Námsgögn

Fimmtudaginn 25. janúar 2007, kl. 17:01:29 (3887)


133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

námsgögn.

511. mál
[17:01]
Hlusta

Sigurrós Þorgrímsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma inn í umræðuna um námsgögn en eins og fram hefur komið er meginmarkmið laganna að tryggja framboð og fjölbreytileika námsgagna í samræmi við þarfir nemenda og skóla.

Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir litlum breytingum á Námsgagnastofnun. Það er frekar verið að styrkja og skýra markmið hennar og fækka í stjórn, sem ég held að sé bara af hinu góða. En það sem er fyrst og fremst nýmæli í frumvarpinu er námsgagnasjóður og svo þróunarsjóður námsgagna. Hér er verið að veita aukið fjármagn til námsgagnagerðar og tel ég það mjög vel.

Við vitum vel að kennarar hafa verið að búa til námsgögn og námsefni, fjölrita og dreifa. Nú ættu þeir að geta sótt um styrki í þennan sjóð til þess og jafnvel til útgáfu námsefnis. Þetta er náttúrlega mjög mikilvægt. En með slíku efni þarf að hafa gæðaeftirlit og ég held að það væri mjög æskilegt að 8. gr. frumvarpsins, sem er um gæðamat, væri skýrari, hvort sem það væri stjórn þróunarsjóðsins sem færi í gegnum það eða einhver önnur nefnd, þá held ég að það væri mjög æskilegt.

Ég tel að þetta frumvarp muni efla Námsgagnastofnun en fyrst og fremst mun það auka samkeppni og sem kannski ekki er síður mikilvægt, þá mun það auka vitund skólanna á námsefni og námsgagnagerð. Ég fagna þessu frumvarpi, ég tel að við séum að efla námsgagnagerð hér á landi, ekki bara með þeim auknu fjármunum sem er veitt í þetta heldur vekur þetta líka áhuga og athygli annarra, kennarar og skólastjórar geta nú farið að búa til námsefni sitt og sækja til þess fjármagn.

Ég vil líka geta þess að í nefnd sem fjallaði um frumvarpið eru tveir af stjórnarmönnum Námsgagnastofnunar, Ásgeir Beinteinsson og Ingibjörg Ásgeirsdóttir, forstjóri Námsgagnastofnunar, og ég veit ekki annað en þau séu nokkuð hlynnt frumvarpinu.