Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 13. febrúar 2007, kl. 21:33:27 (4640)


133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[21:33]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér talaði hæstv. umhverfisráðherra sem hefur lýst því yfir að hún sé að leggja fram stefnu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og þar er ekki einu sinni drepið á stóriðju, þar er ekki einu sinni tekið tillit til hennar í loftslagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar. Er hægt að hugsa sér nokkurn ráðherra sem er eins gagnsýrð og gegnsnýtuð á stóriðjustefnu og þann ráðherra sem svo talar? Ég held ekki, herra forseti.

Hér talaði líka ráðherrann sem hefur sagt að það sé lausn á alþjóðlegum vanda að flytja sem flest stóriðjuver hingað til Íslands til að draga úr mengun annars staðar. Með öðrum orðum, hún vegur ekki einu sinni þá hagsmuni sem felast í íslenskri náttúru af því að hún er að leysa vandann annars staðar. (Gripið fram í.) Þetta er þó umhverfisráðherrann sem ber hag náttúrunnar svo fyrir brjósti sér. Það er ekkert öðruvísi.

Ég verð satt að segja að minna hæstv. ráðherra aftur á það að hún er ekki iðnaðarráðherra, hún er umhverfisráðherra og hún á að bera hag náttúrunnar og umhverfisins fyrir brjósti, (Forseti hringir.) ekki þrönga flokkshagsmuni Framsóknarflokksins. Það er það sem hún ætti að velta svolítið fyrir sér, herra forseti. (Forseti hringir.) Ég veit að við erum sammála um það eins og svo margt annað sem varðar Framsóknarflokkinn.