Bæklingur um málefni aldraðra

Mánudaginn 05. febrúar 2007, kl. 15:21:59 (4232)


133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

bæklingur um málefni aldraðra.

[15:21]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur staðfest opinberlega að hún hafi notað fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að borga fyrir bækling sinn um nýja sýn og áherslur ráðherrans í öldrunarmálum og í útsendingu á þeim bæklingi, fé úr sjóði sem allir landsmenn, hver og einn, greiða í nefskatt, á sjöunda þúsund kr. á ári, til að byggja upp hjúkrunarheimili og stofnanir fyrir aldraða.

Við vitum alveg hvernig ástandið er í þeim málum. Féð hefur ekki skilað sér í uppbyggingu nema að hluta. Mörg hundruð manns eru á biðlistum og engin ný hjúkrunarpláss bættust við allt árið 2006. Peningar úr sjóðnum hafa farið í annað, í rekstur og ýmsa styrki eins og t.d. þennan glansbækling hér og útsendingu á honum.

Ég get ekki séð að ráðherra hafi nokkra heimild til að taka peninga úr sjóðnum í svona verkefni fyrir sjálfa sig. Sjóðurinn á að fara í uppbyggingu og í að efla öldrunarþjónustu. Ég get ekki séð að svona bæklingur uppfylli slík skilyrði. Þetta er persónulegur bæklingur þar sem ráðherra talar í 1. persónu um hvað hún ætlar að gera. Hún á núna eftir þrjá mánuði á valdastóli.

Þetta er loforðabæklingur og í honum er hvergi sagt hvernig ástandið er. Ég ætla að nefna dæmi úr þessum bæklingi, t.d. 1. kaflanum. Þar segir að ráðherra muni nú þegar hefja endurskoðun á lögum um málefni aldraðra. Hún skipaði nefnd þegar bæklingurinn kom, rúmlega hálfu ári fyrir kosningar, og nefndin hefur aldrei verið kölluð saman.

Hún lofar líka fleiri hjúkrunarrýmum, en þeim hefur ekki fjölgað neitt eins og ég sagði. Við lestur þessa bæklings hljómar hann eins og dæmigerður kosningabæklingur um það hvað ráðherra hyggst gera á næstu árum, þ.e. eftir kosningar. Ég spyr. Hversu lengi hafa ráðherrar heilbrigðismála notað Framkvæmdasjóð aldraðra (Forseti hringir.) í eigin þágu, sem sitt eigið ráðstöfunarfé? Hve mikið hafa þeir tekið úr þessum sjóði á þann hátt?