Samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010

Mánudaginn 19. febrúar 2007, kl. 16:16:45 (4986)


133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:16]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegu forseti. Það er auðvitað alveg hárrétt að það þarf að tryggja fjármuni til þessara verkefna. Þetta er heilmikill kostnaður. En það sem ég held að hljóti að verða næsta verkefni er að vinna að skipulagsmálunum, að skipuleggja hvar eigi að gera ráð fyrir hjólreiðabrautum og göngustígum sem falli undir verkefni þessara samgönguaðgerða þannig að við eigum nokkuð langt í land. Við höfum ekki gert ráð fyrir þessu hingað til, við erum að opna á þetta núna. Þar með þurfa sveitarfélögin og ríkið að sameinast um að leggja á ráðin um það hvernig staðið verður að þessu. Þetta er mjög flókið og kostnaðarsamt mál en við þurfum að taka tillit til þess og við þurfum að gera ráð fyrir þessum stígum í þágu umferðaröryggis og aukins hreyfanleika, ekki síst í þéttbýlinu.