Námsgögn

Fimmtudaginn 25. janúar 2007, kl. 16:57:42 (3885)


133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

námsgögn.

511. mál
[16:57]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég held að þetta sé nú að nálgast. Þó skil ég ekki enn þá í raun hlutverk þessarar stjórnar ef úthlutunarreglurnar eru svo einfaldar að þær gera ráð fyrir því að hér sé um námsgögn að ræða og ekki annað en námsgögn, sem sé ekki almennan tækjakost svo sem tölvur eða sjónvörp sem geta auðvitað verið námsgögn í sjálfu sér. Tölvuforrit geta til dæmis verið námsgögn, svo sannarlega, og verða í auknum mæli. Ég skil satt að segja ekki alveg um námsgagnasjóðinn. Mér er ljóst að eitthvert eftirlit þarf að vera með því sem skólarnir ákveða að kaupa. Eitthvert lágmarkseftirlit þarf að vera með því til öryggis hreinlega og einhvers konar leiðbeiningar. En er ekki ætlunin að það sé eftir á, það eftirlit, og þarf það að vera sérstök stjórn sem nánast úthlutar eftir einhverju sem heita úthlutunarreglur? Mér sýnist þetta almennt vera bara einföld skipting þar sem einhver ívilnun er veitt hinum fámennari skólum, sem er eðlileg og fullkomlega nauðsynleg vegna þess hvernig háttar til í byggðum landsins.

Manni dettur í hug, af því að frumvarpið býður upp á það — eitt kemur á eftir öðru — hvort stjórn þróunarsjóðsins geti ekki tekið við þessu hlutverki því að það virðist vera — sé hæstv. menntamálaráðherra að skýra hér rétt út, sem hún hlýtur að vera að gera — þá virðist það vera það lítið að ekki þurfi sérstakt apparat til þess að stjórna þeim sjóði.