Skýrsla Hagstofunnar um tekjudreifingu

Mánudaginn 05. febrúar 2007, kl. 15:38:07 (4241)


133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

skýrsla Hagstofunnar um tekjudreifingu.

[15:38]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegur forseti. Ég gat þess að samkvæmt þessum niðurstöðum væru 9,7% Íslendinga undir lágtekjumörkunum og eiga það á hættu að verða skilgreind fátæk sem væri með því allra lægsta í Evrópu. Hér er miðað við aðferðafræði Evrópusambandsins. Ef miðað er við aðferðafræði OECD sem nokkuð hefur verið til umræðu og notuð til viðmiðunar, eins og t.d. í skýrslunni um fátækt barna sem við ræddum hér um daginn og miðar við 50% af miðgildi í lægri helmingi tekjurófsins, kemur á daginn að það eru ekki 9,7% sem eru innan þessara marka heldur 5,3%. Fátæktin er sem sagt með öðrum orðum enn minni ef miðað er við aðferðafræði OECD.

Þetta segir okkur náttúrlega að það er hægt að mæla þessa hluti með ýmsum hætti. Aðalniðurstaðan stendur þó óbreytt og hún er sú að Íslendingar standa afar vel að vígi og öðrum þjóðum betur hvað þetta varðar.