Lokafjárlög 2005

Þriðjudaginn 20. febrúar 2007, kl. 19:10:10 (5186)


133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

lokafjárlög 2005.

440. mál
[19:10]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það var ekki rúm fyrir fleiri andsvör. Ég vil aðeins segja að ég tel að það sér rík skylda á okkur hv. þingmönnum að mæta á nefndarfundi og auðvitað er eðlilegt að tekið sé tillit til veikinda og ég geri fyrir mitt leyti ekki athugasemdir við að varamenn mæti í nefndir við afgreiðslu því að ég reikna með að það sé þannig hjá öllum flokkum að varamenn séu þá upplýstir um gang mála og geti á þeim forsendum tekið afstöðu til málsins. Ég vil aðeins, virðulegi forseti, ítreka þá afstöðu mína burt séð frá þeirri niðurstöðu sem þarna er, sem er fullkomlega á ábyrgð meiri hluta Alþingis, þ.e. hv. þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og framkvæmdarvaldsins, að það er auðvitað mun æskilegra að gengið sé þannig frá málum að nefnd sé fullskipuð eða að það sé a.m.k. þannig að hægt sé að birta niðurstöðu meiri hluta en ekki að niðurstaða meiri hluta heiti niðurstaða 1. minni hluta.