Samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018

Fimmtudaginn 15. febrúar 2007, kl. 22:02:37 (4933)


133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[22:02]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að tekist hefur breið samstaða um göng til Bolungarvíkur, milli Hnífsdals og Bolungarvíkur, Óshlíðargöng eða hvað við munum kalla þau. Það var gert út af grjóthruni sem við höfðum fengið fregnir af og sumir sem hafa farið um þennan veg hafa orðið þess áskynja hvað hann er hættulegur. Sú niðurstaða náðist, sem kynnt var núna fyrir nokkrum dögum, að fara frá Ósi í Bolungarvík að Skarfaskeri. Það er gert í nafni þess að um stórhættulegan veg sé að ræða. Það sama á við um núverandi Oddsskarðsgöng, eins og hv. þingmaður gat um. Þar er vegurinn stórhættulegur og barn síns tíma. Það er eiginlega með ólíkindum hvernig mönnum hefur dottið í hug að búa til jarðgöng lengst uppi í fjalli í 630 metra hæð og vera með 12 til 14 gráðu halla upp að þeim með byggðina á Eskifirði beint fyrir neðan, hálku á vegunum og annað slíkt. Að maður tali ekki um göngin sjálf sem í er blindhæð þar sem vonlaust er að mætast. Oft og tíðum skapast þar mikið umferðaröngþveiti, ekki síst þegar stórir dráttarbílar fara þar um. Stundum verða vandræðin það mikil að lögreglu þarf til að leysa úr þeim hnút.

Ég tel allt of seint að opna ný Norðfjarðargöng árið 2013. Það þarf að finna leið til að ganga í það. Ef menn yrðu sammála um að fara frekar í stórátak í samgöngumálum í staðinn fyrir stórátak í stóriðju næstu tvö til fjögur árin hygg ég að við gætum sameinast um að flýta framkvæmdum, þ.e. Norðfjarðargöngum, þannig að þau megi opna fyrr.