Barna- og unglingageðdeildin

Miðvikudaginn 21. febrúar 2007, kl. 12:42:03 (5207)


133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

barna- og unglingageðdeildin.

171. mál
[12:42]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að koma fram með þessa fyrirspurn. Börn og unglingar eru viðkvæmur hópur, hver mánuður skiptir máli og þegar við geðræn vandamál er að glíma má ekki verða dráttur á þjónustu eins og verið hefur. Það er okkur til vansa.

Það er okkur til vansa hvað dregist hefur að ráðast í þá byggingu sem skóflustunga var tekin að í gær. Það eru nokkur ár síðan teikningar voru tilbúnar og að það skuli þurfa að safna af almannafé og félaga til að fara af stað með slíka byggingu er hryggileg staða. Það þarf að stórauka geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga og geðheilbrigðisþjónustuna í hinni almennu heilsugæslu. Þetta á að vera hluti af almannaþjónustu. Við verðum að fara að koma sálfræðingum inn í greiðslufyrirkomulag Tryggingastofnunar ríkisins og reyna að koma þessu í lag. Það væri hægt að hafa mörg orð um þetta en ég ætla að vona að við förum að sjá fjármagn inn í þennan málaflokk.