Vatnsréttindi vegna Búrfellsvirkjunar

Mánudaginn 29. janúar 2007, kl. 17:08:10 (3926)


133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vatnsréttindi vegna Búrfellsvirkjunar.

415. mál
[17:08]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er ekki alveg rétt með farið vegna þess að ég gat þess að borist hefði í tal í umræðum síðast þegar málið var flutt að ríkislögmaður hefði á sínum tíma haft það álit sem ég gat um. Það álit er dagsett í september 2002. Eftir það voru fyrirheit gefin aðilum um að þetta frumvarp yrði flutt og eigninni afsalað til Landsvirkjunar.

Nú er það reyndar svo, eins og ég gat um og hv. þingmaður nefndi einnig, að frá þeim tíma hefur orðið sú breyting að ekki eru lengur sömu sameignaraðilar að þessu fyrirtæki og áður voru. Það breytir ekki því að sú leið að afsala fyrirtækinu þeirri eign sem talið var í upphafi að fyrirtækinu hefði verið afhent er heppilegust til að draga úr öllum efa um það að fyrirtækið hafi þessi réttindi og hafi þessa eign til ráðstöfunar með sama hætti og reikningar félagsins hafa alla tíð gert ráð fyrir og með sama hætti og lánardrottnar fyrirtækisins hafa alla tíð gengið út frá.