Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Þriðjudaginn 06. febrúar 2007, kl. 15:29:23 (4325)


133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:29]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka það sem ég sagði í ræðu minni áðan að erlent starfsfólk kemur til starfa á þrennum forsendum eða eftir þrennum leiðum. Í fyrsta lagi á vegum erlendra fyrirtækja, eins og þetta frumvarp fjallar um, í öðru lagi í gegnum EES-samninginn um fjrálst flæði vinnuafls og í þriðja lagi á vegum starfsmannaleigna. Ég held að það fólk og nákvæmlega það fólk sem er að störfum hér á landi nú hefði komið, hvað sem hefði liðið öllum girðingum síðastliðið vor, til starfa á Íslandi í gegnum starfsmannaleigur.

Það kerfi eða fyrirkomulag sem við höfum orði vitni að á Íslandi á undanförnum mánuðum og missirum — þó að engan veginn sé hægt að alhæfa um allar starfsmannaleigur, það er ekki hægt, sumar geta verið ágætar en víða er pottur brotinn — er það allra versta. Ég held að það sem mestu máli skiptir sé að fá þessi mál algerlega upp á yfirborðið, aðgang að kjarasamningum, og fá síðan fest í lög eins og hér afdráttarlaus ákvæði um að lágmarkskjarasamningar skuli gilda á Íslandi um alla, hvaða leið sem þeir koma til landsins, og lágmarkstryggingar og lágmarksréttindi sem samið hefur verið um á íslenskum launamarkaði eða fest í lög til varnar launafólki.

Hvað varðar þensluna og eftirspurnina erum við fullkomlega sammála, ég og hv. þingmaður.