Skýrsla Hagstofunnar um tekjudreifingu

Mánudaginn 05. febrúar 2007, kl. 15:34:35 (4239)


133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

skýrsla Hagstofunnar um tekjudreifingu.

[15:34]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hér er vakin athygli á merkilegri skýrslu sem Hagstofa Íslands gaf út á föstudaginn. Hagstofan hefur að undanförnu tekið þátt í samræmdri lífskjarakönnun sem Evrópusambandið hefur beitt sér fyrir. Þar er beitt samræmdum aðferðum til að komast að niðurstöðu. Þrír mælikvarðar eru skoðaðir. (Gripið fram í.)

Það er í fyrsta lagi það sem kallað er í skýrslunni lágtekjumörk en fyrir neðan þau mörk er sá hópur fólks sem talinn er vera í þeirri áhættu að geta lent í fátækt. Það er ekki endilega víst að allir séu fátækir þar, líka vegna þess að ekki er tekið tillit til eigna, en þessi lágtekjumörk sýna að 9,7% af Íslendingum eru fyrir neðan þau. Aðeins eitt ríki í Evrópu stendur betur að vígi hvað þetta varðar, Svíþjóð.

Annar mælikvarðinn er samanburður á því hvað efsti fimmtungurinn í tekjum hefur mikið umfram lægsta fimmtunginn. Það reynist vera á Íslandi 3,5 sinnum hærri tekjur. Aðeins örfá ríki í Evrópu eru með hagstæðari niðurstöður hvað þetta varðar. Það er ekki jafnari tekjuskipting í öðrum löndum nema á 2–3 stöðum í Evrópu.

Loks er vikið að hinum margumrædda Gini-stuðli sem m.a. hefur verið kallað eftir upplýsingum um á Alþingi. Gini-stuðullinn er ekki fullkominn mælikvarði, hann er á margan hátt ófullkominn sem slíkur, en samkvæmt honum, svo langt sem það nær, standa Íslendingar líka afskaplega vel að vígi hvað tekjudreifinguna varðar. Það er athyglisvert að draga þetta fram hér því að þetta er einmitt mælikvarði sem margir hafa notað að undanförnu til að fara með rangt mál og leiða fólk á villigötur í samanburði um tekjur og jöfnuð hér á landi.