Málefni aldraðra

Mánudaginn 19. febrúar 2007, kl. 22:41:39 (5090)


133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[22:41]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef ég les þetta upp úr umsögn fjármálaráðuneytisins eða kostnaðarmatinu þá kemur fram að samkvæmt frumvarpinu mun ríkissjóður að öllu leyti taka á sig kostnað vistunarmata en gert er ráð fyrir að meðalverð hvers mats verði á bilinu 35–40 þús. kr. eða 60–70 millj. kr. á ári miðað við sama fjölda mata. Er þá gert ráð fyrir fækkun matsnefnda og auknu hagræði sem felst í því að hver nefnd vinni mun fleiri möt. Þarna er sem sagt verið að reyna að vigta það inn í að þetta eru færri nefndir og það felst aukið hagræði í því að hver nefnd vinni mun fleiri möt.

Auðvitað á talan að vera rétt og mér finnst eðlilegt að heilbrigðisnefndir skoði það hvort einhverjar líkur séu á því að kostnaðarmatið sé rangt en aðalmálið er, kannski óháð tölunni nákvæmlega, að ríkið ætlar að borga þetta og ríkið mun taka það á sig þannig að hluta er verið að létta kostnaði af sveitarfélögunum og þá verða mun hreinni línur í því hver ber þennan kostnað. Við viljum gjarnan hafa rétt kostnaðarmat en ég get a.m.k. ekki dregið niðurstöður fjármálaráðuneytisins í efa, ég hef ekki forsendur til þess.