Niðurstöður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna

Mánudaginn 12. febrúar 2007, kl. 15:44:21 (4515)


133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

niðurstöður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

[15:44]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hjó ekki eftir því í ræðu hæstv. umhverfisráðherra að hún svaraði þeim spurningum sem beint var til ráðherrans, m.a. um þau markmið sem íslensk stjórnvöld settu sér á alþjóðavettvangi um niðurskurð gróðurhúsalofttegunda. Eins og komið hefur fram í þinginu í umræðum mínum við forsætisráðherra nýverið og svo aftur í dag hafa bæði Evrópusambandslöndin og Norðurlöndin sett sér það mark að skera þetta niður um 30% til 2020 og Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur lýst því yfir að Bretar hyggist skera þetta niður um 60% til ársins 2050. Ríkisstjórn Íslands hefur enga stefnu í þessum málum.

Ásetningsbrot þessarar ríkisstjórnar eru ekki verst. Ég gef mér að henni gangi oftast nokkuð gott til þó að henni séu mjög mislagðar hendur, bæði í stefnumótun og framkvæmd. Það eru vanrækslusyndirnar, virðulegi forseti, það er kæruleysið og sofandahátturinn sem fylgir langri valdasetu sem er verst og það kemur m.a. fram í virkjana-, stóriðju- og loftslagsmálunum. Það er skortur á stefnu á ýmsum sviðum, það er slæleg eftirfylgni og lítið eftirlit. Við höfum heyrt í umræðunni talað um Byrgismálið, það hefur verið talað um þjóðlendumálin. Öll þessi mál einkennast af þessu, af kæruleysi og sofandahætti, ýmist í stefnumótun, eftirfylgni eða eftirliti.

Virðulegur forseti. Þegar talað var fyrir Kyoto-bókuninni á þingi var boðuð lagasetning um framkvæmd hennar. Núna fimm árum síðar er verið að boða lög um takmörkun gróðurhúsalofttegunda vegna stóriðju, fimm árum eftir að kynnt var af umhverfisráðherra í þinginu að setja þyrfti þau lög. Hvað dvelur orminn langa? Af hverju þurfti fimm ára meðgöngutíma til að gera þetta? Það er, virðulegur forseti, að verða um seinan vegna þess að hér hefur verið mikið kapphlaup, það hefur verið fyrstur kemur, fyrstur fær, og kvótinn samkvæmt Kyoto-bókuninni er uppurinn og gott það.