stjórnir þessara sjóða sem talað er um að hér sé verið að stofna geti slæðst efni sem ekki sé hæft til kennslu í grunnskólunum. Ég hefði haldið að Námsgagnastofnun ætti að vera öryggisnetið í þessum efnum, að Námsgagnastofnun ætti að vera sían sem tryggði að óhæft námsefni færi ekki inn í grunnskólana.

Mér finnst hérna vera ákveðnir pyttir eða hættur sem þarf að girða fyrir og tel þess vegna að atriði á borð við þessi þurfi að skoða vel í starfi nefndarinnar.

Ég vil bara að lokum segja, virðulegi forseti, að það segir í aðalnámskrá grunnskóla þar sem fjallað er um frumábyrgð á uppeldi og menntun barna að hún hvíli á foreldrum og að hluta til grunnskólunum. Sú ábyrgð felst í því að sjá nemendum fyrir formlegri fræðslu og því að taka þátt í félagslegri mótun þeirra. Það segir í aðalnámskránni að þetta sé sameiginlegt verkefni milli heimila og skóla og kalli á náin tengsl, á gagnkvæmt traust og gagnkvæma upplýsingamiðlun, samábyrgð og samvinnu.

Mér finnst lykilatriði að hæstv. menntamálaráðherra og um leið menntamálanefnd Alþingis gái að því að öllum þessum lykilatriðum sé vel fullnægt og þeirra vel gætt í öllum ákvörðunum sem við tökum um námsefnisgerð handa grunnskólabörnum. Ég mun auðvitað beita mér fyrir því í menntamálanefndinni að það verði tryggt og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að málið verði skoðað gaumgæfilega með þeim gleraugum sem ég tel að þurfi að vera hérna á nefinu á okkur.