Aðgangur að háskólum

Miðvikudaginn 07. febrúar 2007, kl. 18:09:37 (4473)


133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

aðgangur að háskólum.

146. mál
[18:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir mjög athyglisverðar upplýsingar og samantekt. Ef ég heyrði rétt voru umsóknir eitthvað yfir 7 þús. samanlagt þannig að yfir 5 þús. voru afgreiddar jákvætt og ef lesið er rétt úr tölunum hafi 2.002 ekki verið inni og það er spurning hversu margir nemendur eru á bak við þá tölu. Sjálfsagt má geta sér til um það með einhverjum líkindareikningi þeirra sem betur til þekkja en þessar upplýsingar eru eins og ég sagði í fyrri ræðu minni mjög mikilvægar og gagnlegar til að kortleggja eftirspurnina og þörfina á háskólamenntun. Eftirspurnin er sem betur fer mjög mikil og framboð á háskólanámi af öllu tagi hefur aukist mikið á síðustu árum, áratugum ef við lítum 10, 20, 30 ár aftur í tímann. Sérstaklega þarf að huga til framtíðar að fyrirkomulagi háskólamenntunar úti á landi. Nýráðinn rektor á Bifröst talaði um að koma upp neti háskólastofnana um landið. Það þarf að gera með einhverjum skynsamlegum hætti, að ekki sé verið að stofna hverja háskólastofnunina nýja á fætur annarri en það er að sjálfsögðu alvarlegt mál ef á annað þúsund manns hafa ekki fengið inni í neinum háskóla sem kallar á endurskoðun á framboði háskólamenntunar og eins samræmingu á því hvers konar nám það er sem þessi hópur sækist sérstaklega eftir.

Þá er það að mínu mati líka alvarlegt mál að svo stórum hópi, 434 sem eru ekki með stúdentspróf, skuli vera vísað frá af því að það á að vera þáttur í háskólamenntakerfi okkar að raunfærnismeta fólk sem hefur aðra (Forseti hringir.) lífsreynslu en hefðbundið stúdentspróf.