Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Þriðjudaginn 06. febrúar 2007, kl. 16:11:22 (4343)


133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[16:11]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Ég vil bara ítreka það, hæstv. forseti, að mér þykir það fullkomlega óeðlilegt og niðurlæging við þingið ef þingið fær ekki að fjalla með eðlilegum hætti um stefnumótun í málefnum útlendinga og taka afstöðu til hennar, greiða atkvæði um hana og gera á henni breytingar. Það er auðvitað allt, allt annað en að ráðherra komi og lesi upp þessa stefnumótun sem við vitum nákvæmlega hvernig er, síðan verður umræða um hana í hálftíma eða klukkutíma og það er allt og sumt sem Alþingi fær að segja um þetta mál sem er stórt mál og hvernig á því verður tekið, mér finnst þetta ófært, að Alþingi fái ekki að fjalla um þetta mál, senda það út til umsagnar, þannig að aðilar sem málið varðar og hafa skoðanir á því fái að segja álit sitt á stefnumörkuninni, leggja til breytingar og gera athugasemdir sem þingið eftir atvikum tekur tillit til og verður þá tekist á um í atkvæðagreiðslunni. Og ég vona að fleiri þingmenn taki undir það með mér að það er ekki hægt að bjóða þinginu upp á einungis klukkutímaumræður, þar sem ráðherra les upp sína skýrslu og menn gera athugasemdir við hana án þess að takast á um þetta í atkvæðagreiðslu eða við meðferð málsins í félagsmálanefnd.

Ég vil líka segja varðandi starfsmannaleigurnar að mér finnst mjög sérkennilegt hvernig þetta er sett upp í frumvarpinu, þetta kemur sem síðasta málsgrein í því án þess að þess sé nokkuð getið í heiti frumvarpsins að verið sé að breyta lögum um starfsmannaleigur. Ég efast um að það standist tæknilega að setja þetta upp með þessum hætti og það munum við skoða í nefndinni en efnislega vil ég spyrja ráðherrann hvort í þeim breytingum sem hér á að gera á lögum um starfsmannaleigur felist það ákvæði sem við lögðum alla áherslu á að yrði sett inn í frumvarpið. Það er ákvæðið um að notendafyrirtækið beri ábyrgð á því að allir sem hjá þeim starfa njóti launa og annarra starfskjara þrátt fyrir að starfssamband viðkomandi starfsmanns og notendafyrirtækis sé byggt á milligöngu starfsmannaleigna. Þetta er grundvallaratriði ef starfsmannaleigulögin eiga að virka og ég spyr hvort tekið sé á því í frumvarpinu.