Samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010

Mánudaginn 19. febrúar 2007, kl. 16:38:48 (4991)


133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:38]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um markmið okkar í samgöngumálum, markmið um það hvernig við stöndum að uppbyggingu, framkvæmdum og rekstri samgöngukerfisins þannig að þingmaðurinn þarf ekkert að efast um það hver vilji minn eða ríkisstjórnarinnar eða stjórnarflokkanna er. Vilji okkar birtist í samgönguáætluninni.

Það verður fróðlegt að heyra síðan hvort hann sé ósammála þeim áformum sem gera ráð fyrir sérstakri fjáröflun til að komast í þessar framkvæmdir. Það eru ýmsar leiðir til þess eins og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni og í ræðu minni og það á að sjálfsögðu eftir að útfæra það í smáatriðum. Samgönguáætlun hefur þann tilgang að marka stefnu og það er aðalatriði málsins að vilji stjórnvalda komi fram.

Það er reynt að gera það tortryggilegt að við séum að fjalla um samgönguáætlunina í lok kjörtímabilsins. Það er hins vegar lagaskylda, og hv. þingmenn verða að fallast á það hvort sem þeim líkar það betur eða verr að fara yfir samgönguáætlun og fjalla um hana í samgöngunefnd o.s.frv. Þetta er lagaskylda okkar og undan henni verður ekki vikist. Ég tel að akkúrat núna sé hinn rétti tími til þess að flokkarnir segi hvað þeir vilja í samgöngumálum. Stjórnarflokkarnir hafa markað sína stefnu, hún kemur fram í samgönguáætluninni. Ég bíð eftir því að heyra hvað Vinstri grænir vilja. Hver er stefna þeirra í samgöngumálum, bara að vera á móti öllum tillögum? Það væri fróðlegt að heyra það.